23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þótti vænt um, að hv. 4. landsk. tók undir þá aths. mína, að of langt væri gengið í því að taka alla skattstofna til handa ríkissjóði, enda væri nú svo komið, að bæjar- og sveitarfél. væru því nær tekjustofnalaus. Vænti ég þess, að hann og aðrir, sem slíkum frv. fylgja, viðurkenni þetta líka í reyndinni, en ekki aðeins í umr. á þingi, og reyni að bæta úr.

Það, sem hv. 4. landsk. sagði um að ekki hefðu komið fram kvartanir yfir einokuninni á 15. og 16. öld, er ekki rétt. En það mun hafa verið svo, að þýðingarlaust var að kvarta. Slíkt voru aðeins neyðaróp, sem ekki voru heyrð.

Hv. þm. gekk illa að benda á, að jafnaðarmannaflokkar Norðurlanda hefðu komið með slíkar till. sem þessar. Hann benti reyndar á kornsöluna í Noregi, en hún er gerð eingöngu fyrir norska framleiðendur til þess að halda uppi verðinu, svo að norskir bændur geti orðið samkeppnisfærir í framleiðslu korns, með ríkisstyrk.

Þessi stefna hefir jafnan gripið um sig, þegar milliríkjaverzlun hefir verið heft, en hún er einungis til óþurftar öllum heimi. Auðvitað ber að framleiða hverja vöru þar sem framleiðslan er ódýrust og auðveldust. Hitt er fásinna að halda uppi óhagstæðri framleiðslu með styrk af almannafé. Það er til þess eins að halda uppi dýrtíðinni.

Hv. þm. hélt því fram, að komast mætti framhjá umboðsmönnum með því að hafa slíka einkasölu. Hann hlýtur þó að vita, að öll meiriháttar verksmiðjufyrirtæki hafa sín sölufélög, sem annast sölu framleiðslunnar, og þessi sölufélög taka sín umboðslaun, hvort sem þau skipta við ríki eða einstaklinga. Hjá því verður ekki komizt.

Um standardiseringu vörunnar með þessu fyrirkomulagi hefir verið rætt áður, og skal ég ekki fara langt út í það efni. En víst er það, að vörugæðin eru ekki tryggðari með því að við skiptum við eitt eða tvö fél., sem kunna að vera góð þessa stundina, en geta verið orðin aftur úr að nokkrum árum liðnum.

Mér skildist á hv. þm., að hagnaður á þessum einkasöluvarningi ætti að fara eftir kaupgetu í landinu. (JBald: Eftir því, hvort vörurnar væru nauðsynlegar eða ekki). Já, álagningin. Mér skildist, að ríkið myndi eiga að hafa nokkuð jafnar tekjur og ábyggilegar af þessari verzlun, en þá yrði að leggja meira á vörurnar í vondu árferði en góðu, til þess að ná sama hagnaði. Það yrði að leggja mest á þær, þegar kaupgeta almennings væri minnst.

Ég vona, að flokkur sá, sem hv. þm. er formaður fyrir og virðist hafa aðalráðin í stj. eins og nú stendur, athugi, hvernig hægt er að framfleyta bæjar- og sveitarfél., hvað eftir er af tekjustofnum fyrir þau, sem geri þeim fært að rísa undir þeim miklu skyldum og útgjöldum, sem á þau eru lögð.