11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (3833)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Ólafur Thors:

Hæstv. fjmrh. var að skýra frá því, að hæstv. atvmrh. væri hið mesta kappsmál, að frv. þetta næði fram að ganga, en honum er það nú ekki meira kappsmál en svo, að hann er farinn heim og sennilega háttaður í sitt mjúka rúm, en okkur er ætlað að sitja hér á næturfundi og ræða málið. Ég skal ekki mælast undan fundarsetu, en ég vil þá mælast til þess, að hæstv. forseti sýni ágæti sitt í fleiru en þolinmæði sinni að sitja í forsetastól. Þegar haldnir eru fundir nótt eftir nótt, óska ég, að röggsemi sé sýnd í því, að halda þm. hér á fundum, svo við stjórnarandstæðingar tölum ekki yfir tómum stólunum, en ráðh. og aðrir þm. úr stjórnarflokkunum séu löngu farnir heim að sofa. Ég hefi séð, að þm. úr stjórnarflokkunum hafa gengið hér hver á fætur öðrum upp að forsetastól og hvíslað í eyra forseta, og síðan horfið úr deildinni. Nú hefi ég ekki ástæðu til að kvarta um hlutdrægni hæstv. forseta eða væna hann um slíkt. En það er óneitanlega undarlegt, þegar þm. hverfa svona af fundum. Hæstv. fors. verður að játa það, að þó talað hafi verið nokkuð um málin á þessu þingi, af okkur sjálfstæðismönnum, hefir engu málþófi verið beitt. Þetta eru allt stórmál, sem við erum andvígir, og þetta eru engu stærri umræður en áður voru um smærri mál, er þessir flokkar voru í minni hl., er nú stjórna. En fundarhöld nótt eftir nótt, svo sem nú hefir verið, og með þeim hætti, að nær allt stjórnarliðið og allir ráðh. eru fjarverandi, er skrípaleikur, sem ekki eykur virðingu Alþingis.