27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2524 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Forseti (JörB):

Ég get ekki sakað mig um það, að ég hafi ekki hvatt hv. þm. til þess að vera viðstadda á fundum. Hinsvegar hefi ég tekið tillit til óska hv. þm., án tillits til flokkaskiptinga, um það að fresta atkvgr., — en þess konar getur náttúrlega gengið í það óendanlega. Þar sem nú er 2. umr. um þetta mál og engin brtt. liggur fyrir frá 2. umr., því að brtt., sem síðast kom fram um málið, kom eftir að búið var að ljúka umr., svo að hún verður tekin fyrir fyrst við 3. umr. (JakM: Það mun rétt vera), ætla ég, að ekki þurfi að koma að sök, þótt atkvgr. fari fram nú um frv.

Hinsvegar vil ég geta þess, að ég mun taka upp þá reglu, nema alveg sérstaklega standi á, þegar atkvgr. er frestað frá deginum áður, að ganga til atkv. um það mál í byrjun fundar næsta dag á eftir, nema sérstaklega standi á eins og þegar um sjúkdómstilfelli þm. er að ræða, til þess að ekki dragist úr hófi fram afgreiðsla mála. Vil ég mega vænta þess, að menn að þessu sinni sætti sig við þessi málalok nú. (PO: Því var þá ekki gengið til atkv. um þetta fyrst í dag?). Þá vantaði líka marga hv. þm. (ÓTh: Það er rétt hjá hæstv. forseta, að þetta skiptir ekki máli, vegna þess að þetta er 2. umr.).