23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að beina fáeinum orðum til hv. 4. landsk. út af deilu okkar um Nationalbankann danska. Ég sé ekki betur en að við séum sammála um, að afstaða hans til ríkisins, samkv. till. jafnaðarmannastj. dönsku, sé nákvæmlega sama og afstaða Landsbankans var eftir stofnlögum hans frá 1885. Hv. þm. vildi engan mun gera á því tvennu, að stofnun ætti sig sjálf eða væri í ríkisrekstri. Munurinn er sá, að ríkið verður að borga þann halla, sem af henni kann að leiða, ef það rekur hana, en annars ber stofnunin sjálf ábyrgðina. Þetta sýnir, hve dönsku jafnaðarmennirnir fara varlega. Þeir vilja ekki, að ríkið beri fjárhagslega ábyrgð á seðlabankanum. Danskir jafnaðarmenn fylgja nú þeirri sömu stefnu í bankamálum sem hér var uppi 1885. Hv. 4. landsk. læzt ekki skilja það, að dönsku jafnaðarmennirnir eru ekki róttækari nú en við vorum hér 1885.

Fyrir nokkrum árum var útrunnið einkaleyfi það, sem talsímafélag Kaupmannahafnar hafði, og framlengdi jafnaðarmannastj. það þá um 20 ár. Ég spurði hlutaðeigandi ráðh., hví ríkið tæki ekki að sér talsímareksturinn, en hann svaraði, að ríkið hefði nóg á sinni könnu, þótt það tæki ekki að sér slíkan rekstur.

Þá er transitverzlunin. Hv. þm. sagði, að hún gerði svo erfitt fyrir um að taka einkasölu erlendis. Segir hann, að ekki sé hægt að þjóðnýta verzlunina vegna þessarar transitverzlunar. Hv. þm. heldur, að ef þjóðnýtt sé verzlunin, þá leggist svo mikið á transitverzlunina, að hún eyðileggist. Í þessu felst bein játning um það, að ríkisrekstur í verzlun geri vörur landsmanna dýrari, því að transitverzlun getur í þeim efnum ekki verið nein undantekning. Er gott að hafa fengið þá yfirlýsingu frá hv. 4. landsk., sem telur sig vera höfuðpostula ríkisrekstrarkenningarinnar, sérstaklega í verzlun.