18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (3749)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Hannes Jónsson:

Ég vildi aðeins beina þeirri fyrirspurn til hv. 1. landsk., hvort hann hafi athugað það með þessa endurskoðun, sem ákveðin er í 1. brtt., hvort hún gæti orðið eins auðveld eins og hann virðist gera ráð fyrir. Það er nú svo um ýmsa sjóði, sem hlotið hafa staðfestingu konungs á skipulagsskrá sinni, að það er ákveðið, að þeir skuli ávaxtaðir á vissum stöðum, t. d. í sparisjóði úti á landi. Mér virðist því, að það geti orðið erfitt fyrir ríkisbókhaldið að hafa fullkomna endurskoðun á þessum sjóðum með höndum. Ég teldi það mjög hagkvæmt, ef hægt væri að koma þessum sjóðum, sem á annað borð ávaxtast hér í Rvík, undir eina yfirstjórn, en ég er í miklum vafa um, að hægt sé að koma því við um alla þá sjóði, sem til eru í landinu, en hinsvegar er það mjög nauðsynlegt að draga meira saman starfsemi þeirra.