05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (3718)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég þarf fyrst að svara fyrirspurn frá hv. þm. G.-K. Hv. þm. spurði að því, hvort þeir, sem beittu sér á móti samtökum síldarútvegsmanna, væru einkum þeir, sem gættu erlendra hagsmuna. Ég skal leitast við að svara þessu, eftir því, sem ég get. Það er mjög algengt, að menn semji við erlenda síldarkaupendur á þann hátt, að hinir erlendu síldarkaupendur leggi til tunnur og salt, en þeir, sem salta, kaupi síldina óverkaða og leggi til vinnu við söltunina. Nú eru það nokkuð margir, sem gera svona samninga, og e. t. v. útgerðarmenn sem salta fyrir eigin reikning, og það er ekki hægt að segja með vissu, hvað margir salta fyrir reikning erlendra kaupenda, þeir eru þó nokkrir. Hvað margir þessir menn eru, er ekki hægt að segja með neinni vissu, það er erfitt að sanna það. En það er enginn vafi á því, að þeir, sem hafa svona hagsmuna að gæta, beita sér á móti öllum samtökum síldarútvegsmanna. Í öðru lagi vil ég benda á, að hagsmunir innlendra saltenda, sem ekki eru útgerðarmenn, rekast talsvert á í þessu efni, því að saltendur, sem síld kaupa, vilja vitanlega kaupa hana fyrir sem lægst verð, og þeim er illa við öll samtök síldarútvegsmanna, sem miða að því að fá hækkað verð á síld til söltunar. Af þessari ástæðu er það, að hagsmunir saltenda, sem ekki eru útgerðarmenn og kaupa síld, rekast á við hagsmuni síldarútvegsmanna. En í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er sérstaklega gert ráð fyrir því, að hagsmuna útvegsmanna sé gætt, þar sem það eru útvegsmenn sjálfir, en ekki saltendur, sem kaupa síld, sem eiga að kjósa menn í n.

Ég ætla, að við séum sammála um það, ég og hv. þm. G.-K., að rétt sé af hv. Alþ. að styðja að því, að söluhagnaðurinn geti sem mest runnið til útgerðarmanna sjálfra, en ekki milliliðanna. Ég hygg, að ég hafi með þessu svarað fyrirspurn hv. þm. G.-K.

Hv. þm. Borgf. þarf ég í raun og veru ekki miklu að svara. Að vísu var hann að bera mér á brýn, að ég hefði falið hjá sjútvn. frv. það, er ríkisstj. lagði fyrir þingið út af bráðabirgðal. Það er ekki rétt, það var lagt fyrir n. á sínum tíma og er á málaskrá hennar. En ætlunin var að geyma það í þeirri von, að þetta frv. næði samþ. Alþ. Nú er það dálítið einkennilegt, að hv. þm. Borgf., sem talaði með ágæti þessa bráðabirgðalagafrv. stj., sem hann segir, að hafi lent í salti hjá sjútvn. og harmar, að það skuli ekki koma fram í d., mælir gegn frv., sem meiri hl. sjútvn. ber fram, sem er að vísu dálítið víðtækara en fyrra frv., en bæði frv. miða í sömu átt og bráðabirgðal. og frv. það, er lagt var fram í sambandi við þau, og er það engu síður einkasölufrv. heldur en það, sem hér er á dagskrá, heldur miklu fremur, því að þar er beinlínis gert ráð fyrir í því frv., að ríkisstj. geti haft með höndum útflutning á léttverkaðri saltsíld og bannað öðrum að flytja út léttverkaða síld. Þá getur stj., ef henni þykir nauðsyn bera til, farið eftir ákvæðum þessara 1. um fleiri teg. saltsíldar, ennfremur er ríkisstj. heimilt að ákveða, að sérstök n. fari með framkvæmd þessara 1. Það var gert í sumar og sett á stofn einkasala á matjessíld samkv. bráðabirgðal. og það var hægt að setja upp samskonar einkasölu á allri síld. En í því lagafrv., sem hér liggur fyrir, er hinsvegar gert ráð fyrir beinlínis frjálsum samtökum síldarútvegsmanna sjálfra. Svo að þess vegna er óþarfi af hv. þm. Borgf., af því að hann er á móti einkasölum, að vera sérstaklega að mælast til, að frv. til 1. á þskj. 28 sé tekið fyrir og tekið fram yfir þetta, af því að það er í ennþá ríkara mæli einkasölufrv. en það, sem hann er hér að mæla á móti. Ég vil telja það kost á því frv., sem hér liggur fyrir, að það er fyrst og fremst miðað við skipulag útvegsmanna sjálfra. Það þykir mönnum kannske undarlegt, af því að ég sé að öðru leyti einkasölumaður, en ég get sagt það að einkasala á svona vöru, sem er sett á stofn beinlínis á móti vilja þeirra, sem eiga að framkvæma hana, er að mínum dómi í fæstum tilfellum heppileg, þó að svo kynni að fara að hún undir vissum kringumstæðum geti orðið nauðsynleg. En í þessu frv. er sérstök áherzla lögð á skipulagningu frá síldarútvegsmönnum sjálfum, en ef þeir ekki fást til að framkvæma skipulagninguna sjálfir, getur verið nauðsynlegt að lögbjóða hana, og það er engu síður hægt eftir því frv., sem er á þskj. 28, heldur en eftir því frv., sem hér er á dagskrá, nema fremur sé.

Ég sé nú litla ástæðu til að endurtaka það, en ég hefi fært fyrir því rök, að frá síldarsölumönnum sjálfum hafa komið ákveðnar raddir um skipulagningu síldarútvegsmálanna, á þann hátt, að síldarsalan sé öll á einni hendi. Ég vísa til grg. frv. um þetta og ítreka, að það er fjarri því, að þær fari nokkuð eftir stjórnmálaskoðunum eða flokkum, þessar ályktanir, heldur er þvert á móti af þeim mönnum, sem hafa látið í ljós ákveðnar skoðanir um þetta mál, meiri hlutinn sjálfstæðismenn.

Út af því, sem drepið var á um samninga við aðrar þjóðir, var það upplýst af hv. þm. Vestm., að hann hefði komizt að raun um í sinni utanför í fyrra, að hægt væri að selja einu landi ákveðna tunnutölu af síld fyrirfram, ef hægt væri að tryggja, að ekki kæmi meira en sú ákveðna tunnutala. Þetta gildir í fleiri löndum, og það er ein höfuðástæðan fyrir því, að nauðsynlegt er að skipuleggja síldarsöluna, og það mun vera hægt að tryggja með fyrirfram ákveðnu verði talsvert mikla síldarsölu einmitt í gegnum skipulagningu á síldarsölunni. Það er vitaskuld aldrei hægt að tryggja með löggjöf, að síldarútvegurinn beri sig, en það er hægt að tryggja með löggjöf að svo miklu leyti, sem mögulegt er, að hún beri sig betur, frekar en með löggjafarleysi, eins og nú standa sakir.

Ég held nú raunar, að ég þurfi ekki að svara hv. 8. landsk. En hann var að brýna mig á því, að ég þyrfti að koma hreint til dyra. Þessi hv. þm. er nú kunnur að því að vera hreinskilinn og djarfur sjálfur, svo að það er von, að hann geri þær kröfur til annara. Ég hefi komið hreint til dyra, það get ég sagt hv. þm. Ég segi það, sem ég álít, að sé síldarútveginum og atvinnu landsmanna fyrir beztu. En út af því, sem hv. þm. sagði um síldarverðið 1933 og 1934, þá vil ég taka það fram, að matjessíldin var mest öll seld í umboðssölu 1933, og talsverður hluti hennar var sendur niður til hafnarborga í Póllandi og Þýzkalandi. Ekkert var borgað fyrir hana áður en hún fór af stað, kaupendurnir ákváðu sjálfir, hvað þeir vildu gefa fyrir hana. Þeir skoðuðu síldina þegar hún kom út og dæmdu fram undir 1/3 af henni óhæfa markaðsvöru. Nú er aftur á móti farið svo að, að engin tunna er seld öðruvísi en að vera skoðuð hér heima áður en hún er send, og árangurinn hefir orðið sá, að úr síldinni hefir gengið hverfandi lítið, a. m. k. á móts við það, sem úr henni gekk 1933. Ég þori því að fullyrða, að meðalverð á matjessíld er a. m. k. 30 til 40% hærra nú heldur en var í fyrra. Það er að vísu ekki útséð um síldarsöluna ennþá, og það getur verið, að síldarsölusamlagið fái einhver skakkaföll, ef illa færi með gjaldeyrinn til Þýzkalands, en nú lítur út fyrir, að niðurstaðan verði sú, sem ég nú hefi skýrt frá.