05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (3715)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði út af samtökum þeim, er mynduð voru á síðastl. sumri um sölu vissrar teg. síldar.

Mér þykir það því undarlegra, sem árangurinn af þessum frjálsu samtökum reyndist góður, að nú skuli vera horfið frá þessu og að hinu, að rígbinda þetta í fastar skorður og kjósa leið einkasölunnar. Það er sannarlega mjög undarlegt, að þessi stefnubreyt. skuli koma fram nú, er búið er að nema úr l. síldareinkasöluna, og viðurkennt er, að það hafi verið nauðsyn fyrir útveginn. En e. t. v. hefir hv. sjútvn. búið yfir því frá upphafi að færa málið inn á þessa braut. Frá því að bráðabirgðal. voru lögð fram í þingbyrjun og vísað til sjútvn., hefir n. fólgið frv. svo vandlega, eða öllu heldur formaður n., að fennt er yfir endurminninguna um, að því hafi nokkru sinni verið vísað til n.

Stjórnarflokkarnir munu því frá öndverðu hafa tekið þá ákvörðun að koma aftur á einkasölu og nota meirihlutavald sitt á þinginu til þess að hverfa frá frjálsu samtökunum yfir á braut einkasölunnar. Bráðabirgðal. er ekki hirt um, heldur eru þau grafin niður, og sýnir það, hver tilgangurinn er. Þetta má heita einkennilegt, þegar það er viðurkennt, að l. hafa orðið til hagsbóta fyrir síldarútveginn. Síldareinkasalan hinsvegar kom þessum atvinnuveg niður í þá mestu niðurlægingu, sem dæmi þekkjast til um nokkra atvinnugrein. Síðasta árið, sem einkasalan var, var svo komið, að enda þótt hún hefði fengið alla síldina fyrir ekkert, þá hefði það ekki hrokkið. Ríkissjóður verður nú að standa skil á einni millj. af skuldum einkasölunnar og er þegar byrjaður að borga af þessu fé.

Þá vildi ég minnast á ákvæði 1. gr. frv. Hv. formaður sjútvn. gaf mér þá viðurkenningu, að það væri rétt hjá mér, að eigi væri rétt skipt áhrifavaldinu milli landshluta um það, hverjir kysu í þessa sjö manna síldarútvegsn. Útgerðarmenn eiga að skipa fjóra menn í n., en Alþýðusamband Ísl. tvo og ráðh. einn. Við nánari athugun kemur það hinsvegar í ljós, að réttur Sunnlendinga er hér gersamlega fyrir borð borinn; gegnir sú dirfska furðu, að fótumtroða svo rétt þeirra, er gera út frá Suðurlandi, að leggja það á vald manna norðanlands, hvort nokkurt skip skuli gert út frá Suðurlandi, og það af því m. a., að Norðurland mun í framkvæmdinni fá yfirtökin í n. Þetta liggur í því, að Austfirðir og Norðurland eiga að hafa 2 fulltrúa í n., Vestfirðingar einn. Það eru 3, en Suðurland með allan sinn slóra síldveiðiflota á að hafa aðeins einn fulltrúa á móti hinum 3. Svo er ætlazt til, að Alþýðusambandið tilnefni 2 menn, og það bezta, sem Sunnlendingar geta vænzt um skipun þeirra, er, að annar verði tekinn af Suðurlandi, en hinn af Norðurlandi. Og þó svo færi, að hæstv. ráðh. skipaði þann mann, sem hann á að velja í n., af Suðurlandi, þá verða Sunnlendingar samt í minni hl. í n., en við því er ekkert frekar að búast, að ráðh. skipi mann af Suðurlandi í n. Þetta er vitanlega algerlega óforsvaranlegt að fela slíkri nefnd yfirráð um það tvennt, hverjir megi gera út og hverjir fái útflutnings- og söltunarleyfi. Það er óforsvaranlegt með skipun einnar n. að gera þannig upp á milli landsfjórðunga eins og gert er í frv., og nær ekki nokkurri átt að lögfesta slíkt. Ef þetta frv. nær fram að ganga, sem stjórnarflokkarnir munu nú vera búnir að ákveða og hafa ef til vill verið búnir að ákveða m. a. s. áður en þing kom saman, e. t. v. um leið og bráðabirgðal. stj. komu út í sumar, þá er það gersamlega óforsvaranlegt, ef ekki verður gætt meiri jafnaðar og réttlætis um áhrifavald á skipun n. Ég býst við, að þetta komi enn greinilegar í ljós, þegar fyrir liggja skýrslur um þátttöku landsmanna í sjávarútveginum að með því að láta Austfirðinga, Norðlendinga, Vestfirðinga og Sunnlendinga alla hafa sinn manninn hver í n., þá liggur í augum uppi, að réttur Sunnlendinga er gersamlega fyrir borð borinn. Þær skýrslur skulu koma hér fram fyrir 3. umr.

Út af því, sem hv. frsm., þm. Ísaf., sagði, að frv. þetta gerði ekki ráð fyrir einkasölu, nema aðrar leiðir reyndust ófærar, þá vil ég segja, að það er nú svo með þetta frv., eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, að það er þannig, að þeir menn, sem bera það fram, álíta og byggja sína stjórnmálastarfsemi á því, að einkasala sé heppilegasta fyrirkomulagið á verzlun landsmanna. Það er því gefið, að þessu frv. er ætlað að beina síldarsölunni inn á einkasölubraut. N., sem á að skipa, hefir allt valdið. Hún getur tekið alla söluna undir sig, ef henni sýnist, og hún getur fengið viðkomandi ráðh. til að fallast á það. Og þá verður að engu haft, þó til verði aðilar, sem vilji taka að sér síldarsöluna, heldur verður í framkvæmdinni öllu siglt til einkasölu, ekki sízt þar sem þetta mál heyrir undir þann ráðh., sem vitanlegt er um, að álítur einkasölu heppilegasta fyrirkomulagið. Það er því ekki hætta á fyrirstöðu á því, að þetta verði endir málsins.

Mér finnst frv. sniðið eftir pólitískum kringumstæðum í landinu, fyrst og fremst með tilliti til þeirrar aðstöðu stjórnarflokkanna á Alþ., að geta samþ. l. um einkasölu, og líkindi til þess, að stj. framkvæmi 1. Enda svo framarlega, sem þessir flokkar vilja vera sinni stefnu trúir, þá hljóta þeir að sækjast eftir einkasölu, enda þarf ekki að fara í grafgötur um það, frv. er þannig byggt, að aðrar leiðir en einkasala eru ekki tilnefndar nema til málamynda, því með frv. er gefin krókalaus og opin leið til þess að færa síldarsöluna í einkasöluform.