20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1935

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég á hér nokkrar brtt., og skal ég gera stutta grein fyrir þeim, meira fyrir siðasakir en að ég búist við, að það hafi mikil áhrif á hv. þm. Brtt. þessar eru allar á þskj. 815. Fyrst er að nefna V. lið, 1500 kr. styrk til Kristjáns Grímssonar læknis. Þessi læknir hefir farið utan til að fullnuma sig í skurðlækningum, og það eru fordæmi fyrir því, að Alþingi hafi hlaupið undir bagga með efnalitlum mönnum, sem hafa verið að ljúka slíku sérfræðinámi. Ég talaði fyrir slíkum styrk í fyrra, til annars læknis, sem eins stóð á um. Hann er nú kominn heim og þykir mjög vænlegur til gagns. Ég þekki þennan mann ekki neitt persónulega, en kunnugir menn hafa sagt mér, að hann væri líklegur til að verða fær læknir á sínu sviði. Umsókn þessa manns fylgja vottorð frá yfirlæknum við tvo spítala í Danmörku, þar sem hann hefir dvalið við nám. Fel ég þessa till. velvild hv. Alþ.

Næst er brtt., merkt XXII. Hún er um það, að veita 6000 kr. til þess að lög um utanfararstyrk til presta geti komið til framkvæmda. Á Alþingi 1931 voru sett lög um utanfararstyrk til presta, og er þar ákveðið, að prestur, sem gegnt hefir embætti vissan tíma, geti fengið styrk til utanfarar með ákveðnum skilyrðum. Þetta hefir ekki verið framkvæmt, og finnst mér óviðkunnanlegt, að þetta sé lengur dauður bókstafur, úr því að lögin eru til staðar. Alþingi ætti að sýna þann manndóm að taka afleiðingunum af þessum gerðum sínum og skorast ekki undan að veita fé til framkvæmda þessara laga.

Þá er XXVIII. brtt. um það, að veita Verzlunarskóla Íslands 10 þús. kr. styrk. Ég vil benda á, að það er óviðkunnanlegt, hvernig þessi liður er orðaður í fjárlfrv. Þar er komizt svo að orði, að þessi fjárhæð skuli veitt til kaupmannafélagsins og vezlunarmannafélagsins í Rvík til að halda uppi skóla fyrir verzlunarmenn, undir umsjón landsstj. Ég veit ekki, hvort þessi félög eru til, en það eru a. m. k. mörg ár síðan þau hættu að hafa afskipti af skólanum. Verzlunarráðið mun hafa annazt skólann um skeið, en nú er hann sjálfseignarstofnun, sem nokkur kaupmannafélög standa að auk verzlunarráðsins. Mér finnst hálfóviðkunnanlegt, að ekki skuli vera betur fylgzt með en þetta, því að í raun og veru er þessi styrkur eftir orðalaginu veittur skóla, sem ekki er til. En það er um þennan skóla að segja, að hann hefir tekið feykilegum stakkaskiptum, og ég hygg, að hann sé nú jafnvel stærsti skóli landsins. Í umsókn skólans er getið um starfsemi og framfarir hans á síðustu árum, og ætla ég ekki að lengja mál mitt um of með því að taka það upp . En ég vil þó aðeins benda á nokkur atriði. Á 2 árum hefir nemendatalan tvöfaldazt, úr 140 í 280, og veit ég ekki, hvort nokkur skóli er nú fjölmennari; e. t. v. er iðnskólinn það, ef kvöldskólinn er reiknaður með. En sé miðað við kennslustundir, er verzlunarskólinn vafalaust stærstur. Þá hefir námstíminn verið lengdur úr 2 árum í 5. Af því eru 3 árin fullkominn námstími, og auk þess eins vetrar undirbúningsdeild, og eftir að prófi er lokið við skólann hefir verið gefinn kostur á sérnámi í ýmsum greinum, svo sem bókfærslu eða málum, t. d. spönsku eða ítölsku, auk aðalmálanna, ensku, frönsku og þýzku. Það er því úr nægu að velja, enda hafa nemendur verið margir. Sá, sem tekur allan skólann, hefir því stundað þar nám í 5 ár. Deildum skólans hefir fjölgað úr 2 í 11, og nú í vetur með öllum aukadeildum 18. Námsgreinar voru lengi 6, en eru nú 16. Kennurum hefir fjölgað úr 7 upp í 30, og mætti þannig halda áfram. Þá er það eftirtektarvert, hvað nemendur eru komnir víða að. Sennilega munu flestir álíta, að mestur hluti þeirra sé úr Rvík, en svo er ekki, t. d. 1931 voru flestir utanbæjar, en ef tekið er yfirlit yfir lengri tíma, get ég hugsað, að áhöld séu um, hvort fleiri eru úr Rvík eða utanbæjar.

Það hefir verið gert skemmtilegt yfirlit um, úr hvaða stéttum þeir eru, sem sækja skólann. Af þeim, sem sóttu skólann 1933, voru t. d. 60 úr kaupsýslustétt, 30 útgerðarst. o. s. frv. Lýsir þetta, eins og eðlilegt er, að flestir nemendurnir eru úr kaupsýslustétt, þó margir séu úr ýmsum öðrum stéttum.

Þessi skóli hefir því verið rekinn með mikilli hagsýni, á þann hátt, að hann hefir verið ódýr, en þó dregið að sér færustu kennara, sem völ hefir verið á. Þegar hugsað er um það, að hér er skóli, sem veitir 5 ára kennslu og hefir 280 nemendur, er alveg ótrúlegt, hvað kostnaðurinn hefir verið lítill, og hvað ríkisstyrkurinn er lítill, einar 5000 kr., og hefir á fáum árum lækkað um 1000 kr. jafnhliða því, sem skólinn hefir stækkað. Fyrst var styrkurinn 6000 kr., svo var hann færður niður í 5500 kr. og nú í 5000 kr. Þessi skóli er ekki sambærilegur við hinn skólann, sem starfar á hliðstæðum grundvelli og nýtur jafnmikils styrks frá ríkinu, en er þó ekki nema lítið brot á móti þessum. Þar fyrir getur hann verið góður. En það nær engri átt, að þessir skólar hafi jafnan styrk, þegar annar hefir 30—40 nemendur, en hinn 280.

Ég álít, að eðlilegast væri að veita ákveðinn styrk fyrir vissa tölu nemenda, er hækkaði svo hlutfallslega eftir kennslustundafjölda.

Þá er 41. brtt. á sama þskj., um að veita Karlakór Reykjavíkur 5000 kr. styrk til utanfarar, eða öllu heldur ábyrgð, því ekki er ætlazt til, að þetta verði greitt, ef ferðin ber sig fjárhagslega. Ég býst við, að hv. þm. hafi kynnt sér bréf, sem fylgdi umsókn kórsins, þar sem bent er á sem eina ástæðu fyrir því, að það leitar til þingsins, að fyrir nokkrum árum var Karlakór K. F. U. M. veittur 8000 kr. sterkur til utanfarar.

Karlakór Reykjavíkur hugsaði sér fyrst að fara til Englands, og var komið þar í samband við hljómlistarstjóra, búið að senda plötur með ýmsum lögum o. fl. til undirbúnings. Það varð þó úr, að fara ekki á svo ókunn mið strax, heldur reyna sig fyrst í nágrannalöndunum. Það vildi líka svo vel til, að Norræna sambandið tók að sér að undirbúa og sjá um förina ytra. Ef 40 menn verða í förinni og ferðazt verður um Danmörku, Noreg og Svíþjóð, er ekki hægt að gera ráð fyrir, að kostnaðurinn verði minni en 1500 kr. á mann, eða um 60 þús. kr. alls, og er það í mikið ráðizt fyrir efnalitla menn, sem auk þess hafa orðið að leggja mikið á sig til þess að fullnuma sig undir ferðina. Það verður því að teljast ákaflega prúðmannlega í sakir farið, að fara fram á 5000 kr. styrk, og það því aðeins, að halli verði á ferðinni; m. ö. o., að þeim verði bættur halli með allt að 5 þús. kr.

Ég verð að segja, að ég er hálfundrandi yfir, að fjvn. skyldi ekki sjá sér fært að mæla með þessum styrk, þegar áður hafa verið veittar í sama tilgangi 8000 kr. Ég vil benda n. á, hvort hún hafi ekki tekið upp eitt og annað, sem síður skyldi en þó hún samþ. þessa brtt. Ég held, að margt af því mætti fremur niður falla, og vona, að þessi sanngjarna ósk finni náð hjá nægilega mörgum hv. þm., því ég hygg málið vel sett að því leyti, að því verði ekki blandað inn í pólitík, því að því munu standa menn úr öllum flokkum. Mér dettur í hug í þessu sambandi, að ég hefi heyrt frá einum eða tveimur nm., að það standi til, að ég eigi að verða með sem fararstjóri. Býst ég við, að sú tilgáta sé fram komin út frá því, að ég fór einu sinni áður með til Akureyrar. Ef einhverjum skyldi nú detta í hug að láta málið gjalda þess, að svo vondur maður yrði með og nyti e. t. v. einhvers af þessu, get ég friðað samvizku hans með því, að þó þetta hafi verið nefnt við mig, er ég svo bundinn um þetta leyti árs, að ég býst ekki við að geta orðið við þeim tilmælum.

Ég held, að reynslan hafi sýnt, að áður, þegar farið hefir verið fram á styrk til íþróttamanna, t. d. til að sækja Ólympíuleikana, þá hafi menn verið sammála um, að ekki mætti slá frá sér svo góðu tækifæri til þess að auglýsa landið. En ég hygg, að söngflokkarnir eigi ekki síður gott skilið og hafi ekki síður haldið uppi hróðri landsins, bæði Karlakór K. F. U. M. og blandaði kórinn, sem fór á Norðurlandasöngmótið, því söngur þeirra þótti framúrskarandi hreimfagur. Ég held, að við getum þarna á mjög ódýran hátt komið á framfæri prýðilegri auglýsingu um okkar menningu.

Ég á hér enn eina brtt., sem borin hefir verið fram oft áður. Það er 51. brtt. á þessu sama þskj., um að veita konu styrk til innlendrar skinnhanzkagerðar. Þessi kona hefir unnið nokkuð að hanzkagerð að undanförnu, og þeir, sem séð hafa, eru hissa á, að hægt skuli vera að gera þá jafngóða úr íslenzkum skinnum. En hana vantar efni til þess að koma upp saumastofu, og er því farið hér fram á 2500 kr. í því skyni. Þetta er ekki mikil fjárhæð, og mér finnst þegar jafnmikið er talað um, að á þessum erfiðu tímum þurfi hver að búa að sínu, að við ættum ekki að sjá í að kosta svona litlu til, til þess að ná þessari iðngrein inn í landið.

Loks er hér 56. brtt., um að veita barnaverndarnefnd þjóðkirkjunnar styrk til byggingar fávitahælis að Sólheimum í Grímsnesi. Drögin að þessu eru þau, að ég ætla, að á Alþ. í fyrra voru veittar 5 þús. kr. samkv. umsókn frá nefndinni, er fór fram á á þús. kr. á ári í 3 ár. Og þó ekki stæði við fjárveitinguna, að það væri fyrsta greiðsla af þremur, stóð n. í þeirri meiningu og hafði fulla ástæðu til, að þessi fjárveiting fengist áfram, eftir því, sem umsóknin fór fram á. Upp á þetta konunglega orð var svo byggt. Söfnunarsjóður lánaði l0 þús. kr. og einstakir menn hlupu einnig undir baggann, en vitanlega verður þetta mjög erfitt og n. illa stödd, ef styrkurinn fæst ekki áfram. Húsið er metið á 36 þús. Þar af hefir söfnunarsjóður lánað 10 þús., ríkissjóður lagt fram 5 þús. og einstakir menn, vinir og velunnarar, gefið 5 þús. krónur.

Þó e. t. v. hafi verið fljótfærni að reikna með áframhaldandi styrk þannig, að veitingin í fyrra væri fyrsta greiðsla af þremur, er ómögulegt að neita því, að n. hafði nokkra ástæðu til að búast við því.

Hælið hefir gengið vel og verið rekið í bezta lagi, m. a. hefir verið fengin lærð hjúkrunarkona frá Þýzkalandi. Landlæknir o. fl., sem vit hafa á, telja hælið prýðilegt og mikla framför að því. Annars eru fávitar ekki eins margir þar og búizt var við, og er það mest vegna þess, að styrkur ríkisins til hælisvistar er miðaður við einstaklinga, en hrepps- og bæjarfélög geta ekki fengið hann, og hafa því hlífzt við að senda fávita þangað. Ég vildi svo mælast til og vonast eftir, að þessi till. verði samþ. og styrkurinn veittur, a. m. k. í þetta sinn, það mundi strax bæta að nokkru úr.

Þá eru ekki fleiri brtt., sem ég hefi flutt einn, en ég er á þremur brtt. með öðrum, sem ég býst við, að hinir flm. séu annaðhvort búnir að mæla fyrir eða geri síðar.