19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Sigurður Kristjánsson:

Þegar hv. 2. þm. Reykv. flytur brtt. um að fjölga eftirlitsmönnunum í þrjá, held ég, að hann hafi ekki athugað það, að í 2. gr. frv. er svo fyrir mælt, að stjórnir þessara sjóða séu skyldar til að gefa árlegar skýrslur til eftirlitsmannanna um hag sjóðanna, og að eftirlitsmennirnir geti krafizt frekari skýrslna, ef þeim sýnist, og stjórnir sjóðanna séu skyldar til að svara fyrirspurnum eftirlitsmannanna, annars eða beggja, um allt, sem þeir vilja vita viðvíkjandi meðferð sjóðanna. Með þessum ákvæðum skilst mér, að það sé tryggt, að engar misfellur eigi að vera hægt að fela í sambandi við meðferð sjóðanna, þó að ekki sé eftirlitsmaður fyrir hvern pólitískan flokk í þinginu, þar sem öllum spurningum verður að svara, hvort sem annar eftirlitsmaðurinn eða báðir bera þær fram. Ef hv. 2. þm. Reykv. hefir ekki sézt yfir þessi ákvæði 2. gr., er hann samdi sínar brtt., þá skil ég ekki, hvað vakað hefir fyrir honum, nema ef vera kynni það, sem stendur í 5. gr. frv., að eftirlitsmenn skuli árlega fá þóknun fyrir starf sitt, er greiðist úr ríkissjóði, og þar stendur, að fjmrh. skuli ákveða þá þóknun. Það getur skeð, að þetta hafi haft áhrif. En þrátt fyrir þetta ætla ég ekki að fylgja þessari brtt.

Um brtt. hv. 1. landsk. held ég, að sama máli sé að gegna og með brtt. hv. 2. þm. Reykv., að hv. flm. þessarar brtt. hafi ekki lesið 3. gr. frv. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Nú þykir eftirlitsmönnum athugavert við fjárgæzlu sjóðs eða brotin skipulagsskrá hans, og ber þeim þá að tilkynna það fjármálaráðuneytinu, sem gerir ráðstafanir til, að því verði hrundið í lag, sem ábótavant kann að vera.“ Í þessari gr. eru ákvæði um sama efni og felst í brtt., og er það tryggt með þessari gr., að ráðh. hafi vald til þess að gera þær ráðstafanir, er geri fjárgæzluna örugga. Ég held þess vegna, að till. þessi sé óþörf og mundi verða einskonar líkþorn á frv., ef samþ. yrði. Ég álít þess vegna, að ekki sé rétt, að hún hljóti samþ. Frv. þetta tel ég þarflegt og mun greiða því atkv. Þar af leiðandi greiði ég að sjálfsögðu atkv. gegn dagskránni frá hv. 2. þm. Reykv. Ég get ekki stillt mig um, þó þetta mál sé ekki persónulegt, að láta í ljós undrun mína yfir því, að hv. 1. landsk. skuli ætla að greiða atkv. með dagskránni. Ég fæ ekki séð, hvernig hann fer að því í einu að samþ. mál og að vísa því frá. Ég held, að þetta hljóti að stafa af því, að þessi hv. þm. hafi komið of nærri því virðulega sköpunarverki, sem kallast Rauðka, og hafi fyrir það freistazt til að hverfa frá sinni skoðun. Kemur mér í huga frásögn Snorra um byggingu borgarveggja Ásgarðs. Goðin höfðu gert samning um það við mann einn, er til þess bauðst, að hann skyldi byggja borgarmúrinn. Skyldi hann ljúka verkinu fyrir fyrsta sumardag þann næsta, en missa verkalaunanna, ef hann fengi ekki lokið verkinu á tilsettum tíma. Smiðurinn beiddist þess, að hann mætti hafa lið af hesti sínum, þeim er Svaðilfari hét, og samþykktu goðin það. Tók nú smiðurinn til starfa og vannst verkið skjótt, en þó var það miklu meira, sem hesturinn vann en smiðurinn, og undruðust goðin, hve miklu sá hestur orkaði. Og er leið að sumarmálum, sáu goðin, að smiðurinn mundi fá lokið borgarsmíðinni á tilsettum tíma. Tóku þau þá með sér ræðu um það, hver því hefði valdið, að smiðnum var leyft að hafa lið af hestinum, og kom öllum ásamt, að því hefði Loki valdið. Var það því dæmt, að hann skyldi setja ráð til þess, að smiðurinn yrði af smíðakaupinu. Loki brá sér þá í líki Rauðku og rann í nánd hestinum og til skógar. En er hesturinn skildi, „hvat hrossi þat var“, þá trylltist hann og sleit af sér aktygin.

Nú ætla ég, að hv. 1. landsk. hafi farið svipað og Svaðilfara. „Rauðka“ hefir komið of nærri hönum, og hann hefir kennt, „hvat hrossi þat var“, og því hefir hann nú slitið af sér sannfæringuna og gengið frá fyrri orðum sínum.