22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Það er eins um þessi einkasölufrv. og yfirleitt skattafrv. þau, sem hin nýja ríkisstj. flytur, að ekki virðist á annað vera litið en stundarhagsmuni ríkissjóðs. Það er ekki litið á hag og þarfir bæjar- og sveitarfél. eða einstaklinga, en allt miðar að því á þessum eymdarárum að þrautpína út einhverja peninga handa ríkissjóði. Menn munu áreiðanlega reka augun í það, að verið er að taka ávallt meira og meira af skattstofnum sveitar- og bæjarfél. handa ríkinu, þótt vitanlegt sé, og sérstaklega ætti hæstv. ríkisstj. að vera vitanlegt, að mörg bæjar- og sveitarfél. eru að komast í það öngþveiti, að ríkissjóður hefir orðið að hlaupa undir bagga með allmörgum þeirra með skuldaeftirgjöfum svo tugum þúsunda og jafnvel hundruðum þúsunda nemur. Með þessu háttalagi er verið að tryggja ríkissjóði tekjur í bili, en hvað verður það lengi, þegar svo nærri er gengið, að sveitar- og bæjarfél. fá ekki nægilegar tekjur til nauðsynlegustu útgjalda. Það er mikil óforsjálni af sjálfri ríkisstj., sem á að hafa skilning á sveitarmálum, að fara þannig að. Það er auðvitað sjáanlegt, að ætla verður sveitar- og bæjarfél. einhvern hluta af þessum sköttum og tollum, sem ríkissjóður er þegar búinn að taka til sín, og ef svo á að fara að ganga einnig inn á þá braut, að taka verzlunarágóðann af einstaklingunum, hvar eiga þá sveitar- og bæjarfél. að taka sínar tekjur? Allt stefnir í þá átt, að gera sveitar- og bæjarfél. ómögulegt að halda uppi lögskilum. Ég veit, að í flestum bæjarfél. eru aðaltekjurnar fengnar af verzluninni. Þannig er það t. d. á Ísafirði, og mér er fullkunnugt um, að í mörgum öðrum bæjum er niðurjöfnun aukaútsvara þannig, að meginhluti þeirra lendir á verzlunarágóðanum. En þegar þær tekjur hverfa, hvar á þá að taka tekjur bæjarfél.? Ég tel það skyldu hæstv. ríkisstj., að sjá bæjar- og sveitarfél. fyrir nýjum tekjum, um leið og hún leggur út á þessa braut. Hér er ekki um annað að ræða en að ríkisstj. verður að gefa eftir eitthvað af því, sem hún þegar hefir tekið. Hjá bæjar- og sveitarfél. eru nú þegar megn vanskil hvað innheimtu aukaútsvara snertir, einungis af getuleysi til að greiða. Ríkið, það er ekki einasta ríkissjóður. Menn verða að athuga það. En viðvíkjandi verzlunarmálunum, ætti það að vera „princip“ stj., að stuðla að því, að neytendur gætu fengið innfluttar þær vörur, sem þeir þurfa að kaupa, sem allra ódýrast og hagkvæmast, og að ágóðinn af verzluninni lenti sem allra mest hjá innlendu verzlunarstéttinni. En ég tel ekki þetta frv., sem hér er borið fram, miða í þá átt. Hv. 4. landsk. segir, að það eigi að standardisera þessar vörur. Það eigi að kaupa örfáar teg. af bifreiðum og vélum. En hvað er með því verið að gera? Það er ekki hægt fyrir okkur að standardisera þar, sem við erum ekki framleiðendur. Árlega verða stórstígar framfarir á sviði þessarar framleiðslu, og erfitt að fylgjast með öllum þeim umbótum, sem eiga sér stað, en frv. þetta, ef að l. verður, útilokar, að við njótum lengur þess bezta fáanlega, með því að hafa hér einungis á boðstólum eina eða tvær teg. af þessum vörum. Við vitum, að ein verksmiðja, sem e. t. v. hefir skarað fram úr í smiði þessara véla um 4—5 ára skeið, getur verið komin langt aftur úr innan lítils tíma. Það er þess vegna óhugsandi að ná gæðastandard með höftum á innflutningi, og binda sig við fáeinar verksmiðjur. Bæði hæstv. ráðh., og eftir því sem mér skildist, einnig hv.

4. landsk., halda því fram, að það beri að útiloka umboðsmenn þessara verksmiðja hér. Þeir séu of margir, og ættu að fækka. Hvað kemur í staðinn? Auðvitað erlendir umboðsmenn, sem reyna að selja einkasölunni þessar vörur, og vel gæti farið svo, að þeir yrðu landinu drjúgum dýrari en hinir innlendu. Því að ágóði sá, sem innlendu umboðsmennirnir hafa haft, hefir verið skattlagður í þágu ríkis, sveitar- og bæjarfél., en umboðslaun erlendra manna koma til með að fara alfarið út úr landinu.

Hvað því viðvíkur, að koma eigi í veg fyrir, að of mikið fé bindist í þessari verzlun, þá get ég ekki álítið, að mikið fjármagn sé þar nú bundið. Ég veit ekki betur en að þær verksmiðjur, sem selja hér mest, eigi hér varahluti. Mér er kunnugt um tvær verksmiðjur, sem eiga hér varahlutaforða, og þegar verksmiðjur yfirleitt fara að selja nokkuð að ráði, munu þær eiga hér lager, og fá gjaldeyri einungis eftir því, hve mikið gengur út af vörunni. Það mun því verða líkt fjármagn bundið í verzluninni áfram eins og hingað til, þótt breytt væri um verzlunarform. Ég veit ekki til, að menn kaupi bifreiðar eða mótora til þess að liggja með.

Hv. 4. landsk. minntist á tóbakseinkasöluna og taldi, að við myndum hafa af henni hagnað og þægindi. Reynslan er ólýgnust í því efni. Þegar verzlunin með tóbak var aftur gefin frjáls í nokkur ár eftir einokunina, þurfti að leggja 10—12% aukalega á það tóbak, sem til var, ef fá átti einhvern hagnað af sölunni. Tóbakseinkasalan gerir vöruna dýrari fyrir neytendum, og samt næst ekki meiri hagnaður, þegar tollur og verzlunarágóði eru lagðir saman, heldur en tollurinn einn gaf áður. Hv. þm. sagði, að forstjórar ríkisfyrirtækjanna hefðu nú svo sem sprotann á sér með að standa vel í stöðu sinni. Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér þetta. Hann meinar sennilega þann sprota, að verzlunin sýni ágóða. Það er ósköp auðvelt í framkvæmd, þar sem enginn er keppinauturinn og leggja má á vöruna eins og þurfa þykir. Vöruna er hægt að selja svo dýrt, að gefa þurfi fyrir hana 50— 70% meira en í frjálsri verzlun, og sú hefir reynslan orðið af þeim ríkisverzlunum, sem við höfum haft hér. Hinsvegar getur enginn risið upp og sagt: Þessi vara er seld óhæfilega háu verði, af því að ekkert er til samanburðar. Að blanda hér inn í gjaldeyrismálinu, er auðvitað gert til þess að tína eitthvað fram frv. til gildis. Flm. er kunnugt um, að kaupendur varanna óska síður en svo eftir einkasölu. Það er ég sannfærður um.