20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

1. mál, fjárlög 1935

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er till. frá Bændafl. um greiðslu á styrk til mjólkurbúa, sem ég vildi segja nokkur orð um áður en gengið er til atkv. — Eins og ákveðið er í l. frá 1933, er svo fyrir mælt, að greiða skuli mjólkurbúum styrk, mjólkurbúinu við Ölfusá, á Akureyri og mjólkurbúi hér í Reykjavík. Þennan styrk á að taka á þann hátt, að það á að láta Mjólkurbú Flóamanna greiða nokkuð af þeirri skuld, sem það nú stendur í við ríkissjóð, og jafna því framlagi, sem þannig fæst á hin búin til uppbótar, þannig að greidd verði sú upphæð, sem ákveðið er í l. frá 1933. Það er litið þannig á og eðlilegast að skilja l. á þann veg, að ekki sé ætlazt til, að greiddir séu peningar úr ríkissjóði til þess að bæta búunum upp þá upphæð, sem þau eiga að fá samkv. þessum l. En á þinginu 1933 var samþ., með undirskrift meiri hl. þm. úr báðum d., að ríkissjóði væri heimilt að skilja þessi l. á þann veg, að fé þetta væri greitt úr ríkissjóði, ef ekki væri hægt að koma greiðslunum í kring á þann hátt, að taka þetta fé frá Mjólkurbúi Flóamanna. Nú er farið fram á það í þessari till. frá Bændafl., að ríkisstj. sé heimilað í bráðina að greiða fé úr ríkissjóði til mjólkurbúanna, sem annars er ætlazt til, samkv. ákvæðum l. frá 1933, að tekið verði af Mjólkurbúi Flóamanna.

Ég vil í þessu sambandi aðeins taka það fram, að ég álít, að það sé óþarft að samþ. þessa till., vegna þess, að samkv. þeirri undirskrift meiri hl. þm. úr báðum d. á aukaþinginu 1933, sem ég minntist á áðan, hefir þessi heimild verið gefin fyrrv. stj., og heimildin hefir þess vegna verið til í heilt ár, og er til enn. Og ég mun líta svo á, að ef ekki verður hægt að koma þessum greiðslum í kring á þann hátt, sem aðallega er gert ráð fyrir í l. frá 1933, þá sé samkv. heimild, sem gefin var á aukaþinginu 1933, ríkisstj. heimilt að greiða peningana úr ríkissjóði. Ef þessi till. væri samþ., þá væri þess vegna aðeins verið að samþ. þá heimild, sem fyrrv. ríkisstj. hafði og notaði ekki og þessi ríkisstj. hefir og mun nota, ef ekki er hægt að koma þessum greiðslum í kring á þann hátt, sem 1. frá 1933 gera ráð fyrir. Af þessum ástæðum er algerlega óþarft að samþ. heimild í þessa átt, þar sem sú heimild hefir verið til í heilt ár.