12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (3843)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég þarf ekki miklu að svara í þessum umr. Í sjálfu sér hefir ekki verið fast deilt á þetta frv., og lítur út fyrir, að það muni fá tiltölulega friðsamlega afgr. hér í hv. d. Enda er það svo, að það hefir lengi vakað fyrir þeim, sem síldarútveg stunda, að reyna að koma á hann einhverju skipulagi, og það fyrir svo löngu, að 1926 mun þáv. þm. Ak., Björn Líndal, og hv. þm. G.-K. hafa flutt hér á þingi frv., sem fór í svipaða átt og þetta, þó ég verði að segja það, að í því frv. var ekki gert ráð fyrir eins mikilli sjálfstjórn útgerðarmanna á þessum málum og í þessu frv. Ég hirði ekki að fara langt út í þetta frv. frá 1926, en vil einungis geta þess, að eins og það kom til þingsins fyrst, þá þurfti ekki annað en að einhverjir þeir menn, sem árið áður höfðu stundað síldarútveg, vildu stofna fél. með sér til þess að sjá um hagkvæma sölu á síld erlendis; þá var ráðh. heimilt að veita slíku fél. einkaleyfi til útflutnings á síld. Í frv., eins og það kom fyrst fram, var ekki tiltekin nein lágmarkstala útgerðarmanna, sem yrðu að gangast fyrir félagsstofnuninni. Síðar var því svo bætt í frv. og talan bundin við 20 menn. Í því frv. var útgerðarmönnum ekki gefin sjálfstjórn eins og í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sem borið er fram af Alþýðu- og Framsóknarfl., heldur átti ráðh. að skipa fyrstu stj. þess fél. Ég get vitnað til þessara tveggja þm., Björns heit. Líndals, þáv. þm. Ak., og hv. þm. G.-K., sem brautryðjenda á því sviði að vilja skipuleggja síldarútveginn. Það hefir að vísu komið fram hér í umr., að skoðanir manna eru skiptar í þessu máli, og það hafa þær alltaf verið. En mótmæli hafa ekki komið fram gegn frv. frá öðrum en 8 síldarsaltendum á Siglufirði. Það er von, að þeir mótmæli, vegna þess, að með frv., ef að 1. verður, eru ráðin tekin af þeim og lögð í hendur útgerðarmanna, en hinir 8 mótmælendur frv. eru nær eingöngu síldarsaltendur, nema hvað einn heldur úti litlum mótorbáti yfir sumarið á síldveiðar. Ég geri því ráð fyrir því, að ganga megi út frá því, að yfirleitt séu síldarútgerðarmenn frv. þessu fylgjandi og þeim samtökum, sem það miðar að, þótt hinsvegar milliliðirnir í síldarverzluninni, saltendurnir, sem ekki hafa neina útgerð, séu því heldur mótfallnir.

Það liggur hér fyrir brtt. um skipun á þessari stj. frá hv. þm. Borgf., sem miðar að því, að taka einn fulltrúann af Norðlendingum og bæta við Sunnlendinga. Hv. þm. Borgf. skýrði réttilega frá því að skip héðan að sunnan hefðu verið 40, en frá Norðurlandi ekki nema 39. En hv. þm. gat þess ekki, sem mér finnst, að hann hefði átt að láta í ljós, að 6 af skipunum af Suðurlandi lögðu ekki upp síld til söltunar, heldur bræðslu. Það eru því fleiri skip af Norðurlandi, sem stunda veiðar til söltunar. Það er því réttara að láta Norðlendinga hafa þennan eina mann en Sunnlendinga. Ég held, að eins og frv. er frá hálfu ríkisstj., þá sé fyllsta réttlætis gætt, sem hægt er að gæta um kosningu manna í n., og mæli ég því á móti till. hv. þm. Borgf. — Það er hér till. frá hv. 6. landsk., sem ég vildi mælast til, að yrði samþ. Hún er um það, að skipaður verði fastur fulltrúi fyrir Austurland, og sé hann trúnaðarmaður síldarútvegsn. í einu og öllu, er að síldarútvegsmálum fjórðungsins lýtur. — Þá er hér till. frá mér á þskj. 743 um lækkun á hundraðshluta þeim, sem fél. þarf að hafa til þess að síldarútvegsn. geti ákveðið að veita því útflutningsleyfi, úr 80% í 75%. Er þetta gert til samræmis við þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. um fiskimálan., útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl. — Brtt. hv. þm. Vestm. sé ég ekki ástæðu til að mæla með. Þær eru í samræmi við till. þær, sem hann og hv. 1. þm. Rang. lögðu hér fram við frv. um fiskimálan., og sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þær, en vildi mælast til þess, að þær verði felldar, að undanskildum tölul. 3, sem er aðeins leiðrétting á ritvillu í frv.

Það kann að vera ótti hjá mönnum um skipulagningu síldarútvegsins, vegna þess, að það muni auka á söltun útlendinga fyrir utan landhelgislínu. En þótt þessar veiðar byrjuðu að vísu á árum einkasölunnar, þá hafa, síðan salan var gefin frjáls, bætzt a. m. k. 3 þjóðir í hópinn, Svíar, Þjóðverjar og Eistlendingar, svo að þessar veiðar standa ekki í neinu sambandi við skipulagningu á síldarsölunni. Nú skal ég viðurkenna, að skipulagningin ein er ekki trygging fyrir því, að útvegurinn geti borið sig í hvaða árferði sem er, en hún er trygging fyrir því, að meiri líkur séu til, að útvegurinn geti borið sig en ella. Og ég vildi leyfa mér að benda hv. dm. á þá skýrslu, sem ég fór með hér þegar málið var til 1. umr., um skipulagningu þá, sem Englendingar eru nú að gera á þessum málum hjá sér. Þeirra aðferð er talsvert margbrotnari en okkar, og útgerðarmönnum ekki gefin nein sjálfstjórn, heldur er svo til ætlazt, að síldarútvegsnefndin enska hafi einveldi í öllum málum, síldarútveginn snertandi. Ég hefi ekki viljað leggja til, að sú leið yrði farin hér, heldur yrði útvegsmönnum fyrst og fremst gefin sjálfstjórn í þessum málum, en ef þeir ekki vildu nota þann rétt, þá yrði n., sem kosin er af þeim sjálfum, að taka að sér að annast söluna. Vænti ég þó, að til þess þurfi ekki að koma. En þeir, sem óska þess, að útvegsmenn noti þennan rétt sinn, ættu ekki að óska eftir því, að þessi gr. yrði felld niður, því að meðan hún stendur, er hún þeim heldur hvöt í þá átt. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Þessi mál hafa mikið verið rædd fyrr og síðar. En ég vil leggja áherzlu á, að Alþ. gangi frá þessum málum á þann hátt, sem hér er lagt til í frv. því frá stj., sem meiri hl. sjútvn. flytur.