06.11.1934
Efri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (3795)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það er nú í raun og veru óþarfi fyrir mig að standa upp aftur, því að hv. frsm. meiri hl. er eðlilega latur að tala um þetta mál, hann veit, að það er allt ákveðið fyrirfram, hvernig það skuli fara. Það er þessi gamla setning: „Ég er ekki kominn hingað til þess að láta sannfærast“, sem þar gildir algerlega.

Hv. frsm. benti á dæmi úr nágrannalöndunum, en hann fann nú einu sinni ekkert nema þjóðbankann danska, sem reyndist ekki vera verk jafnaðarmanna, en nú nefndi hann ríkisjárnbrautirnar, og get ég nú búizt við, að þrátt fyrir tveggja vikna undirbúning sé hann búinn að tæma allt, sem hann getur fundið af þessu tægi hjá nágrannaþjóðunum.

Það er ekki stefnumunur milli okkar sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, að sjálfstæðismenn séu á móti allskonar ríkisrekstri, ríkisrekstur á ýmsum sviðum er viðurkenndur af öllum flokkum. Ég hefi t. d. aldrei heyrt talað um hér á landi, að póst-, síma- og skólamál og ýms fleiri mál ættu að vera rekin af einstaklingum. Það er augljóst, að það eru ákveðin fyrirtæki, sem eru ýmist svo mikil um sig eða þannig vaxin, að það er heppilegast, að þau séu í höndum eins fyrirtækis, og þá er víðast hvar horfið að því ráði, m. a. af fjárskorti, að láta ríkið reka þau. En það er ekki þar fyrir, að það eru eins dæmi til þess, að þessi fyrirtæki séu rekin af einstaklingum. Í Bandaríkjunum hefir talsíminn verið rekinn af einu fél., sem hefir 400 þús. menn í þjónustu sinni, og það er dálítið einkennilegt, að það er sagt, að hvergi sé betri símaafgreiðsla en þar, og nálega allar nýjungar á þessu sviði koma einmitt frá verkfræðingum þessa fyrirtækis. Járnbrautirnar þar hafa til skamms tíma, og ég held ennþá, verið reknar af einstaklingum og er rekstur þeirra engan veginn lakari heldur en ríkisjárnbrauta. En það er önnur ástæða, sem veldur því, að ríkin reka yfirleitt járnbrautir, og hún er sú, að þau þurfa að haga járnbrautunum eftir hernaðarþörfum, og jafnvel þó það væri stórkostlega óhentugt fyrir ríkin að reka járnbrautirnar, þá verða þau að halda dauðahaldi í þær vegna þessara hernaðarmála.

Hv. frsm. og hæstv. ráðh. þótti illt, að ég heimfærði til þeirra þetta gamla máltæki, en ég tek ekkert aftur af því, sem ég sagði um það, og ef þeim finnst það eiga vel við sig, þá er það líkt eins og Steingrímur sagði: „Þegar presturinn sagði í stólnum, að dagur drottins kæmi eins og þjófur á nóttu, þá kallaði einhver upp frammi í kirkju og sagði: „Ha! hver var að tala um mig?“

Hér er verið að gera tilraunir, sem engin af hinum Norðurlandaþjóðunum hefir lagt út í að gera, og hafa þó þar verið jafnaðarmannastjórnir um lengri tíma. Hvað er þetta annað en gamla máltækið, að „elja fíflinu á foraðið“. Þessi ágæta! ríkisstj. okkar hefir hvorki þekkingu, gætni né velvilja á við stjórnir nágrannaþjóðanna. En hitt er annað mál, hvort rétt er að blanda mér inn í þetta sem prestaskólakennara, en það er nú einu sinni þeirra vani að sletta því að mér, að ég sé prestakennari, þegar öll þeirra rök eru þrotin, en þeim finnst það kannske heilbrigðara að „þegja við öllu röngu“; það er eins mikils virði að kunna að kalla það ljóta ljóti eins og það er lítilmótlegt að þora ekki að rísa upp á móti ranglætinu, af því að kunna ekki að velja því rétt orð. Þessir hv. þm. mega senda sína útsendara í tíma til mín og vita, hvort það orðbragð, sem ég hefi, muni spilla nemendunum.

Hv. 4. landsk. hélt því fram, að svona orðbragð hefði ekki áhrif á atkvæðagreiðsluna um þetta mál. Það getur vel verið, en það hefir álíka mikil áhrif og sterk rök, því að það hefir engin áhrif, þó að meginþorri þeirra manna, sem nota bátamótora, leggist fast á móti þessu einkasölufargani; það hefir álíka mikil áhrif og þó að ég noti hér einhver stór orð.

Hæstv. fjmrh. gaf það, sem hann kallaði yfirlýsingu, um það, sem ég óskaði eftir áðan, en ég vildi helzt fá þessa yfirlýsingu dálítið skýrari heldur en hún var. (Fjmrh.: Hún fæst ekki skýrari að svo stöddu). Þá er loforð hv. frsm. meiri hl. um að bæta úr tekjustofnum bæjarfél. með því að hækka þessi gjöld frá ríkisstofnunum, einskis virði. Það eru bara falleg orð frá honum, sem ekkert gildi hafa. Nei, þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. var, það, sem hún náði, sýnilega á móti þessari till. frsm., því að hann sagði á þá leið, að hugsanlegt væri að láta eitthvað meira af ágóða þessara fyrirtækja renna í sveitar- og bæjarsjóði.

Það er augljóst mál, að hér er um mikla skerðingu að ræða fyrir bæjarfél., þegar það er gert jafnhliða því, að alltaf er verið að seilast nær og nær þeim öðrum tekjustofnum, sem bæjarfél. geta haft.

Þá var hæstv. ráðh. að leitast við að svara því, er ég hreyfði viðvíkjandi atvinnuleysinu, sem af þessu mundi leiða. Hann sagði, að ekki mundi verða mikill munur á starfsmannafjölda, en það er sá mikli munur, að það verður allt annað fólk, sem þarna mun vinna, a. m. k. ef þessi einkasala verður framkvæmd undir stjórn hæstv. núv. stj., þá bregður hún vana sínum, ef hún skipar í þessar trúnaðarstöður yfirleitt þá menn, sem nú vinna af þessu starfi. En það eitt, að skipta um starfslið, sem skiptir hundruðum og kannske þúsundum, orsakar mikla truflun og atvinnuleysi í landinu.

Mér finnast þessar tvær ástæður, sem ég hefi fært fram, standa í fullu gildi þrátt fyrir þessi litlu andmæli frá hæstv. ráðh. og hv. frsm. meiri hl. n.