05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2675 í B-deild Alþingistíðinda. (3704)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég skal með ánægju upplýsa fyrirspurn hv. þm. G.-K. að því leyti, sem ég get. Stj. sölusambands ísl. matjessíldarframleiðenda skipa 5 menn, þeir Steindór Hjaltalín, Ásgeir Pétursson, Hafsteinn Bergþórsson, Ingvar Guðjónsson og ég. Í grg. frv. eru meðmæli frá 3 mönnum úr þessari stj., 2 sjálfstæðismönnum og 1 jafnaðarmanni, með því að setja skipulag á síldarsöluna líkt og farið er fram á í frv. 2 úr stj., Steindór Hjaltalín og Ásgeir Pétursson, voru ekki viðstaddir, þegar þessi áskorun var samin, en þetta hefir verið borið undir þá síðan, og þeir hafa látið það hlutlaust. Hvað viðvíkur félagsmönnum í þessu samlagi að öðru leyti, skal ég taka það fram, að ég held, að þetta mál hafi ekki beinlínis verið rætt á fundi samlagsins, en aftur á móti hefir verið rætt um það sérstaklega að halda áfram síldarsamlaginu í svipuðu formi og það er nú, og ég ætla, að álit manna um það hafi verið mjög skipt, þannig að um helmingur hafi verið með því og helmingur á móti. En það, sem einkennir þá atkvgr., er það, að þeir, sem eru bæði útvegsmenn og saltendur, vilja allir hafa skipulag á þessari síldarsölu, en þeir, sem eru aðeins saltendur, standa á móti því, m. ö. o. þeir, sem ekki hafa annað en spekúlationsinteressur í þessu máli.

Ég get ekki upplýst þetta nánar, en ég held, að ég eigi einhversstaðar í fórum mínum plögg um það, hvernig álit manna skiptist í þessu máli, og ég held, að á þeim fundi, sem þetta var til umr., hafi enginn útgerðarmaður, sem jafnframt var síldarsaltandi, fyrirfundizt, sem ekki hafi viljað hafa eitthvert skipulag á síldarsölu í svipaða átt og hér er farið fram á. — Ég skal einnig geta þess, að það eru margir útgerðarmenn, alveg án tillits til stjórnmálaskoðana, sem vilja hafa hreina einkasölu á síldarverzlun, en ekki frjáls félagssamtök, eins og aðallega er gengið út frá í þessu frv.