22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2508 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Hv. 1. þm. Skagf. fannst ég litlar upplýsingar gefa um það, hve mikið ætti að leggja á þessar vörur, sem hér ætti að taka einkasölu á. Þetta er rétt. Ég hefi ekki getað sagt þar til um neina hundraðstölu, en hitt get ég sagt honum, hvaða reglum eigi að fylgja. Það á að leggja sama sem ekkert á nauðsynlegustu vörurnar, en hæfilegt gjald á hinar, sem ekki teljast eins nauðsynlegar, svo sem fínar rafmagnsvélar.

Það er ekki vitað nú, hve mikil álagningin er á þessar vörur. Ég býst við, að hvorugur okkar viti t. d. það, hve mikið lagt er á bifreiðar. Þó er mér sagt það, að á bifreiðarnar sjálfar sé ekki lagt mjög mikið, en aftur á móti talsvert mikið á varahluti, enda eru þeir dýrir. Það, sem því mætti miða við nú, er það, að útsöluverð væntanlegrar einkasölu yrði a. m. k. ekki mikið hærra en það er nú í verzlunum. Þá teldi ég tilganginum náð, ef verðið þyrfti ekki að hækka eða jafnvel, að það lækkaði, og tel ég víst, að það mætti lækka a. m. k. á varahlutum, þó að það hækkaði þá á vörum, sem ekki teldust nauðsynlegar, og að þær væru þá seldar með það fyrir augum, að ríkissjóður hefði tekjur af. Hitt álít ég, að megi ekki gera að skattstofni fyrir ríkissjóð, svo sem bifreiðar, mótora, gúmmí og annað slíkt, en að segja ákveðið um það, hve hátt álagið megi vera, það er ekki hægt að svo stöddu. Þó skal ég ekki fullyrða, nema því megi koma við um suma af þessum hlutum. Hv. þm. getur þá ekki sagt, að ég hafi engu svarað því, sem hann spurði um, því að það eru þó a. m. k. til reglur til að fara eftir í þessum efnum.

Hv. þm. er ennþá að tala um bankalögin í Danmörku og að stj. þar hafi engar einokunartill. komið með. Það stóð nú samt í honum, þegar hann fór að tala um, að Nationalbankinn ætti sig sjálfur. Sú breyt. er þar á orðin um þann banka, að hann var stofnun, sem var eign hlutafél., sem réð yfir honum, en var síðan tekinn og settur undir stjórn ríkisins. Þó að þetta sé orðað svo, þá sé ég samt ekki betur en að bankinn sé þjóðnýttur. Hann er tekinn af einkafyrirtæki og lagður undir ríkið.

Hér um árið héldu margir því fram, að Landsbankinn ætti sig sjálfur, en ríkið skipaði stjórnina. (MG: Það er líka rétt ). Þó að það standi kannske ekki beinum orðum í l., að ríkið eigi bankann, þá er þó ekki verulegur eðlismunur á því, þar sem bankinn er stofnun, sem ríkið mundi aldrei láta fara á höfuðið. Alveg eins er það í raun og veru með Nationalbankann í Danmörku, þó að þar séu engin föst ákvæði um það, að ríkið eigi hann. Það sýndi sig líka, að dönsku íhaldsmennirnir álitu þetta sósíaliseringu á bankanum, því að þeir vildu ekki vera með þessari breyt. á fyrirkomulagi hans, nema ríkið seldi aktíurnar í Landmandsbankanum. Svo er nú það, að dönsku jafnaðarmennirnir geta nú ekki komið fram öllu, sem þeir vilja, því að þeir hafa ekki meiri hluta í Fólksþinginu, og ekki heldur í Landsþinginu einir út af fyrir sig. Sama er að segja um sænsku sósíalistana. Norsku sósíalistarnir eru ekki við stjórn, því að þeir eru þar ekki í meiri hluta, en ef hægt er að fá aðra til að samþ. ríkisrekstur, þá eru sósíalistar þar tilbúnir til samvinnu í smærri sem stærri stíl.

Það er útúrsnúningur hjá hv. 1. þm. Skagf., að jafnaðarmennska sé alstaðar ómöguleg nema á Íslandi, af því að ekki væri hægt að hafa transítverzlun. Ég sagði aðeins það, að það væri auðveldara hér á landi en annarsstaðar, af því að hér á landi væru vörur keyptar aðeins til að nota hér á landi. Verzlun er því ekki stunduð hér sem sérstakur atvinnurekstur, heldur aðeins sem þjóðfélagsþjónusta. Þess vegna er svo auðvelt að koma á ríkisrekstri hér á landi. Þetta hefir hv. þm. ekki skilið, en það gæti verið, að hægt væri að gefa honum tíma í þessu við 3. umr. (MG: Það veitir víst ekki af því!). Nei, það er áreiðanlegt, að það veitir ekki af því.

Hv. þm. sagði, að í Danmörku væru flestar vörur lagðar upp í fríhöfn, og þess vegna kæmi það landinu ekkert við. Hann veit það þó, að þær eru settar í vörugeymsluhús kaupmanna, og margt af þeim vörum, sem Danir selja okkur, er ekki selt úr fríhöfnum, heldur úr vöruskemmum kaupmanna.

Ég þarf litlu að svara hv. 1. þm. Reykv. Hann kom inn á þetta sama og hv. 1. þm. Skagf., Nationalbankann danska. Honum fannst seðlabankinn engin séreign sósíalista, þó að hann væri lagður undir ríkið. Þetta hefir verið gert hér, og það er svo með ýmsa hluti, að þeir eru svo gamlir í hugum manna, að mönnum finnst þetta hafa verið svo lengi. Og þegar hv. þm. segir, að bankinn sé ekki sósíaliseraður, þá er það bara af því, að sósíalistar eru búnir að sannfæra hann og aðra um, að það eigi svo að vera. Það eru þau áhrif, sem sósíalistar hafa haft á íhaldsmenn, sem voru á móti því. Þá má benda á bæjarreksturinn. Hér er bæjarrekstur á gasi, rafmagni og ennfremur vatnsveitunni. Sumstaðar er einkarekstur á þessu. En hér þykir bæjarreksturinn svo sjálfsagður, að sjálfstæðismönnum í bæjarstj. kemur ekki til hugar að bera fram till. um að fá einstaklingum í hendur vatnsveituna, rafveituna eða gasstöðina, allt saman af því, að þeir eru orðnir rótgrónir í þeirri sósíalistísku skoðun, að bæjarreksturinn sé heppilegastur. Nú eru allir flokkar sammála um þennan bæjarrekstur. Sjálfstæðismönnum finnst hann svo sjálfsagður, að þeim finnst, að þetta hafi alltaf verið þeirra eigin stefna, þó að þeir hafi barizt á móti henni svo lengi sem þeir gátu.

Þá segir hv. þm., að það sé kosturinn við frjálsu verzlunina, að notendur hefðu strangt eftirlit með henni, og þeir framkvæmdu það á þann virka hátt, að þeir verzluðu ekki við þá, sem þeim líkaði ekki við. Þetta er rétt. En hv. þm. sagði líka, að notendur gætu ekki framkvæmt þetta eftirlit með einkasölu, því að þar yrðu þeir að verzla og gætu ekkert annað farið, hversu illa sem þeim líkaði. En ætli notendur bifreiða og mótora þegðu lengi yfir því, ef einkasalan flytti inn ónýtar teg.? Ég býst við, að það yrði ekki lengi lagt í lágina. Þetta verður vitanlega ekki borið saman við það, hve magnlausir menn voru gagnvart einokunarverzluninni fyrir mörgum öldum. Nú eru mönnum allar leiðir opnar til að bera fram umkvartanir sínar um það, sem þeim líkar illa. Þeir hafa aðgang að útvarpinu, blöðin standa þeim opin, og þeir geta fengið þingmenn til að bera það fram á Alþ. Misfellur á rekstri einkasölu yrði ekki fremur látnar liggja í þagnargildi heldur en ef um einkaverzlun væri að ræða, heldur þvert á móti. Það er því alveg áreiðanlegt, að sá forstjóri einkasölu, sem vanrækti þá skyldu sína, að flytja inn góða og vandaða vöru, hann yrði ekki lengi í stöðu sinni. Hér yrði því um fullkomið aðhald að ræða. Hv. þm. bjóst jafnvel við, að þeir mundu ekki þurfa fleiri milliliði, enda er engum auðveldara að komast í bein sambönd en verzlunum, sem hafa einkarétt til þess að flytja þessa vöru.

Ég má svo ekki eyða tímanum meira, enda get ég látið hér við sitja.