05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (3711)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jónas Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umræður. En ég vildi gera þá aths. við 1. gr. frv., að mér þykir þar vera gengið framhjá Austfirðingum, þar sem þeim er eigi ætlað að hafa nein áhrif á skipun n. og Austurlandi ekki ætlaður neinn fulltrúi til að gæta hagsmuna þess landsfjórðungs, og er þó n. ætlað að hafa með höndum úthlutun útflutningsleyfa, veiðileyfa til verkunar o. s. frv. Í gr. er þó sagt: „Nú er stunduð síldveiði til verkunar á Austfjörðum, og skal nefndin þá skipa sér þar fulltrúa í samráði við útgerðarmenn á Austurlandi“. Þetta virðist aðeins ná til verkaðrar síldar, og mér er ekki alveg ljóst, hvernig hv. sjútvn. meinar þetta. Það er nú svo, að síld er flutt út frá Austfjörðum, þó að varla sé hægt að segja, að um verkun síldar sé að ræða, því að hún er að mestu leyti flutt út ísuð eða þá alveg ný. Ég vildi óska, að flm. frv. breyttu þessu þannig, að skipaður skuli sérstakur fulltrúi fyrir Austurland. Ég fer ekki fram á, að austfirzkum útgerðarmönnum sé skipað að kjósa í n., af því að síldarútgerð er þar á byrjunarstigi. En þar er þó komin á fót ein síldarverksmiðja og þannig lagður grundvöllur að því, að síldarútgerð þaðan geti átt sér stað, og í fjárl. er gert ráð fyrir, að reisa megi aðra bræðslustöð á Seyðisfirði, og eykur það nauðsynina á því, að síldarútgerðarmenn á Seyðisfirði eigi fulltrúa í n. Austfirðingar hafa hér nokkra sérstöðu vegna útflutnings á ísaðri síld, en hún er venjulega flutt út í smáum stíl og ekki hægt að tryggja fyrirfram ákveðið „kvantum“. Virðist ekki til mikils mælzt, að Austfirðingar fái sérstakan fulltrúa til að annast um hagsmuni Austfirðinga í þessu efni.