18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

139. mál, smjörlíki o.fl.

Páll Hermannsson:

Ég hefi ásamt hv. 4. landsk. þm. borið fram brtt. á þskj. 847, sem er um það, að í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ komi „mjólkursölunefndin“. Það er gert ráð fyrir því í 2. málsl. sömu efnismálsgr., að atvmrh. geti eftir till. B.fél. Ísl. ákveðið, að í öllu smjörlíki, sem framleitt er hér á landi, skuli vera ákveðinn hundraðshluti af smjöri. Aftur á móti er ákvæði í 9. gr. frv. til l. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma, sem liggur fyrir þinginu, þar sem gert er ráð fyrir að blanda smjörlíki með smjöri, ef tregða reynist um sölu smjörs, og skuli landbúnaðarráðh. þá ákveða það eftir till. mjólkursölunefndar. Hér er sjáanlega ósamræmi, þar sem á öðrum staðnum er Búnaðarfél. Ísl., en á hinum staðnum mjólkursölunefndin. Mér skilst, að það sé því eðlilegra, að samræmi verði hér á milli, og að menn hljóti að vera sammála um það.

Þá má geta þess, að frv. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma er ekki orðið að lögum, en virðist nú vera komið í það horf, að það verði að lögum. Ég geri ráð fyrir, ef hv. deild vill fallast á till. okkar hv. 4. landsk. þm., megi láta 9 gr. frv. um meðferð og sölu mjólkur og rjóma falla niður af því þá verður hér í þessum lögum skýrt tekið fram þetta ákvæði. Þó er það auðvitað ekkert aðalatriði, heldur hitt, að fært sé til samræmis. Ég lít svo á, að eins og nú standa sakir sé eðlilegra, að mjólkursölunefndin hafi þetta með höndum.