11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (3821)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég hefi, eins og áður, ekki getað fylgt þessu frv. óbreyttu, og hefi ég þess vegna komið með brtt. við það, sem aðallega miðar að því, að fella burt einkasöluheimildina. Síðan fyrsta umr. fór fram um þetta mál hefi ég gert mér far um að eiga tal við síldarútvegsmenn og þá, sem kunnugir eru þessum atvinnuvegi, til þess að kynnast skoðunum þeirra um málið, og sérstaklega, hvort þeir álitu nauðsynlegt að breyta löggjöfinni um þessi mál nú á þessu þingi og hvort þeir álitu ekki, að þau bráðabirgðal., sem gefin voru út í sumar til stuðnings matjessíldarsamlaginu, gætu nægt í bili.

Stjórnendur matjessíldarsamlagsins bera fram sem forsendur í þessu máli, að þeir áliti, af fenginni reynslu, að þau samtök dugi ekki, og þess vegna álita þeir, að hér verði að herða betur á stj. þessara mála. En þeir, sem eru mjög kunnugir þessum málum, og sumir þeirra eru gamlir og reyndir útgerðarmenn norðlenzkir, hafa látið svo um mælt við mig, að í raun og veru sé engin reynsla fengin á starfsemi matjessíldarsamlagsins, því að árið í ár hafi verið svo afkastalítið hvað þessa vöru snertir, að þeir gætu eiginlega ekki sagt, að full reynsla væri fengin á því, hvort matjessíldarsamlagið kæmi að fullum notum eða ekki, því að saltað hefði verið svo lítið af þessari síld og tiltölulega vandalítið að losna við hana á síðasta sumri.

Eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, stendur hér talsvert öðruvísi á heldur en t. d. um saltfiskverzlunina. En þó er það sýnt, að þau tvö frv., sem borin hafa verið hér fram um þessi mál, frv. um fiskimálnefnd og frv., sem hér liggur fyrir, þessi tvö frv. eru sniðin hvort eftir öðru og virðast vera útbúin að miklu leyti af hinum sömu mönnum.

Í frv. er talað um, að síldarútvegsn. eigi að löggilda síldarútflytjendur, og ennfremur er gert ráð fyrir, að eitt allsherjarsamlag geti fengið nokkurskonar einkarétt á því að flytja út síld, eftir að slíkt samlag hefir fengið visst ákveðið magn af síldinni til umráða. Þá er ennfremur í þessu frv., eins og í hinu frv., um saltfiskverzlunina, látið í veðri vaka, að einkasala verði sett á stofn, til þess að hægt sé að halda síldinni allri á einni hendi.

Skal ég þá koma að hinum sérstöku brtt., sem ég flyt við frv. Skal ég játa, að ég hefi hvorki haft tíma til né hirt um að eltast við hverja gr. frv., sem ég efast þó ekki um, að hægt hefði verið að lagfæra á ýmsan hátt. En á þessu stigi málsins álít ég það skipta mestu, ef hægt er að færa í betra horf heimildaratriði frv.

Í 3. gr. frv. er talað um saltaða síld eða verkaða á annan hátt, sem veidd er af ísl. skipi í ísl. landhelgi, eða verkuð hér á landi o. s. frv. En í þessari gr. er líka talað um ísaða síld og gert ráð fyrir, að n. geti veitt undanþágu um sölu hennar. Mér virðist ísaða síldin vera þessu máli alveg óviðkomandi, og ég legg til í brtt. minni, að orð frv. um ísuðu síldina verði felld burt, og henni þannig kippt undan afskiptum síldarútvegsn.

Ég minntist áðan á þann félagsskap, sem frv. gerir ráð fyrir, að eigi að hafa 80% af allri síldarframleiðslu landsmanna, til þess að fela megi honum alla verzlun með síldina. Þessi gr. er, að því er síldina snertir, alveg eins á sinn hátt og ákvæði eru í frv. um fiskimálan., sem ég hefi lagt til, að felld yrðu niður, og hefi ég einnig lagt til, að þessi gr. félli niður. Ég hefi lagt til, að þau skipulagsákvæði falli burt, að slíkur félagsskapur skuli annaðhvort vera samvinnufélag eða starfa eftir ákvæðum frvgr. Ég er þeirrar skoðunar, að ef þessir menn, sem standa að 80% af framleiðslunni á þessu sviði, á annað borð vilja vera í félagsskap og vinna saman, þá eigi þeir sjálfir að ráða því, hvernig þeir skipuleggja sinn félagsskap og að það sé óþörf íhlutun af hæstv. Alþ., að gefa þar nokkur ákvæði um. Auðvitað má skipuleggja félagsskap á fjölda margan hátt, og ég sé ekki, að ákvæði þau, sem hér eru nefnd, séu til nokkurra muna betri en ýmsar þær reglur og l., sem einstakar samlagssölur hafa sett sér. Vitanlega er það rétt, að svona félagsskapur á að vera opinn fyrir öllum síldarframleiðendum, svo að þeir geti allir átt þar aðgang. Því ákvæði gr. vil ég halda.

Við 3. gr. vil ég gera orðabreyt., þannig að í staðinn fyrir, að í upphafi gr. er það tekið fram, að þeir, sem samkv. 4. og 5. gr. fá löggildingu sem útflytjendur, komi, að þeir, sem samkv. 4. gr. fá löggildingu sem útflytjendur. Ég sé ekki annað en að hér sé um meinloku að ræða í orðalagi frv., því að það er búið að taka fram í 4. gr., hverjir fái slíka löggildingu, og í 5. gr. er engum nýjum bætt við í því tilliti. Í 5. gr. er aðeins talað um, að þeir, sem fá löggildingu n. sem útflytjendur, verði að hlíta fyrirmælum hennar um ýmsa hluti og að öðru leyti, hvað með reglugerð megi ákveða.

Síðasta brtt. mín er við 11. gr. frv„ sem felur í sér einkasöluheimildina. Hér legg ég til, eins og ég lagði til viðvíkjandi frv. um fiskimálan., að heimildarákvæðið um að stj. geti tekið þessa framleiðslu í einkasölu, falli niður. Ég fæ ekki betur séð en að þótt þessi heimild sé felld niður úr frv., þá sé samt nægilega mikið vald skilið eftir í höndum stj. og síldarútvegsn. til þess að láta framleiðendur hafa nægilegt aðhald, svo að þeir fáist til þess að vera í félagsskap um söluna. Heimildin til einkasölu gæti orðið til þess, ef misklíð yrði á milli manna um útflutninginn, að þá yrði horfið að ríkiseinkasölu á síldinni. Við höfum svo sorglega reynslu í þeim efnum, að ég get ekki skilið, að það sé eftirsóknarvert að fara út í einkasölu á ný. Hinsvegar er rétt, að settar séu reglur til þess að fá menn til að standa saman í síldarútflutningnum. Reynslan hefir sýnt, að það er erfiðara að fá menn til að standa saman í síldarútveginum heldur en í annari fiskframleiðslu landsmanna. Um það ræddi ég við 1. umr. og skal ekki endurtaka það hér.

Eins og ég hefi sagt, eru það ýmsir merkir menn, sem ég hefi átt tal við, sem álíta, að hættulaust sé að reyna matjessíldarsamlagið eitt ár enn, og vita, hvort það fullnægir ekki tilgangi þeirra manna, sem vilja koma síldarútgerðinni í það horf, að umboðssala og annað það, sem til niðurdreps er fyrir útveginn, hætti. Síðan þetta mál var til 1. umr. hefir ýmsum hv. þm. borizt skeyti frá síldarsaltendum á Siglufirði, og er það svohljóðandi: „Vér undirritaðir síldarsaltendur á Siglufirði skorum hér með á hið háa Alþingi að fella frumvarp það um síldarútvegsnefnd, er fyrir þinginu liggur, þingmál 161, sem felur í sér einkasölu á síld, og er það eindreginn vilji vor, að verzlun, framleiðsla og útflutningur á síld og kryddsíld verði hverjum íslenzkum borgara algerlega frjáls. Viljum vér rökstyðja þessa áskorun vora í stuttu máli með eftirfarandi:

1. Nú er svo komið, að 6 erlendar þjóðir stunda síldveiðar hér við land á meira en tvöfalt fleiri skipum en við Íslendingar, og er því aðstaðan miklu verri nú en þegar síldareinkasalan var stofnuð 1928.

2. Samþykkt ofannefnds frumvarps myndi örva þessa þátttöku útlendinga í veiðinni utan landhelgi.

3. Síldarframleiðsla Íslendinga yrði einskonar varabirgðir, sem aðeins yrðu keyptar, ef útlendingar utan landhelgi veiddu of lítið til þess að fullnægja markaðinum.

4. Lánstraust síldarsaltenda fyrir tunnur og salt myndi hverfa og ríkissjóður neyddist til að taka á sig áhættuna við að ábyrgjast innkaup á þessu.

5. Jafnframt því, sem framleiðslan hlyti að minnka við einkasölu, yrði afleiðingin tilfinnanlegur atvinnumissir fyrir almenning. Síldarútvegurinn hefir gengið sæmilega síðan síldareinkasalan hætti 1931, og engin ástæða til að hætta þessum atvinnuvegi aftur inn á einkasölubrautina, sem reynslan er búin að sýna, að hafði milljónatöp í för með sér fyrir ríkissjóð og landsmenn. Hér fara á eftir undirskriftir vorar ásamt tilgreindri tunnutölu framleiðslu hvers einstaks 1931: Ásgeir Bjarnason 3070 tunnur, Halldór Guðmundsson 9500 tunnur, Ragnarsbræður Ólafur Ragnars 13000 tunnur, Guðm. Hafliðason 1980 tunnur, O. Tynes 9400 tunnur, Helgi Hafliðason 1950 tunnur, Samúel Ólafsson 1950 tunnur, Friðrik Guðjónsson 6700 tunnur, Olaf Henriksen 4300 tunnur, Þorst. Pétursson 1400 tunnur, Sveinn Guðmundsson 6000 tunnur, Pétur Bóasson 4000 tunnur, E. Malmquist 2700 tunnur“.

Ég hefi álitið rétt að lesa upp þau mótmæli, sem þessir menn hafa sent Alþ. Það er alls enginn efi á því, að þessir menn hafa hagsmuna að gæta, og er eðlilegt, að þeir vilji láta álit sitt uppi, þegar taka á málið þeim tökum, sem hér er ráðgert í frv. Það, sem þessir menn byrja á að krefjast, er, að framleiðslan verði hverjum ísl. borgara frjáls og útflutningur á saltsíld sé frjáls. Þetta er í samræmi við skoðun þeirra manna, sem vilja halda matjessíldarsamlaginu og hafa það þannig, að framleiðsla og sala sé innan sérstakra vébanda, en láta framleiðslu og sölu á kryddsíld og saltsíld vera frjálsa. Ég hygg, að hv. frsm. þessa máls hafi lýst því við 1. umr., að þessi skoðun hafi komið fram á fundi matjessíldarsamlagsins fyrir nokkru á þann veg, að helmingur félagsmanna vill halda áfram samlaginu í sama horfi og síðastl. sumar, og þessi helmingur vill hafa kryddsíld og saltsíld út af fyrir sig. Ég tel rétt að benda á þann rökstuðning, sem þessir menn færa fyrir máli sínu. Þeir benda á það, að sex erlendar þjóðir stunda síldveiðar hér við land, og þær ráða yfir tvöfalt meiri skipakosti en Íslendingar til síldveiða. Þeir fullyrða, að aðstaða Íslendinga sé nú verri en þegar síldareinkasalan var stofnuð 1928. M. ö. o. hefir samkeppni útlendinga aukizt síðan 1928. Við þetta get ég bætt, að mér er kunnugt um, að samkeppnin muni magnast ennþá meir. Þeim þjóðum fer ekki fækkandi, sem draga sig eftir veiðinni utan landhelgi, þeir hafa „móðurskip“ og salta í þau. Ég held, að mennirnir fyrir norðan hafi lög að mæla í þessum efnum, og ekkert útlit sé fyrir það, að samkeppnin minnki.

Svo halda þeir því fram, að samþykkt þessa frv. muni örva þátttöku útlendinga í veiðinni utan landhelgi. Það yrði þá sennilega einkasöluheimildin í frv., sem gerði það að verkum, vegna þess, að það er alkunnugt í nágrannalöndunum, að einkasalan, sem við höfðum, var okkur til stórtjóns. Þessi heimild yrði líklega til þess að ýta undir útlendinga til þess að koma og setjast að krásinni, þegar við sjálfir værum að spila þessu úr höndum okkar. Það er þess vegna mjög athugunarvert, hvort ganga á svo langt að samþ. einkasöluheimildina.

Þá halda Norðlendingarnir því fram, að síldarbirgðir okkar yrðu varabirgðir handa útlendingum. Þetta er ekki ólíklegt. Vitaskuld kaupa þeir og nota fyrst þá síld, sem veidd er á þeirra eigin skipum, og þeir kaupa því aðeins af okkur Íslendingum, að þeir afli ekki nóg á sín eigin skip. En ég býst við, að þessi röksemd komi til greina, hvort sem frv. verður samþ. eða ekki, úr því að útlendingar eru komnir inn á þessa braut, að veiða síld hér við land til eigin afnota. Í fjórða lagi halda þessir menn því fram, að lánstraust síldarsaltenda fyrir tunnur og salt muni hverfa og ríkissjóður neyðast til að taka áhættuna á sig við að ábyrgjast innkaup á þessu. Þetta á við lánstraust þeirra, sem í útlöndum fá lánaðar tunnur og salt. Það er hætt við, að sú verði raunin á, þegar útlendingar, sem lána tunnur og salt verða sér þess meðvitandi, að viðskiptavinir þeirra eru ekki sjálfráðir að ráðstafa framleiðslu sinni. Það leiðir af sjálfu sér, að það er ekki fjarri sanni að ætla, að síldarsaltendur og framleiðendur yrðu að leita á einhverra annara náðir til þess að fá nauðsynlegt fé til framleiðslu sinnar. Nú er ekki gert ráð fyrir því, að síldarútvegsmenn hafi fé til umráða, og nægilegar yfirlýsingar eru fyrir hendi um neitanir bankanna, og er þá ekki ólíklegt, að horfið verði að því ráði, að leita til ríkissjóðs. En hver stj., sem situr að völdum, verður víst treg til afskipta, en hinu verður ekki neitað, að líklegt er, að sá aðgangur, sem menn hafa haft til að fá tunnur og salt að láni, lokist um leið og lögfest er, að einstakir síldarútvegsmenn ráði ekki yfir vöru sinni. Það gæti verið, að síldarútvegsnefnd ætti að vera milligöngumaður milli þeirra og lánardrottna, en frv. segir ekki neitt um það. Í frv. er ekki gert ráð fyrir öðru en því, hvernig ráðstafa skuli fullsaltaðri vörunni.

Í fimmta lagi halda þeir því fram, að framleiðslan muni minnka, og að atvinnan muni fara versnandi fyrir almenning. Ég skal nú ekki neitt um það segja, hvort þetta er rétt, því ég þori ekki að leggja dóm á það. En það er svo skýrt í skeytinu, að þeir vara við því að hætta þessum atvinnuvegi inn á einkasölubrautina, og býst ég við, að margir hv. dm. taki undir það með þeim. Nú kann einhver að segja, að það séu ekki útgerðarmenn, sem leggja þetta til. Ég býst við, að þessir menn séu ekki allir útgerðarmenn. (FJ: Hvað margir?). Ég skal játa, að ég veit ekki, hve margir þeirra eru útgerðarmenn. En hvort sem þeir eru margir eða fáir, þá eru þetta þó menn, sem árum saman hafa starfað við þennan atvinnnveg og telja rétt að láta uppi álit sitt við hv. Alþ., og er það okkar skylda að hlusta á rök þeirra og taka svo mikið tillit til þeirra, sem við treystum okkur til vegna þessa atvinnuvegar. Hinsvegar er það víst, að til eru menn í þessum hóp, sem eru áreiðanlega útgerðarmenn, og þeir halda því fram, að ekki sé aðkallandi nauðsyn að breyta til, og megi enn notast við matjessíldarsamlagið. En hæstv. stj. og þeir, sem að frv. þessu standa, eru annarar skoðunar og vilja hafa fastbundið skipulag, eins og segir í frv. Ég vil nú ekki gera mig að dómara í því efni. Það getur vel verið, að þörf sé á að bæta skipulagið. En það er engin knýjandi nauðsyn að stefna inn á einkasölubrautina. Það er mín aðaltill. í þessu máli, að þingið láti væntanlegt síldarsölusamlag byggja sig upp eins og meðlimirnir vilja og að þingið samþ. ekki frv., þar sem í eru þau ákvæði, sem geta valdið því, að aftur verði tekin upp einkasala á síld. Þar sem þess er gætt, að þetta hefir verið reynt, og að til eru gætnir síldarútvegsmenn, sem segja, að engin ástæða sé til að breyta matjessíldarsamlaginu í bili, þá er það fullvíst, að þeim mun minni ástæða er til að lögfesta ákvæði um einkasölu á síld. Önnur ákvæði frv. um síldarútflutning eru svo rík, að ótrúlegt er, að það geti sakað, þó sú aðferð væri reynd í sumar, að bæta matjessíldarsamlagið, svo að það nái yfir alla síld, og láta svo síldarútvegsnefndina veita veiðileyfi, verkunarleyfi og löggilda útflytjendur, án þess að farið sé inn á einkasölubrautina. Ég skal taka það fram, að ég get ekki fylgt svo róttækri tilraun til þess að reka menn saman, að ég geti greitt atkv. með því að taka upp einkasölu, enda er það alveg óþarft.

Hér liggja fyrir aðrar brtt. en þær, sem ég flutti. Ég sé, að hv. þm. Ísaf. leggur til, að fyrir 80% komi 75%, og hefi ég ekkert við það að athuga. Þá flytur hv. þm. Borgf. brtt. um það, að öðruvísi verði skipað í síldarútvegsnefnd, svo að réttur einstakra landshluta verði betur tryggður. Eins og gr. er orðuð í frv. er hún óviðkunnanleg að því er snertir Sunnlendinga, og álít ég, að brtt. sé til bóta. Frá hv. 6. landsk. er brtt. um það, að Austfirðingar skipi sérstakan fulltrúa í síldarútvegsnefndina, og er þetta sjálfsagt rétt líka.

Þetta mál er svipað að byggingu og frv. um fiskimálanefnd, en hinsvegar eru hér ástæður aðrar og meiri þörf til þess að halda saman á þennan hátt í síldarútveginum. Ég álít, að það eigi að líta á þá þörf, en taka líka til íhugunar mótmæli þau, sem komið hafa fram við 1. umr. og forðast að stofna síldarútveginum aftur út í þau vandræði, sem yfir dundu, þegar gengið var inn á þá óhappabraut að lögleiða einkasölu á síld. Það eru mikil vandræði, sem steðja að síldarútveginum af samkeppninni við útlönd, og öll bygging á þeim félagsskap, sem hefir söluna á hendi, verður að miðast við það, að slíkt fél. eigi sem auðveldast með að keppa á útlendum markaði. En þeir, sem við eigum þar við að keppa, eru vanalega landsmenn sjálfir. Í Svíþjóð leggja t. d. Svíar sjálfir upp talsvert af síld, og í Þýzkalandi verðum við að keppa við Þjóðverja sjálfa á markaðinum. Síðastl. sumar sendu þeir móðurskip hingað til Íslands (FJ: Var þá einkasala á Íslandi?), og gera sennilega meira að því næsta sumar, því ég trúi, að sá leiðangur hafi heppnazt vel.

Af þessum sökum er nauðsynlegt, að sem bezt stj. sé á síldarútvegi og síldarverzlun okkar Íslendinga, og að það verði lagað eftir markaðsmöguleikum á hverjum tíma og öðrum aðstæðum. Ef í síldarútvegsn. veljast hæfir menn og séð verður fyrir sölu síldarinnar á sem beztan hátt, er engin þörf fyrir einkasöluheimild.