06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Eins og ég hét við 1. umr. þessa máls, höfum við flm. þess, sem erum í meiri hl. fjhn., íhugað frv. betur og átt tal um það við menn, sem kunnugir eru og fróðir í þeim greinum, sem það varðar. Við höfum síðan komið okkur saman um að bera fram nokkrar brtt. við frv., og eru þær á þskj. 310.

Brtt. þessar fela ekki í sér neinar verulegar efnisbreyt., nema þá, að inn í b-lið 1. gr. er bætt rafmagnslömpum. Það mun töluvert vera flutt af þeim til landsins, og þar sem þeir eru svo skyldir ýmsum öðrum vörum, sem undir frv. falla, þótti rétt að taka þá með. Að öðru leyti er ekki um miklar breyt. að ræða. Við höfum þó fært sumt af hinum teknisku heitum í b-lið til betra máls og sett inn ný heiti, sem iðnaðarmenn hafa þegar tekið upp í samráði við málfræðinga. Þó hefir þessu ekki verið alveg fylgt um íslenzk heiti á rafmagnsvörum, enda eru þau nokkuð mismunandi eftir því, hvar er á landinu. Hér í Rvík er t. d. sagt „rafmagnsveita“, „rafmagnsstraumur“ o. s. frv., en annarsstaðar á landinn „rafveita“, „rafstraumur“. Við teljum reykvísku orðmyndirnar viðfelldnari og réttari.

Landssímastjóri hefir farið fram á, að felld verði niður úr frv. ritsíma- og talsímaáhöld, með því að landssíminn einn flytji nú þessar vörur inn, og því einskonar einkasala á þeim nú þegar. Við höfum þó ekki talið rétt að fella þessar vörur niður úr frv., en höfum bætt inn í 4. gr. heimild til að fela ríkisstofnunum að sjá um innkaup á einstökum vöruteg. Stj. gæti því falið landssímanum að hafa verzlunina með þessi áhöld.

Ég vil í sambandi við þessar brtt. minnast á það, að borizt hefir til nefndarinnar till., sem samþ. var á síðasta fiskiþingi og felur í sér mótmæli gegn þeim hluta frv., er fjallar um einkasölu á mótorum. Till. þessi kom frá meiri hl. fjhn. fiskiþingsins, en um atkvæðamagn það, sem hún var samþ. með, er mér ekki kunnugt, Það er þó alveg ljóst, að ágreiningur hefir verið innan fjárhagsnefndar fiskiþingsins um þetta mál, þar sem till. er borin fram af aðeins nokkrum hluta hennar, enda er mér kunnugt um það, að ýmsir útgerðarmenn líta svo á, að einkasala á mótorum muni verða til bóta og hindra, að inn í landið verði flutt framvegis mikið af bráðónýtum vélum, eins og tíðkazt hefir. Meiri hl. n. hefir því ekki séð ástæðu til að taka þessi mótmæli til greina.

Það er þá ekki margt fleira, sem ég þarf að segja af hálfu meiri hl. n. Fyrirsögn frv. þótti ekki tæmandi eins og hún var og hefir því verið breytt lítið eitt. En áður en ég hætti að tala um þetta mál vil ég minnast á eitt atriði, sem talað var um við 1. umr. og mikla þýðingu hefir í þessu sambandi. Það er sú hætta, sem er á því, að bæirnir, og þá einkum Rvík, missi tekjur við það, að verzlunin eða einstakar greinar hennar séu reknar í einkasölu. Samkv. lögum greiða einkasölur nú 5% af nettóhagnaði í bæjarsjóði. Ég geri nú ekki ráð fyrir stórfelldum hagnaði fyrst um sinn af þeirri verzlun, en nokkur myndi hann þó verða, og ég held, að það sé ómótmælanlegt, að bæirnir tapi einhverjum tekjumöguleikum við þessar ráðstafanir. Ég vildi því athuga rækilega, hvort ekki væri hægt að ákveða, að hærri hundraðstala af nettóhagnaði en nú er ákveðið rynni til bæjar- og sveitarsjóða. Um þetta liggja ekki fyrir neinar till. nú, en ég mun athuga til 3. umr., hvort ekki er hægt að bera fram slíka till. um sanngjarnari skiptingu arðsins milli ríkis og bæjar- eða sveitarfél. Sú till. kæmi þá ekki frá n., heldur frá mér, annaðhvort sem brtt. við frv. þetta eða sem breyt. á gildandi l. um þetta efni.

Ég sé, að komið er fram nál. frá minni hl., sem leggst á móti málinu, eins og vænta mátti, og mun ég svara þeim mótbárum, er hv. minni hl. hefir talað fyrir sínu máli.