19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Ólafur Thors):

Það mun vera sameiginlegt með okkur hv. 2. þm. Reykv., að við látum það ekki spilla fylgi okkar við mál, þó aðrir flytji en okkar eigin flokksmenn, og hygg ég því, að honum sé rétt að deila vægilega á mig í þessu efni. Ætti honum því að vera ljúft að fylgja þessu frv. þrátt fyrir það, þó það sé flutt af andstæðingi, þar sem jafnaðarmenn hafa verið fylgjandi þessu máli á undanförnum þingum, eins og hann lýsti í ræðu sinni. Svo undarlega bregður þó við, að hann kveðst nú ætla að tefja fyrir þessu frv. með því að greiða atkv. með dagskrártill. Sú skýrslusöfnun, sem hann minntist á, getur ekki réttlætt þá afstöðu eða dregið úr þörf þeirrar endurskoðunar, sem frv. mælir fyrir um. Í sambandi við þá lánveitingu, sem hann nefndi og taldi verið hafa pólitíska, þá vil ég taka fram, að það er ekki rétt. Sú lánveiting var ekki pólitísk, þó hún væri gerð að pólitísku máli í sambandi við þann ráðh., sem veitti þetta lán.

Um brtt. hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. ætla ég að gera það tilboð, að greiða fyrir samþ. þeirra hér í hv. d., ef hv. flm. vilja tryggja mér það, að frv. nái fram að ganga í hv. Ed., en vilji þeir það ekki, þá beiti ég mér gegn þeirra brtt.

Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir framkomu hv. 1. landsk. í þessu máli. Fyrst skrifar hann undir nál. um að samþ. frv., en þegar dagskrártill. kemur fram um að vísa málinu frá, þá kveðst hann muni samþ. hana. Sú grein, sem hann gerði fyrir þessari breyttu afstöðu sinni, var lítt skiljanleg, en hann hefði getað komið með aðra grg., sem allir hv. þdm. hefðu skilið, og það eru þau rök, að hv. 2. þm. Reykv. bæri till. fram. Það hefðu allir getað skilið. Hv. þm. hefir með undirskrift sinni lagt til, að frv. verði samþ., með yfirlýsingu sinni hefir hann lagt til, að það verði fellt; nú skora ég á hann að taka einn snúninginn enn, þegar að atkvgr. kemur, og þá með handauppréttingu að samþ. frv. Það er ekkert óheiðarlegt fyrir hann að láta að síðustu skoðanirnar ráða.