17.10.1934
Efri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég hefi flutt þetta frv. af þeim ástæðum, að ég veit, að nú er orðinn hér á landi fjöldi af slíkum sjóðum sem þetta frv. ræðir um, og þeim sjóðum fjölgar árlega, en ekkert allsherjareftirlit er nú með stjórn og reikningshaldi þessara sjóða eða því, hvort haldnar séu nákvæmlega skipulagsskrár þeirra. Ég geri ráð fyrir því, að langflestir þessir sjóðir séu í góðra stjórnenda höndum, en þó er ekki víst, að þeir séu allir undir gæzlu þeirra manna, sem séu færir um að veita þeim forstöðu á þessum breytingatímum. Þó vil ég alls ekki vera með getsakir í garð sjóðstjórna að órannsökuðu máli.

Það, sem ennfremur vakti fyrir mér, var að athuga, hvort allir þessir sjóðir væru ávaxtaðir á tryggum stöðum, hvort eignirnar væru í öruggum sjóðum eða stofnunum, hvort útlán væru nægilega tryggð með fasteignaveði, og í hverju væru eignir þær, sem kynnu að vera í öðru en innstæðu í sjóðum og skuldabréf. Það er vitanlegt, að slíkir sjóðir eða sjóður hefir nær tæmzt vegna kaupa á hlutabréfum, er síðan hafa orðið verðlaus.

Ég er reyndar persónulega þeirrar skoðunar, að þessir sjóðir ættu ekki að vera algerlega bundnir við peningaeign eina saman, nema skipulagsskrá mæli beinlínis svo fyrir. Það mun alltítt um sjóði erlendis, að þeir verji nokkru af fé sínu til að kaupa reglulega vel tryggð hlutabréf og jafnvel fasteignir, og mun það nokkuð stafa af því, hve lágir innlánsvextir eru þar. En það hefir líka sýnt sig nú á tímum, að öruggast er að hafa ekki allar eignirnar í samskonar verðaurum. Peningar geta fallið niður úr öllu valdi, hlutabréf orðið að litlu eða engu og fasteignir stórlækkað. En um leið og peningar lækka, hækka oft aðrar eignir, t. d. fasteignir, og helzt þá meira jafnvægi á eignum sjóðsins þrátt fyrir verðbreytingar, eftir því sem eignir hans eru minna einskorðaðar, en hér skal þó ekki farið frekar út í það mál að sinni.

Ég skal taka það fram, að ég hefi ekki viljað að svo stöddu máli láta frv. ná til fleiri sjóða en hér um ræðir. En ég vona, að málinu verði sýnt sú velvild, að það fái að ganga til n., og gæti sú n. þá íhugað, hvort ætti að víkka það starfssvið, sem frv. ræðir um.

Ég hefi stungið upp á, að þeir menn, sem þetta eiga að annast, væru kosnir af Alþingi til 5 ára í senn. Tel ég heppilegra, að ekki sé skipt um þá árlega, heldur gegni þeir starfinu nokkurn tíma í senn og hætti því ekki undir eins og þeir eru farnir að kynnast þessum sjóðum. Vegna kostnaðar hefi ég ekki viljað stinga upp á fleirum en 2, og hefi lagt til, að laun þeirra verði svo lág sem ég hefi séð mér frekast fært.

Ég álít áríðandi að velja til þessa starfs ábyggilega og sanngjarna menn, sem forðast alla pólitík í starfi sínu. Þetta kemur ekki pólitík við, heldur er aðeins farið fram á þetta eftirlit til að tryggja það enn betur, að þessum sjóðum sé stjórnað sæmilega.