05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (3722)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hefi nú e. t. v. nokkra sérstöðu í þessu máli, þannig, að ég er í raun og veru alveg mótfallinn allri slíkri lagasetningu sem þessari. Það má segja, að neyðin reki til þess, að í sumum greinum séu sett slík 1., sem ganga í þá átt, að taka fram fyrir hendur manna um sölu á framleiðsluvöru þeirra, en ég get ekki séð, að nokkur ástæða sé til slíks í sambandi við síldarútveginn, og ég vil vekja athygli hv. dm. á því, að hvað snertir aðrar vörur hefir breyt., sem orðið hefir á síðustu árum, farið í þá átt, að réttlæta það meira, að slíkar þvingunarráðstafanir væru gerðar um sölu afurða, en hvað síldina snertir er það alveg gagnstætt. Áður var það svo, að markaður fyrir verkaða síld var mjög þröngur, aðallega í Svíþjóð. Það var að vísu selt meira og minna til Eystrasaltslandanna, en nú er sá markaður lokaður. En nú á síðustu árum hefir það breytzt þannig, að stórir markaðir hafa opnazt í Mið-Evrópu, í Þýzkalandi og Póllandi sérstaklega, og enginn vafi er á, að við þann markað eru miklir framtíðarmöguleikar bundnir og líkur til, að sala til þessara landa fari vaxandi, og þar af leiðandi því síður ástæða til að setja slíka löggjöf sem þessa að því er síldina snertir.

Ég minnist þess, að hv. frsm., form. sjútvn., vakti athygli á því við fyrstu umr. þessa máls, að svipaðar ráðstafanir mundi vera í ráði að gera í Bretlandi. Mætti af því sjá, hvað mikil nauðsyn væri að gera slíkar ráðstafanir hvar sem væri um sölu síldar. En eftir því sem ég veit bezt, er allt öðru máli að gegna um brezku síldveiðarnar heldur en þær íslenzku, að því leyti, að mér skilst, að markaðurinn fyrir brezku síldina sé að þrengjast, og ég hygg, að það stafi m. a. af því, að ísl. markaðurinn er að víkka. Það er að segja, að ísl. síldin, sem boðin mun vera fram fyrir lægra verð heldur en krafizt hefir verið fyrir hina brezku, er af eðlilegum ástæðum að útrýma brezku síldinni af markaðinum. Þetta gerir verulegan mun á aðstöðunni. Í annan stað hygg ég líka, að síldveiðarnar við Bretland séu reknar á allt annan hátt heldur en síldveiðarnar hér við Ísland. Ég held, að þar sé aðallega stunduð reknetaveiði, og hún krefur hærra verðs. Hér er síldveiðin aðallega stunduð með snurpinótum og veitt jöfnum höndum til verkunar og bræðslu. Það er atriði, sem breytzt hefir mjög á síðustu árum og gerir það að verkum ásamt öðru, að minni ástæða er til slíkra ráðstafana sem hér er um að ræða heldur en áður var. Nú er svo komið, að því hefir a. m. k. verið haldið fram hér af stjórnarflokkunum, að möguleikarnir til að koma síldinni í verð með því að bræða hana séu orðnir svo miklir, að það sé jafnvel ástæða til að leggja bann við því, að þeir möguleikar verði auknir, þ. e. a. s. banna, að fleiri síldarbræðsluverksmiðjur verði reistar heldur en þegar hafa verið byggðar og ráðstafanir hafa verið gerðar til, að byggðar verði. Áður var eini möguleikinn til að koma síldinni í verð, sá, að verka hana til útflutnings, og þar sem um svo tiltölulega mikla veiði var að ræða sem hér hefir verið, meðfram vegna þess, hvernig veiðarnar eru reknar, þá var bersýnilegt, að með þeim markaði, sem þá var, var mikil ástæða til þess að leggja hömlur á framboðið. Hinsvegar er svo komið nú, að útgerðarmenn geta komið allri þeirri síld í verð, sem þeir veiða, ýmist með því að verka hana til útflutnings eða láta hana í bræðslu.

Nú er það að vísu svo, að það er sagt, að það borgi sig verr að veiða síld til bræðslu heldur en til verkunar, eins og rétt er, þar sem verðið fyrir bræðslusíldina er lægra. En hinsvegar er þess að gæta, að veiðar til hræðslu bera sig betur en ella, vegna þess, að hægt er að veiða miklu meira, ef haft er eingöngu fyrir augum að veiða í bræðslu. Þess vegna hygg ég, og það er reynsla fyrir því, að meiri hl. veiðiflotans geti stundað síldveiðar með það eitt fyrir augum, að selja síldina til hræðslu. Það á sérstaklega við um hin stærri skip, a. m. k. togarana, sem geta veitt svo mikið í hverri veiðiför, að það borgar sig að selja síldina í bræðslu, þótt verðið sé lægra.

Þetta til samans gerir það að verkum, að ég verð að líta svo á, að ástæðan til þess að setja slíka þvingunarlöggjöf sem hér er um að ræða, um sölu þessarar framleiðsluvöru, séu ekki fyrir hendi; það sé ekki þörf á henni, það sé hægt með frjálsri sölu að koma í verð allri þeirri síld, sem veiðist hér við land.

Svo er fleira, sem gæta verður að í þessu sambandi, m. a. það, að þannig er háttað um fjáröflun til þessa atvinnurekstrar, að það er svo að segja ekki um önnur úrræði fyrir útgerðarmenn að ræða, til þess að geta stundað þessa veiði, heldur en að semja við kaupendurna um að fá nokkurn hluta af andvirði þeirrar síldar, sem þeir gera ráð fyrir að selja þeim, greiddan fyrirfram. Það hefir mikið verið prédikað um leppmennsku hér á Alþ. í sambandi við þessa söluaðferð, en þær prédikanir eru byggðar á hreinum hugsunarvillum. Það er algerlega óréttmætt að kalla það leppmennsku, þó menn semji fyrirfram um sölu á vöru, sem þeir væntanlega framleiða, og síldarsalan fer einmitt að miklu leyti þannig fram. Sú raunverulega leppmennska, sem áður gerði vart við sig, en nú er að mestu leyti úr sögunni, var þannig, að ísl. menn tóku að sér að annast útgerð erlendra skipa. Sá möguleiki er ekki lengur fyrir hendi, og þess vegna þarf ekki að setja neina löggjöf með það fyrir augum, að fyrirbyggja leppmennsku. Sú viðskiptaaðferð, að semja fyrirfram um söluna, er fyllilega réttmæt, enda hygg ég, að hún hafi tíðkazt á öðrum sviðum, þar sem miklu minni ástæða er til. Ég sé sannast að segja ekki, hvernig farið yrði að halda síldarútgerðinni nokkurnveginn í horfinu, ef útgerðarmenn væru algerlega sviptir möguleikanum til þess að selja fyrirfram og fá þannig fé til atvinnurekstrarins, án þess að gera um leið ráðstafanir til þess, að þeir gætu fengið lánsfé innanlands í staðinn. Því eins og nú er mun mjög miklum erfiðleikum bundið fyrir síldarútvegsmenn að afla sér rekstrarfjár innanlands.

Það er að vísu rétt, að alltaf eru svo og svo margir útgerðarmenn, sem krefjast lagasetningar í þá átt, sem hér er farið fram á, lagasetningar um hömlur á verzluninni með útflutningssíld. Nú er það alveg augljóst, að til þess að tryggja fullkomlega sölu á verkaðri síld, er algerlega nægilegt að heimila með l. að takmarka leyfi útgerðarmanna til þess að verka síld til útflutnings. Því vitanlega er það ekkert annað, sem getur gert það að verkum, að framboðið af síld verði of mikið og verðið falli af þeirri ástæðu, heldur en að of mikið sé framleitt. Ég er nú þeirrar skoðunar, að engin ástæða sé til að óttast neitt slíkt, af þeim ástæðum, sem ég hefi greint, en hinsvegar tel ég þó, að það væri miklu nær að ganga inn á samninga um, að slík heimild væri lögleidd, til takmörkunar á síldarsöltun. Það hefði þá þær afleiðingar, að menn yrðu tilneyddir að selja meira af síldinni í bræðslu, en ég er sannfærður um, að undir frjálsum kringumstæðum mundi þetta koma alveg af sjálfu sér. Útgerðarmennirnir mundu reikna út fyrirfram, hvað mikið þeim væri óhætt að verka, og hvað mikið þeir þyrftu að láta í bræðslu. En sem sagt, til þess að friða þá menn, sem eru svo hjartveikir, að þeir eru alltaf hræddir um að brenna inni með síld, vegna þess, að of mikið sé saltað, mætti ganga inn á að veita heimild til að takmarka söltunarleyfi. Aftur á móti er það fyrirkomulag, sem hér er farið fram á, að koma síldarsölunni algerlega á eina hendi, í sjálfu sér beinlinís hættulegt fyrir viðskiptalífið, og það er jafnvel viðurkennt af sósíalistum, sem annars játa þá trú, að ríkisrekstur sé æskilegur á öllum sviðum. þeir játa það með því í þessu tilfelli, að þeir reyna að fela það, að það, sem í raun og veru er verið að undirbúa með þessari löggjöf, er að koma á algerðri einkasölu. Eins og ég benti á um daginn við umr. um fiskimálanefnd, fara þessi frv. bæði, sem eru því nær samhljóða, fram á algerða einkasölu frá upphafi. Því valda ákvæði 5. gr., sem leggja svo miklar hömlur á viðskipti þeirra einstaklinga, sem ráðgert er, að löggiltir verði sem útflytjendur, að þeir geta í raun og veru ekkert aðhafzt, nema fá til þess samþykki þeirrar n., sem til þess á að vera skipuð af ríkisstj. að sjá um síldarsöluna. Þeir mega ekki bjóða síldina út fyrir neitt annað verð heldur en það, sem samþ. er af n., og þó verðið sé samþ. verða þeir að fá samþykki fyrir verkun, útflutningsstað og útflutningstíma síldarinnar. Þetta er ekkert annað en sérstakt form á ríkiseinkasölu, sem ekki þarf að láta sér koma til hugar, að nokkur maður, sem kynnist löggjöfinni, láti villa sig á, hvað í sér felur. Hver maður, sem skipti á við útflytjendur síldar og fiskjar, hlýtur að verða var við, að þeir geta ekkert aðhafzt, nema fá til þess leyfi hinnar ríkisskipuðu n., og komast að þeirri niðurstöðu, að þetta sé hrein einkasala. Nú er það trú manna, jafnvel sósíalista sjálfra, að það muni hafa ill áhrif á sölu afurðanna, ef kaupendurnir sannfærast um, að um einkasölu sé að ræða. Sósíalistar eru svo hræddir við þetta, að þeir reyna að fela einkasöluna með lagaflækjum. Það er játningin fyrir því, að lagasetning sem þessi geti verið hættuleg fyrir þá atvinnuvegi, sem gefið er í skyn, að hún eigi að bjarga. Sú er líka reynslan af einkasölum. Þarf ekki að vitna til annars en síldareinkasölunnar, sem hér var á árunum. Hún reyndist þannig, að söluerfiðleikarnir fóru sívaxandi ár frá ári, þangað til einkasalan varð að gefast upp við að koma síldinni út fyrir nokkurt verð. Þannig fer, hvaða form sem haft er á einkasölunni. Það er um einkasölu að ræða jafnt fyrir því, þó hún sé undir því yfirskyni, að einstaklingarnir eigi að annast um útflutninginn og koma sér saman um hann á þann hátt, sem gert var með matjessíldarsamlaginu á síðastl. sumri. Framleiðendurnir hafa engin ráð yfir framleiðslunni, kaupendurnir komast á snoðir um, hvernig allt er rígbundið og gera engan mun á því og hreinni einkasölu. Auk þess vill það nú brenna við, að þessar n., sem umráð fá yfir útflutningi afurðanna, geri sér svo mikinn mannamun í þessum viðskiptum, að það fæli menn frá viðskiptunum og minnki þannig sölumöguleikana. Ég hefi heyrt um það talað í sambandi við sölu matjessíldarinnar til Þýzkalands og Póllands í sumar, að það hafi verið töluverður munur á því, hvernig einstökum kaupendum gekk að fá samninga við sölunefndina. Ég hefi beinlínis orðið var við verulegar umkvartanir yfir því, að sumir síldarkaupendurnir hafi átt mjög erfitt uppdráttar í þessum viðskiptum, og a. m. k. skildu það svo eða fengu þá tilfinningu af samtölum sínum og samningaumleitunum við matjessíldarsamlagsstj., að þeir væru þar ekki vel séðir, og að sú ágæta stj. vildi helzt ekkert við þá skipta. Ég skal ekkert um það segja, hvort þetta hefir verið misskilningur hjá þessum mönnum, en hitt er áreiðanlegt, að þeim fannst þetta. Þeir skildu undirtektir sölunefndarinnar undir viðskiptaumleitanir þeirra þannig, að hún kysi heldur að eiga skipti við einhverja aðra en þá. Það kann að vera, að þetta hafi verið misskilningur, að samningarnir gangi svona erfiðlega hver sem í hlut á, þegar skipta þarf við svona nefndir. Það getur verið vel skiljanlegt, því oft atvikast það svo, að í þessar n. eru settir, og jafnvel hafa þar mestu völdin, menn, sem eru slíkum viðskiptum tiltölulega óvanir. Þegar þeir svo allt í einu eiga að taka ákvarðanir um stórfellda sölu, koma á þá vöflur; þeir eru orðnir flæktir í allskonar reglum og formsatriðum, sem þeir þurfa að uppfylla, en einstaklingar, vanir þessum viðskiptum, flækja sig ekki í. Þeir eru bundnir af fyrirkomulagi síns félagsskapar, fyrirmælum stj. o. fl., og þora svo ekki að taka ákvarðanir, þegar til þeirra er leitað um viðskipti, og það verður til þess, að þeim, sem viðskiptanna æskja, finnst þetta vera allt öðruvísi en á að vera og þeir eiga að venjast, og skilja það e. t. v. þannig, að ómögulegt sé, að þetta sé hin eina viðskiptaaðferð, sem allir sæta, heldur sé þetta eitthvað sérstakt, sem aðeins þeir séu látnir sæta.

Ég segi, að það kann að vera af einhverjum slíkum misskilningi, að síldarkaupendum á síðastl. sumri fannst í viðskiptum sínum við stj. matjessíldarsamlagsins, að þeir vera ekki vel séðir. Ég mun fremur geta þess til heldur en, að virkilega hafi þetta verið svona. En það kemur alveg í sama stað niður, hvort heldur sem verið hefir. Ef menn, sem leita eftir samningum um kaup á vöru, af einhverjum ástæðum fá þann skilning, að það sé ekki óskað eftir viðskiptum við þá, þá hverfa þeir frá og leita eftir viðskiptum annarsstaðar, og sala afurðanna hlýtur að fara minnkandi eftir því, sem lengra liður.

Það var nú svo, þegar útgerðarmenn komu sér saman um stofnun matjessíldarsamlagsins, að margir af þeim, sem þar voru við riðnir, gerðu sér miklar vonir um árangur. En svo leið og beið, menn fiskuðu síldina og fóru að fá reynslu af þessu skipulagi. Og ég get alveg fullyrt það, að ánægjan með þetta fyrirkomulag fór fljótt minnkandi. Að lokum fór svo, að sömu aðilar, sem samþ. stofnun matjessíldarsamlagsins í sumar, felldu í lok vertíðarinnar að halda því áfram. Hygg ég, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé meðfram fram komið vegna þess, að svona fór. Ég er því ekki kunnugur, hvað sérstaklega kann að hafa valdið því, hvað vinsældir þessa fyrirkomulags fóru fljótt þverrandi. Ég hefi að vísu heyrt ýmsar sögur um það, sem ég hirði ekki um að gera grein fyrir hér og ég þori ekki að fullyrða um, á hvaða rökum eru byggðar. En um hitt get ég ekki verið í neinum vafa, að það getur verið mjög varhugavert fyrir heildina að skapa einstökum mönnum, sem stunda sama atvinnurekstur og þeir menn, sem þeir eiga að vinna fyrir, en ekki fá nein völd um framkvæmdir, þá aðstöðu, að þeir geti haft tækifæri til að skara sérstaklega eld að sinni köku. Menn höfðu það mjög á tilfinningunni, að svo væri ástatt um stj. sölusamlagsins, að þar hefðu einstakir menn sérstaka aðstöðu til þess að komast betur frá sölu sinna eigin afurða heldur en þeir, sem voru utan stjórnarhringsins. Og þegar svo atvikast, að í slíka stj. eru settir menn, sem hafa misjafnlega mikið traust alls almennings, er ákaflega hætt við, að allskonar sögur myndist um það, hvernig þeir nota aðstöðu sína, og að óánægja fari vaxandi. Hvað sem um þetta er, þá er það staðreynd, að svona fór með matjessíldarsamlagið, sem stofnað var eftir óskum yfirgnæfandi meiri hl. þeirra manna, sem þátt tóku í því, að eftir vertíðina var meiri hl. kominn hinum megin.

Af þessum ástæðum er ég á móti öllum hömlum í þá átt, að leggja hömlur á einstaklinga, sem þennan atvinnurekstur stunda, hömlur, sem draga úr þeirra frjálsræði til þess sjálfir að mega sjá sínum atvinnurekstri borgið. Og ég skal að lokum sérstaklega leggja áherzlu á það aftur, sem ég sagði í upphafi, að um afkomu þessa atvinnurekstrar gegnir í raun og veru talsvert öðru máli heldur en um margan annan atvinnurekstur í landinu nú, eins og ég hefi bent á. Ég hygg, að ekki verði því mótmælt, að um þennan atvinnurekstur er þveröfugt að segja við það, sent um margan annan atvinnurekstur má segja, sem sé það, að markaður er að vaxa fyrir þessar afurðir, og möguleikarnir til þess að koma þessum afurðum í verð eru miklu meiri en um margar aðrar afurðir okkar.