12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (3844)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Sigurður Kristjánsson:

Hv. flm. þessa máls var rétt að sleppa orðinn um það, að sér virtist þetta mál sjútvn. ætla að fá vingjarnlega afgr. í þessari hv. d. Ekki veit ég, af hverju hann dregur þetta. Ekki a. m. k. af ágæti málsins, og ekki heldur af þeim undirtektum, sem það hefir fengið í d., því að ræðumenn hafa heldur snúizt gegn frv. Ég skal auðvitað ekkert um það dæma fyrirfram, hvernig um það fer, en eftir öllum málavöxtum finnst mér ekki sennilegt, að afgreiðslan verði vingjarnleg.

Hv. þm. Ísaf. vildi gera lítið úr því, að hópur manna norðan af Siglufirði hefði sent rökstudd mótmæli gegn frv. Hvað sem því líður, hvort þessir menn eru saltendur eða veiðimenn, þá standa rökin, að mér skilst, í sínu fulla gildi. En þó vil ég á það benda í þessu sambandi, að hér eru menn á einum einasta stað, sem hafa flutt út um 66 þús. tunnur síldar, en það hinsvegar vitanlegt, að þetta frv. er ekki, undireins og það er fram komið, flogið til allra síldarútvegsmanna, dreifðra út um allt land, hafandi með sér lítil samtök nema á helztu útgerðarstöðunum. Það er því ekki sýnt, að ánægja sé um þetta frv. annarsstaðar, þótt mótmæli hafi ekki komið fram nema frá þessum eina stað. Ég vil ekki leggja eins lítið upp úr því og hv. þm., að mótmælin koma frá síldareigendum, sem keypt hafa síldina af sjómönnum og útgerðarmönnum, því að þessir eigendur hafa því aðeins komizt yfir síldina, að haganlegt hefir þótt að selja þeim hana, og þá eru þeir orðnir mikilsverðir aðilar í málinu, þegar þeir eru orðnir útflytjendur og hafa á sig tekið áhættu og erfiði af þeim mönnum, sem upphaflega öfluðu síldarinnar, af því að þeir hafa að einhverju leyti haft betri aðstöðu til þess að hagnýta aflann. En þótt svo sé lítið á, að þeir hafi þarna minna að segja en þeir, sem afla síldarinnar, þá standa þeirra rök gegn þessu frv. í fullu gildi. Þau eru léleg, ef þau reynast svo, en góð og gild, ef þau verða ekki hrakin, hverjir sem svo hafa borið þau fram. En nú eru það ekki einungis síldarsaltendurnir, sem hafa látið álit sitt í ljós um þetta mál. Það hafa komið fram margar raddir víðsvegar að frá útgerðar- og veiðimönnum, og þær hafa allar verið í eina átt: á móti þessu frv. Þau mótrök gegn frv., sem flestir bera fram og mér finnst eftirtektarverðust, eru þau, að síðan síldareinkasalan var lögð niður, hefir útveginum yfirleitt vegnað sæmilega og miklu betur en meðan einkasalan stóð. Þó hafa síðan verið erfið ár að ýmsu leyti, bæði hvað snertir verðfall varanna hjá þeim þjóðum, sem kaupa síld, minnkandi kaupgetu og mikla yfirfærsluörðugleika. En samt hafa síldareigendur náð betri árangri síðan einkasalan lagðist niður. Er nú mögulegt, að nokkur maður rökhugsi mál þannig, að það sé nauðsynlegt að koma á svipuðu eða sama fyrirkomulagi og gafst hörmulega illa, einmitt af því, að breyt. hefir gefizt sæmilega vel? Mönnum virðist, að til þess að hverfa að einkasölufyrirkomulaginu aftur eða nálgast það, þyrfti að hafa komið í ljós, að hin frjálsa sala og meðferð síldarinnar hefði reynzt illa. En það hefir ekki verið. Útkoman hefir orðið framar vonum. Það er réttilega á það bent af mörgum útgerðarmönnum og þeim öllum, sem síldar afla og síld eiga, að mikil hætta stafar af samkeppni útlendinga við veiðarnar á Íslandsmiðum. Í skjali sínu segja þessir síldareigendur frá Siglufirði, að 6 þjóðir stundi nú veiðar á þessum miðum og keppi við Íslendinga um veiði og markað. Nú er það víst, að hjá sumum þessara þjóða er allt, sem nálgast einkasölu og hvað þá hrein einkasala, afar óvinsælt. T. d. efast enginn um það, að hjá Svíum er einkasala ákaflega illa þokkuð, ekki sízt fyrir það, að einkasalan gamla hefir staðið í þrálátum málaferlum við Svíana út af sölusamningum, sem ágreiningur varð um. Hefir þetta aukið mjög á óvild þeirra í garð einkasölufyrirkomulagsins og alls, sem það nálgast. Og þeir menn, sem bera fram þau rök, að slíkar þjóðir myndu leggja meiri áherzlu á síldveiðar hér eftir en hingað til, hafa óneitanlega mikið til síns máls. Ef það er rétt, sem ég hefi ekki sjálfur kunnugleika á, en hefi hinsvegar ekki heyrt móti mælt, að þær þjóðir, aðrar en Íslendingar, muni ráða yfir um tvöföldum skipastól á við okkur til veiðanna, þá er það sýnt, að ef tíðarfar er hagstætt, geta þessir menn ráðið yfir því, hvort Íslendingar geta selt sína framleiðslu erlendis, og þá ekki síður, ef það er rétt, sem ég hefi heyrt, að Norðmenn geti aflað síldarinnar fyrir 2—3 kr. lægra verð pr. tunnu en Íslendingar geta.

Ég ætla ekki hér að fara út í miklar deilur með að rifja upp afdrif gömlu síldareinkasölunnar. Ég get þó ekki stillt mig um að láta í ljós, að ég tel það allmikla einurð, að geta fengið sig til að bera fram frv. um nýja einkasölu, meðan ekki er búið að jarða líkið af gömlu einkasölunni, svo geðþekk sem hún var, og það ekki einungis fyrir það, hvernig hún fór með ríkissjóð, heldur miklu frekar, miklu frekar fyrir það, hvernig hún lék þá menn, útgerðarmenn og sjómenn sem nálægt henni komu, og hvernig hún eyðilagði markaðinn. Og það er eftirtektarvert, að árið eftir að einkasalan lagðist niður, seldu Íslendingar allan afla sinn, að sönnu ekki við háu verði, en þó því verði, að sjómenn og útgerðarmenn fengu talsvert hærra verð fyrir síldina, eða um 5 kr. pr. tunnu, en meðan einkasalan sá um söluna, því að þá var verðið komið í 2 kr. pr. tn. og hjá sumum niður í ekki neitt. Og það er víst, að einkasalan brann inni með megnið af vörunum síðasta árið. Gat ekki selt. Það er þess vegna ómótmælanlegt, að hvorki reynslan af einkasölufyrirkomulaginu gamla eða það ástand, sem nú er, hvetur til þess að hverfa inn á þessa braut, af þeirri einföldu ástæðu, að núv. ástand gefur stórum betri arð, bæði þeim, sem afla síldarinnar, og þeim, sem leggja í þá áhættu að kaupa síldina til útflutnings. — Út í þetta efni vil ég ekki vera að fara miklu lengra, því að það á öllum að vera augljóst, hver munur þó er á ástandinu nú eða meðan einkasalan var, þrátt fyrir vaxandi örðugleika á mörgum sviðum. En ég vil víkja að því, sem minnzt var á matjessíldarsamlagið, sem fengið hefir lögvernd og talið er að vera vel liðið, og er álitið, að menn óski eftir því, að það haldi áfram, og taka það fram, að hér er um allt annað að ræða. Það er allt annað, að hafa samtök um útflutning á einni teg. síldar eða fara að spenna yfir allan útveginn. Og svo er það ekki heldur rétt, að ánægjan sé alveg óblandin með samlagið, eftir því sem mér skilst á umsögn ýmsra þeirra, sem þar hafa verið viðriðnir. Á því munu vera margir gallar. En vera má, að þeirra hafi gætt meira en þurft hefði vegna þess, að ekki hafi valizt þar til forustu hinir hæfustu menn. En staðreyndin er sú, að mönnum þykir salan á síldinni hafa gengið ójafnt yfir. Það aflaðist og var verkað miklu minna en áður hafði verið. Og einmitt þetta aflaleysi hefir að öllum líkindum bjargað því, að ekki hlauzt stór skellur af síldveiðinni þetta ár, þótt ekki sé raunar langt síðan allmikið var ómelt af þessari síld, og það er mér sagt, að sé einmitt síld hinna smærri og smæstu eigenda. Og það er illa farið, sérstaklega þegar þess er gætt, að þeir voru ekki í stj. fyrirtækisins. Ég segi þetta ekki af því, að ég telji það alveg útilokað, að slík samtök geti farið vel. Heldur ekki af því, að ég telji þetta fyrirkomulag frá síðasta sumri hafa gefizt sérstaklega illa, þótt gallar kunni að finnast á því: ég segi þetta bara til að mótmæla því, að menn hafi þar nokkra sönnun fyrir farsæld fyrirkomulagsins, þótt sloppið hafi hjá stórslysum með matjessíldarsöluna á seinastl. sumri, af því að það aflaðist miklu minna en almennt var gert ráð fyrir.

Hv. þdm. er orðið kunnugt, hvernig frv. þetta hljóðar, því að út í einstakar gr. þess hefir áður verið farið, og mun ég ekki fara mikið út í það. Ég vil þó ekki láta hjá líða að víkja að því, sem ég hefi áður minnzt á, þó ekki sé í umr. um þetta mál, að ég tel mjög varhugavert að skipa í stj. svona fyrirtækja menn, sem ekkert erindi eiga þangað. Og ég tel mjög óviðeigandi, að stj. sé valin eftir pólitískum línum. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að Alþýðusamband Ísl. skipi tvo menn í stj. þessarar fyrirhuguðu einkasölu, því að ég geri ráð fyrir því, að 11. gr. sé mergurinn málsins. En hvers vegna á Alþýðusamband Ísl. að skipa tvo menn í þessa n. frekar en aðrir pólitískir flokkar? Ráðh. á að tilnefna einn mann og útgerðarmenn um land allt fjóra, og er þá þörf á fleiri mönnum? Ég skal bæta einn atriði við það, sem ég hefi áður sagt, því til sönnunar, að Alþýðusambandið væri pólitískur flokkur. Fyrst og fremst er það sett sem skilyrði fyrir upptöku félaganna, að þeir undirgangist stefnu sósíalista, og þó að einhver kynni að villast inn í þenna félagsskap með öðrum pólitískum lit, er ekki heimilt að kjósa hann til þessara starfa, sem hér um ræðir. Það er skýrt tekið fram í l. sambandsins, að ekki má kjósa aðra í trúnaðarstöður þess en þá, sem eru af réttum pólitískum lit. Til þess að taka af öll tvímæli um þetta, skal ég lesa upp byrjun 14. gr. úr 1. Alþýðusambandsins. Hún hljóðar svo:

„Kjörgengi fulltrúa í fulltrúaráð, á fjórðungsþing sambandsþing og aðrar ráðstefnur innan sambandsins, svo og í opinberar trúnaðarstöður fyrir sambandsins eða flokksins hönd, er bundið við, að fulltrúinn sé Alþýðuflokksmaður og tilheyri engum öðrum stjórnmálaflokki.“

Ég sé ekki betur en hér sé tekið af skarið um það, að þeir menn, sem Alþýðusambandið kemur til með að skipa í síldarútvegsn., verði að vera Alþýðuflokksmenn og ekkert annað. Og eigi Alþýðufl. að fá tvo menn í þessa n., þá á Sjálfstæðisfl. að skipa þar fjóra menn, þar sem hann er helmingi stærri. Líklegt þætti mér, að Framsókn vildi þá telja sig sérstakan flokk, og heimtaði einn fulltrúa a. m. k., og gott ef litli bróðir, Bændafl., vildi ekki vera með líka. Og þá fer að verða nokkuð mannmargt í þessu síldarráði.

Ég vildi gjarnan heyra rök gegn því, að pólitísku flokkarnir ættu yfirleitt fulltrúa í þessari n., fyrst einum þeirra er ætlað það. Hér er um n. að ræða, sem á að fjalla um atvinnurekstur fjölda manna, alveg án tillits til þess, hverjum stjórnmálaflokki þeir fylgja. Og nú mun það vera svo, að varla nokkur maður úr þeim flokki, sem þarna er gefin sérstaða, hættir nokkru sinni nokkru fé í atvinnurekstur. Foringjar þess flokks eru menn, sem þekktir eru að því, að vilja taka allt sitt á þurru. Eigi að fara að skipa þessa n. eftir pólitískum línum, þá ætti Alþýðufl. sízt að koma þar til greina. Það lægi nær að skipa þá menn, sem hafa sýnt áræði, ábyrgðartilfinningu og vit til þess að stjórna stórum atvinnurekstri, en þá, sem alltaf vilja taka sitt á þurru landi. Ég á ekki við stritandi fólkið, óbreyttu liðsmennina í Alþýðufl., heldur ráðamenn þess flokks. Verkafólkið er ekki kvatt til annars en að greiða atkv., það fær ekki fínu stöðurnar og háu launin.

Ég hefi dregizt á það við hæstv. forseta, að lengja ekki mikið umr. að þessu sinni, og mun ég efna það, þótt sitt af hverju sé eftir, sem vert væri að minnast á. Að lokum vil ég láta þess getið, að ég hefi ekki heyrt neinn síldarútvegsmann mæla með því, að þessu fyrirkomulagi yrði komið á, nema forstjóra eins útgerðarfyrirtækis, hv. þm. Ísaf. Annars hefi ég engan útvegsmann heyrt halda því fram, að einkasölufyrirkomulaginu hafi farnazt svo vel, að með því sé mælandi. Ég hefi ekki heldur heyrt einn einasta mann halda því fram, að ástandið í þessum málum hafi versnað svo, síðan gamla einkasalan var lögð niður, að ástæða sé til þess að flytja upp á nýrri.

Hv. flm. virðist skorta öll rök fyrir flutningi frv. Og ég býst ekki við, að hægt verði að bæta það svo, að ég verði ánægður með það. Þó mun ég að sjálfsögðu fylgja öllum till., sem til bóta horfa, ef líkindi eru til, að þessi óskapnaður eiga fram að ganga.