18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég ætla nú ekki að fara að hefja langar umr. um þetta mál. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að tilgangur sá, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., sé betur tryggður með fyrirmælum sjálfs frv. heldur en með brtt. hv. 1. landsk. á þskj. 826. Ég hafði haldið, að það, sem aðallega vekti fyrir hv. 1. landsk., væri það, að hann hygðist með þessu geta sparað ríkissjóði einhver útgjöld, en nú heyri ég það á hans ummælum, að það er a. m. k. meðfram, ef ekki sérstaklega hitt, að hann álítur, að öryggið muni verða meira, ef hans brtt. eru samþ. Um þetta má náttúrlega lengi deila, og deilur eru að því leyti þýðingarlausar, að þetta er svo óflókið mál, að hver einasti þm. getur gert það upp við sig sjálfan, hvort hann álíti öruggara að leggja þetta starf ofan á annað starf, sem hinn opinberi endurskoðandi hefir, eða að fá það tveimur þar til sérstaklega kjörnum mönnum af Sþ. Það er sem sagt mín skoðun, að öryggið sé meira með því að fela þetta starf tveimur þar til kjörnum mönnum, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég held því, að þrátt fyrir framkomu þessara brtt. hv. 1. landsk., ættu menn að aðhyllast frv. eins og það liggur fyrir.