11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Fulltrúar meiri hl. fjhn. hafa gert grein fyrir því, hvers vegna þeir vilja ekki fallast á frv. þetta. Ég ætla hér að minnast á nokkur atriði, er fram komu í ræðu frsm. meiri hl., hv. þm. G.-K. Bar mikið á þeirri röksemd hjá honum, að flokkur hans væri á móti málinu, því að hann vildi ekki einkasölu í verzlunarmálum. Þetta kemur engum á óvart, og er sú skoðun kunn hér á Alþ. Hitt er vitað, að bæði Alþýðufl. og Framsóknarfl. telja, að oft geti verið hentugt að grípa til einkasölu á aðfluttum vörum, annarsvegar til að afla ríkissjóði tekna, en hinsvegar til að koma sölu á nauðsynjavörum í betra horf. Þessar tvær meginástæður liggja til grundvallar fyrir frv. En þó að það sé meginregla Sjálfstfl. að vera á móti einkasölu, þá er þó vitað, að hann hefir brotið gegn þeirri reglu, og má þar minna á einkasölu á tóbaki, sem lögfest var á Alþ. fyrir atbeina hv. 1. þm. Skagf. Alþýðufl. álítur reyndar, að hún hafi gefizt vel og orðið ríkinu góður tekjustofn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða hér um einkasölur almennt og skoðanamun Alþýðu- og Sjálfstfl. í því efni. Þó vil ég benda á, að sjálfstæðismenn rugla oft saman einkasölu og þjóðnýtingu verzlunar. En einkasala þarf alls ekki að vera þjóðnýting, heldur er hún aðeins oft handhæg tekjuöflunarleið.

Hv. þm. G.K. og líka hv. þm. V.-Ísf. færðu það fram sem eina ástæðu gegn frv., að það væri svo illa undirbúið, að ekkert sé enn vitað um það t. d., hvað þessi einkasala muni gefa af sér. Ég held, að það verði oftast örðugt að segja um það fyrirfram, hvaða hagnað einkasölur muni gefa fyrst í stað. Hér hafa t. d. verið afgreiddar úr hv. d. breyt. á stimpill., og verður ekki með vissu sagt, hvaða tekjur það muni gefa. Þó taldi meiri hl. d. rétt að lögfesta þetta. Yfirleitt er það svo um einkasölur, að þær geta ekki jafnmiklar tekjur fyrsta árið og seinna, og að ekki er unnt í upphafi að segja fyrir með vissu hvaða tekjur þær gefa áður en reynsla er fengin. Þessi röksemd þessara hv. þm. er því ekki veruleg ástæða til að leggjast á móti frv.

Um frv. er það að segja, að það fer fram á heimild til handa stj. um einkasölu á þremur vöruteg., bifreiðum, mótorvélum og rafmagnsáhöldum. Frv. gerir ráð fyrir, að stj. sé heimilt að taka undir þessi ákvæði eftir atvikum einn þessara flokka, alla flokkana eða jafnvel hluta af einum þeirra. Í grg. er bent á, að ekki sé enn nægilega athugað, hvort heppilegt muni vera að taka þegar alla flokkana, svo að réttara þykir að hafa þetta aðeins heimild. Þegar af þessari ástæðu er örðugt að áætla tekjurnar af þessari fyrirhuguðu einkasölu. Þeir, sem treysta núv. stj., í hverra tölu ég er, vilja una við, að nánari athugun fari fram af hennar hálfu, og þeir treysta því, að heimildin verði ekki notuð, nema rannsókn leiði í ljós, að það sé heppilegt.

Andmælendur þessa frv. hafa kallað það geigvænlegt gagnvart þeim, sem nú verzla með þessar vöruteg., að hafa þessa heimild yfir höfði sér. Ég geri ekki svo mikið úr því, þótt þeir verði að láta af sinni heildsölu. Og það vill nú svo til, að einkasöluheimild á rafmagnstækjum er áður þekkt. Í l. nr. 51 frá 3. nóv. 1915 var sveitarstjórnum, sem ætluðu að koma sér upp rafmagnsvélum, leyft að taka einkasölu á þeim rafmagnstækjum, er þær þurftu í sambandi við fyrirtækið. Samkv. samþykkt frá 1916 var sýslun. Vestmannaeyja veitt einkaheimild á rafmagnstækjum og lömpum. Var þessi einkasöluheimild margra kaupstaða og kauptúna, þ. á m. heimild Rvíkurbæjar til einkasölu á raftækjum, í gildi frá 1. jan. 1916 til 1. jan. 1924, eða þangað til vatnal. afnámu þessa heimild.

Hv. þm. G.-K. fannst það hart fyrir einstaka þegna þjóðfélagsins, að ríkið tæki að sér einkarekstur þeirra. Frá sjónarmiði okkar Alþýðufl.manna eru þetta ekki barðir kostir. Við aðhyllumst þá aðalstefnu, að hagur einstaklingsins verði að víkja fyrir heill heildarinnar. Þó að einstaklingur verði að láta af gróðamöguleika til hagsmuna fyrir heildina, þá eru það ekki þungar búsifjar í garð þessa einstaklings, heldur einungis réttlæti.

Hv. þm. sagði, að ýmsir yrðu með þessu sviptir atvinnu, og væri hart að leika þjóðfélagsþegna á þann hátt. En ég held, að hér verði ekki um mikla almenna atvinnuminnkun að ræða, þó að hún yrði að líkindum nokkur, með því að heildsalan yrði rekin á hagkvæmari hátt, svo að nokkur fólkssparnaður yrði að. En þetta yrði ekki mikið, og yrði líklega helzt um að ræða einhverja tilfærslu á atvinnunni. Myndu e. t. v. og að nokkru leyti aðrir menn starfa að þessum hlutum en áður gerðu það, hvað snertir heildsölustarfsmennina, en að öðru leyti má búast við, að sömu menn og áður vinni að störfunum. En tilfærsla á atvinnunni í landinu er hættulaus frá almennu sjónarmiði.

Mér skildist á hv. þm. G.-K., að með þessu frv. yrðu kaupstaðirnir sviptir tekjumöguleikum, sem sé þeim útsvörum, sem þeir hafa haft af þessari verzlun. En eftir frv. er ætlazt til, að bæjarsjóðum og sýslusjóðum sé bætt þetta upp með því, að þeir fái 30% af hagnaði einkasölunnar á þessum vöruteg.

Mér skildist á hv. þm. V.-Ísf., að hann teldi hæpið, hvort heppilegt myndi að taka upp einkasölu á mótorum. Frá almennu sjónarmiði held ég, að það væri heppilegt. Enn eru fluttar til landsins óhæfilega margar teg. af þessari vöru. Þegar ötulir kaupsýslumenn hafa umboð fyrir einhverja vöruteg., geta þeir komið henni út, þótt hún sé mun lakari en ýmsar aðrar. Þarf ekki alltaf mest selda varan að vera bezt. En hv. þm. V.-Ísf. minntist líka á það í þessu sambandi, að það gæti orðið óþægilegt fyrir ríkið, ef það verzlaði með mótora, því að smábátaútvegurinn væri þannig staddur, að stundum gæti orðið erfitt um greiðslu, og menn gerðu yfirleitt aðrar kröfur til ríkis en einstaklinga í þessum efnum. En þá mætti hafa þá leið, að ríkið hefði aðeins umboðssölu á þessari vöru, athugaði, hvaða teg. væru heppilegastar, og sæi svo um, að þær teg. yrðu fluttar til landsins. Það gæti að mínu áliti vel komið til mála, að ríkið tæki góðar og hagkvæmar tegundir af mótorum í umboðssölu. Þessa leið ætti stj. a. m. k. að rannsaka.

Ég skal að lokum benda á það, að minni hl. fjhn. telur, að á þessum tímum sé full þörf á fjáröflun fyrir ríkissjóðinn til þess að geta afgreitt hallalaus fjárl. og að standa í skilum við kröfuhafa ríkissjóðs og halda þó uppi sæmilegum framkvæmdum. Til alls þessa er brýn þörf á auknum tekjum, og það er álit okkar, sem að þessu frv. stöndum, að einkasölur eins og þessar eigi að gefa sæmilegan arð og um leið eigi að vera hægt að reka þær þannig, að viðskiptamennirnir beri ekki skarðan hlut frá borði, en ríkissjóður hafi þó drjúgar tekjur.

Þá er einnig nauðsynlegt að koma á betra skipulagi innflutnings á vélum í mótorbáta, og að þær einar teg. séu fluttar inn, sem heppilegar reynast fyrir bátaritgerðina, en að hætt verði að selja þær teg., sem gefast illa. Þessi tvö sjónarmið eru því vissulega gild rök fyrir því, að frv. er nauðsynlegt og réttmætt. Þó gróði nokkurra manna falli í ríkissjóð, er hann vissulega betur kominn þar en hjá fáum einstaklingum þjóðfélagsins.

Ég vil svo óska eftir, að frv. gangi fram, og ég treysti hæstv. ríkisstj. til þess að athuga vel, hversu mikil ástæða væri til að nota allar heimildirnar, sem í frv. felast, því vel gæti komið til mála að nota þær ekki allar að svo stöddu. En ég ber fullt traust til hæstv. stj. um, að hún hafi þar eingöngu alþjóðarhag fyrir augum.