05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa máls talaði ég á við og dreif um málið og lýsti skoðun minni á því í heild sinni, en fór ekki neitt út í einstök atriði. Ég sagði frá því þá, að eins og kunnugt er, hafi fyrrv. forsrh. gert mjög ítrekaðar tilraunir í fyrra til þess að fá síldarútflytjendur til þess að bindast föstum samtökum. Ég er á sama máli og hv. þm. Ísaf. að því leyti, að það þurfi að vera samtök um útflutning á síld, en hitt greinir okkur vitanlega á um, að hann kýs hina valdboðnu leið í þessu efni, en ég kysi heldur frjáls samtök, en ég verð að játa, að þau virðast ekki vera framkvæmanleg eftir þá reynslu, sem við höfðum síðastl. haust á fundi, sem haldinn var með síldarútflytjendum.

Nú fór það svo, eins og vitað er, að matjessíldarsamlagið var stofnað, og að því er ég hygg fékk það stoð í l. með bráðabirgðalöggjöf. En ég man nú ekki eftir því að hafa séð þetta frv. eða nein bráðabirgðal. lögð fyrir þetta þ. snertandi matjessíldarsamlag. Það getur nú að vísu verið, að mig misminni það, þar sem slíkur sægur af bráðabirgðal. hefir verið lagður fyrir þetta þ. Maður skyldi nú annars ætla, að það hefði verið talsverð bót, að þessu matjessíldarsamlagi var komið á, og á þann hátt, að það var beinlínis styrkt af löggjöfinni, og mig undrar því, að ekki skuli mega búa nema eina einustu vertíð við þessa ráðstöfun.

Hv. þm. Ísaf. er nú genginn út í bili, en mig hefði langað til að spyrja hann, því það hefði verið fróðlegt fyrir d. að fá einhverjar skýringar á því, hvernig á því stæði, að þetta samlag hefir ekki náð tilgangi sínum. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. atvmrh. nú á dögunum, að hann sagði, að það mundi nú vera að því komið að leysast upp. Hv. þm. Ísaf. sagði, að á þessum fundi hefði helmingur fundarmanna viljað halda áfram síldarsamlaginu, en hinn helmingurinn ekki. Ekki getur þetta þó verið af því, að síldarsamlagið hafi átt í svo miklu basli með að selja síldina í ár, þar sem kunnugt er, að miklu minna var framleitt af matjessíld á síðasta ári heldur en venjulega hefir verið. Ég veit ekki um tunnutöluna, svo að ég megi fara með það, en hitt veit ég, að það var miklu minna framleitt af þessari vöru heldur en áður hefir verið.

Það er fullkomin ástæða til þess að spyrja um það, þegar nú þetta einkasölufrv. er lagt fram, sem hér er til umr., hvernig það megi ske, að þetta matjessíldarsamlag, sem hefir verið stofnað og verið hefir styrkt með löggjöf, sé komið í upplausn, eins og hv. þm. sagði, og það þrátt fyrir það, að síðan það var stofnað, hefir verið minni síld til þess að selja en áður. Mér er þetta ráðgáta. Ég hefi satt að segja ekki þá þekkingu á því, hvað gerzt hefir í þessum síldarmálum í sumar, að ég geti gert mér það ljóst, hvaða ástæða liggur til þess, og því síður hygg ég, að það muni kunnugt Alþ. yfir höfuð að tala. Þess vegna er það, að um leið og nú skal tekið svo djúpt í árinni sem hér má sjá af þessu frv., þá er það bæði rétt og skylt af hv. þm. Ísaf., að hann gefi þingheimi glögga og greinilega skýrslu um það, hvernig stendur á því, að ekki er hægt að doka við með að setja aftur á einkasölu á síld, og hvernig stendur á því, að matjessíldarsamlagið, sem stutt er með löggjöf, getur ekki fullnægt í þessu efni, eða a. m. k. svo vel, að við megi una.

Hv. þm. Ísaf. var ekki inni áðan, þegar ég minntist á það, að matjessíldarsamlagið hefði tengið stoð í bráðabirgðal. Hinsvegar rekur mig ekki minni til þess, að þau 1. hafi komið fram í sjútvn., en vel getur verið, að mig misminni þetta, vegna þess, að svo mörg bráðabirgðal. hafa legið fyrir þessu þingi.

Ég hefði viljað koma með einhverjar brtt. við þetta frv., og mun reyna að gera það fyrir 3. umr. málsins. Ég skal hinsvegar fyllilega játa vanmátt minn í því, að bera fram frá eigin brjósti ýtarlegar till. um það, hvernig skipa skuli síldarútflutningnum, þar sem ég tel mig ekki hafa nóga þekkingu á því máli til þess. Hitt tel ég nauðsynlegt, að þetta mál sé athugað gaumgæfilega, og þó einkum það, hvort í raun og veru liggi fyrir full ástæða til þess að setja aftur á fót síldareinkasölu. Því að ég vænti, að engan mann þurfi að undra það, þó að það skipulag út af fyrir sig sé þyrnir í augum margra þm. Það hlýtur að vera þyrnir í augum allra þeirra manna, sem enn hafa nokkuð í minni afdrif hinnar fyrri síldareinkasölu. En sem sagt, það er á þessum tímum bezt að tala varlega um alla hluti, og er allt um þrýtur, þá getur vel verið, að það þurfi sterkari bönd á þennan atvinnuveg en áður voru reyrð með matjessíldarsamlaginu. Ég skal játa það, að ég hélt, þegar matjessíldarsamlagið var sett á stofn og gert að l., að þá væri þessu máli borgið. a. m. k. um nokkurn tíma. Mér finnst því, að ég verði fyrir vonbrigðum, þegar nú þarf að gera slíkar ráðstafanir og hér liggur fyrir að gera, eða er álitið af kunnugum mönnum, að gera verði.

Þá vil ég ennfremur spyrja hv. þm. Ísaf. um það, hvort hann álíti, að ekki megi gera nægilega tryggan félagsskap utan um þetta, án þess að stefna beint til einkasölu.

Í grg. frv. segir, að þetta frv. sé flutt samkv. ósk atvmrh., og það er náttúrlega allrar virðingar vert, þegar stj. tekur sig fram um að skipa málum sem þessum, en þó bezt, þegar það er til bóta. En það er ekkert um það talað í grg. frv., að neinar óskir hafi komið frá þeim atvinnurekendum til sjós eða lands um þetta efni, sem að þessum atvinnuvegi standa. (FJ: Svo-o?). Ég veit, að hv. þm. Ísaf. vísar til stj. matjessíldarsamlagsins. Það er nú sýnilegt, hvernig þar er ástatt innan veggja, þegar yfirlýsing hv. þm. liggur fyrir um það, að hann vill fara í vestur, þegar hinn vill fara austur. Ég get þess vegna ekki lagt það í álit stj. matjessíldarsamlagsins, að þar sé að ræða um vilja alls almennings, sem við síldarútgerð fæst, og þetta átti ég við, þegar ég sagði, að frv. væri ekki flutt eftir óskum þeirra framleiðenda, sem við málið koma.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Ég endurtek það, að ég vonast til þess, að hv. þm. Ísaf. gefi glögga, greinilega og óhlutdræga skýrslu um þetta, því að það er ákaflega alvarlegur hlutur, sem þingið hefir til meðferðar, þegar það er að skipa atvinnumálunum, eins og hér er lagt til í þessu frv. Og ég vil segja það, að þar sem flestir af hv. þdm. bera nauðalítið skyn á útfærsluatriði þessarar greinar, þá sé sannarlega ekki vanþörf á því, að þeir mennirnir, sem hafa komið eitthvað að þessum málum og vilja taka á sig ábyrgðina af því, að ráðleggja þinginu að breyta enn til í þessum efnum, — að þeir færi glögg og greinileg rök fyrir sinn máli, og ekki sízt, þegar svo róttæk breyt. á fram að fara eins og hér er um rætt, sem sé, að stefna málinu inn á einkasölubrautir.