18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (3744)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og bar fram brtt. við frv., sem hér liggja fyrir á þskj. 826.

Það má segja um tilgang þessa frv., sem hér er um að ræða, að hann sé nytsamlegur, því hann gengur á þá leið, að hafa betra eftirlit með opinberum sjóðum eða sjóðum, sem hlotið hafa konungsstaðfestingu á skipulagsskrá. Aftur á móti virðist mér fyrirmæli frv. eins og þau eru nú ekki svo fullkomin sem skyldi, og ef þau ættu að ná tilgangi sínum, þá er nauðsynlegt að gera á þeim talsverðar breyt. Þess vegna hefi ég leyft mér að bera fram þessar brtt., sem eru í stuttu máli þær, að í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir, að Sþ. kjósi 2 menn til þess að líta eftir þessum sjóðum, þá geri ég ráð fyrir, að fjmrh. hafi yfirumsjón með stjórnum slíkra sjóða og fjmrn. haldi þá skrá, sem talað er um í frv. Hinsvegar virðist mér vanta tilfinnanlega í þetta frv. ákvæði um það, að sjóðsreikningarnir skuli endurskoðaðir, því frv. fer aðeins fram á, að skipaðir séu 2 menn af Sþ. til þess að hafa eftirlit með og halda skrá yfir þessa sjóði. En það eru engin fyrirmæli um það, að þeir skuli endurskoðaðir. Þess vegna hefi ég leyft mér að leggja til, að ríkisbókhaldið hafi með höndum endurskoðun allra þeirra sjóða, sem hér um ræðir, því þeir eru svo nátengdir opinberum rekstri og reikningsfærslu, að það virðist vera eðlilegast. Mér virðist sjálfsagt, úr því farið er að setja löggjöf um slíka sjóði, að þá sé fyrirskipað, að þeir skuli endurskoðaðir, því það er sú mesta trygging á eftirliti með opinberum sjóðum, að þeir séu endurskoðaðir rækilega.

Þá hefi ég líka lagt til, að reikningar sjóðanna séu birtir í B-deild Stjtíð., svo almenningi verði gefinn kostur á að fylgjast með þeim sjá hvernig þeir eru á hverjum tíma, hvernig stjórn þeirra er og hvernig fé þeirra er varið. Ég álít nauðsynlegt, að það sé ekki einungis Alþ., sem eigi kost á því að fylgjast með þessum sjóðum, heldur og allur almenningur í landinu, sem á kost á að kynna sér B-deild Stjtíð.

Loks hefi ég lagt til það nýmæli, að fjmrh. sé heimilt með reglugerð að setja ákvæði um ávöxtun sjóða þeirra, sem hér er um að ræða, sem tryggi það, að sjóðirnir séu alltaf ávaxtaðir á sem öruggastan og hagkvæmastan hátt. Ég tel, að úr því farið er að setja löggjöf um þessa sjóði; sem ég álít fyllstu nauðsyn á, þá sé sjálfsagt að setja þau ákvæði, sem geri það að verkum, að þetta eftirlit geti orðið á þá leið, að treysta megi, að það komi að sem fullkomnustu gagni.

Að öllu þessu athuguðu má sjá, að mínar till. miða til þess að gera frv. fullkomnara og til þess að það nái frekar þeim góða tilgangi, sem óneitanlega í því felst. Þess vegna vænti ég þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. þessar till. mínar.