05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (3735)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það varð úr, að ég kom með dagskrá, sem prentuð er á þskj. 639. Þó er ég samþ. efni frv. En ég vil hafa skýrara ákvæðið um eftirlit þessara sjóða en gert er með því að skipa þessa eftirlitsmenn, eins og frv. gerir ráð fyrir. Í frv., sem flutt var á Alþ. 1933, þskj. 65 þ. á., er gert ráð fyrir sterkari yfirumsjón með sjóðunum heldur en það frv., sem hér liggur fyrir, gerir með þessum eftirlitsmönnum. Þar er þetta látið heyra undir fjmrn.

Ég get ekki tekið undir það með hv. frsm. meiri hl. n., að það sé þýðingarlaust, að ríkisendurskoðunin fjalli um sjóðina. Þar, sem lítið er um endurskoðun, veitir vissulega ekkert af þessu.

Hv. þm. minntist á, að allt væri í lagi með háskólasjóðina, þar sem hann þekkir bezt til. Það getur vel verið, en það er ekki þar með sagt, að alstaðar sé eins ástatt í þessu efni. Þess vegna er það mjög veigamikið atriði, að trygging sé fengin fyrir því, að sjóðirnir séu endurskoðaðir. Það er ekki eingöngu nauðsynlegt, að öll fylgiskjöl séu með, heldur þarf að fara með sjóðina samkv. skipulagsskrá, en það hefir stundum viljað bera við, að svo væri ekki gert.

Það er engin ástæða til þess, að þessir sjóðir séu að kaupa veðdeildarbréf með mismunandi verði. Þeir ættu að fylgja í þessu efni því kaupverði, sem Landsbankinn hefir venjulega á þessum bréfum. Þetta kemur misjafnt niður, ef þeir, sem að þessum sjóðum standa, geta keypt bréf fyrir hærra verð, ef til vill með öðru verði. Það þarf að setja upp skorður við þessu, svo að misnotkun komi ekki til greina.

Svo er eitt atriði enn, sem ég vildi taka fram. Ég vildi helzt hafa einhverja hugmynd um, hve margir sjóðir eru til í landinu og hve mikið fé er hér um að ræða. Slíkar skýrslur eru ekki þýðingarlausar, enda þótt hv. frsm. meiri hl. n. finnist þær vera það.

Í þriðja lagi tel ég miklu heppilegra, að hæstv. ríkisstj. byggði á þessari löggjöf, í stað þess að hallast að svo veikri löggjöf sem frv. þetta gerir ráð fyrir viðvíkjandi sjóðunum. Ég vil því halda fast við þá rökst. dagskrá, sem ég hefi borið fram á þskj. 639. Í trausti þess, að hún verði samþ., vona ég, að hæstv. ríkisstj. hafi slíka löggjöf í undirbúningi.

Það er ómögulegt að bíða mjög lengi eftir einhverjum sjóðum. Hagstofan hefir fundið marga af þessum sjóðum með því að fletta upp í Stjtíð. Þannig má gera nokkra skrá og ég tel ekki hættulegt að veita hagstofunni heimild til þessarar skýrslusöfnunar, sem gæti verið búin fyrir næsta þing. — Vil ég svo mælast til þess, að mín till. verði samþ.