06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (3793)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það, sem hv. frsm. minni hl. bar fram hér, var að nokkru leyti það sama og fram kom við 1. umr. þessa máls. Mér skildist hann líta svo á, að við hefðum fellt niður úr frv. ritsíma og talsíma, en það var ekki gert, eins og hv. þm. getur séð, ef hann vill það á sig leggja að lesa okkar brtt. (MJ: Ég hélt, að hv. frsm. talaði í samræmi við nál.), því að það er einmitt tekið upp í brtt., en því er bætt inn í 4. gr., að heimilt sé að fela einkasöluna ríkisstofnun, og það eru þá möguleikar til þess, að landssíminn geti fengið þessa einkasölu í sínar hendur. Það er kannske eðlilegt, og ég er ekkert að binda hendur hæstv. ríkisstj. í því efni, að landssíminn geti tekið sölu á þessum áhöldum í sínar hendur.

Hv. 1. þm. Reykv. er ennþá, eins og flokksbræðrum hans er títt að gera, að vitna til jafnaðarmanna á Norðurlöndum, að þeir séu ekki svona gráðugir í einkasölur eins og við Íslendingar. Ég get nú sagt hv. þm., að það er þegar orðið nokkuð af ríkiseignum þar, fyrirtækjum og öðru, t. d. eru járnbrautirnar að mestu ríkieign. Það svarar til þess, að ríkið hér ætti og ræki bifreiðarnar á vegunum. Þessu hafa jafnaðarmenn í þessum löndum unnið að smátt og smátt, eftir því sem þeir hafa getað, að stuðla að því að kaupa einkajárnbrautirnar, til þess að leggja þær undir ríkið, þó að einhverjir fleiri flokkar hafi verið með þeim í því, eins og hér á sér stað nú, að Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa orðið sammála um að taka upp einstakar teg. einkasölu, án þess þó að Framsóknarflokkurinn játist undir það, að hann sé með þjóðnýtingu. Þannig verður það að vera, og er í nágrannalöndunum, að jafnaðarmennirnir nota hvert tækifæri til þess að leggja fyrirtæki undir ríkið.

Til viðbótar þeim ástæðum, sem þessi hv. þm. bar fram við 1. umr. þessa máls, bætti hann þeim ummælum, að sá meiri hluti, sem nú réði í landinu, væri fífl, sem ætti að etja á foraðið og hvorki hefði vit né vilja á við skoðanabræður sína í öðrum löndum, og líkti hann svo fólkinu við kanínur og rottur, sem hafðar væru til tilrauna. Það er ánægjulegt að vita til þess, að þessi maður skuli eiga að kenna prestaefnum landsins góðan munnsöfnuð og ráðinn til þess af ríkinu — þjóðnýttur —, ef hann gerir það eitthvað í þessa átt. Þá verða sjálfsagt prestaefnin í þessu landi vel upp alin og fær um að inna sín störf af hendi. Þetta flutti hann svo hitalaust sem mest mátti vera; hann hafði ekki þá afsökun, að hann væri vondur, heldur var hann kaldur og rólegur meðan hann var að kalla andstæðingana fífl og líkja þeim við kanínur og rottur. Ég veit ekki, hvort þetta orðbragð prestaskólakennarans hefir veruleg áhrif á atkvæði manna um þetta mál. Ég hefi enga trú á því, að það bæti fyrir málstað hans og þeirra manna, sem hann talaði fyrir.