12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2718 í B-deild Alþingistíðinda. (3846)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég var í vafa um það. hvort ég ætti að lengja umr. um þetta mál, því vitað er, að það muni fyrirætlun meiri hl. þessarar hv. d., að frv. nái fram að ganga, hvað sem sagt kann að verða. En samt er rétt, að hver þm. ræki þá skyldu sína, að segja það um hvert mál, sem hann veit sannast og réttast, um þetta mál sem önnur. Fyrir mér er það alveg tvímælalaust, ekki sízt hvað snertir verzlun með síld, að einkasala sé það háskalegasta, sem til bragðs getur orðið tekið. Þessi sannfæring mín hefir verið rík frá því fyrsta, að ég fór að hafa afskipti af þessum málum. Og hún hefir styrkzt ár frá ári við hverja þá tilraun, sem gerð hefir verið til þess að koma síldarsölunni inn á þá braut, og nú síðast við stofnun matjessíldarsamlagsins, sem stofnað var síðastl. sumar með lögvernd. Þótt ég játi, að mikill munur sé á að stofna til slíkra verzlunarhátta með frjálsum samtökum, eða löggjöf eins og þeirri, sem þar var um að ræða, er þetta þó engu að síður ákveðin einkasala. Mér finnst, að hv. þdm. hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir þróun þessa máls. Það er aðgætandi, að síldarútvegurinn er tiltölulega ungur atvinnuvegur hér á landi. Fram að síðustu aldamótum var síldveiði og hagnýting hér aðallega stunduð af útlendingum, og á allt annan hátt en nú er gert. Þá voru það aðallega Norðmenn, sem stunduðu veiðarnar og notuðu fyrirdráttarnót. Skömmu upp úr aldamótunum koma svo aðrir útlendingar til sögunnar með nýjar veiðiaðferðir, snurpinótina, og stunda veiðarnar á stórum gufuskipum. Þá var bara um það hugsað, að skófla sem mestu upp af síldinni og salta hana til útflutnings algerlega óvalda. Og fyrst þegar Íslendingar fara að stunda þessar veiðar, verður sama uppi á teningnum hjá þeim, ekki um annað hugsað en að afla sem mest og hrúga því á markaðinn. Ég held, að megi segja, að þetta hafi svo kúlmínerað árið 1920. Síldveiðin varð þá með allra mesta móti, og verðið féll niður úr öllu lagi. Upp frá því fer ástandið að breytast. Augu manna fóru að opnast fyrir því, hve mikils virði það væri, í sambandi við þennan atvinnurekstur, að vanda vöruna. Sem afleiðing af því má heita, að lagzt hafi niður að veiða síld til söltunar með togurum, því að vitanlega fæst aldrei góð verzlunarvara með því móti. En þrátt fyrir þessa breyt. vitna einokunarpostularnir alltaf í þau mistök, sem urðu á þessu byrjunarstigi atvinnurekstrarins í höndum okkar Íslendinga, en taka minna tillit til þess, í hvert horf þessi atvinnuvegur er kominn á síðustu árum. Þetta kemur ekki sízt af því, að einstaka útgerðarmenn af gamla skólanum hugsa ennþá mest um að ná undir sig sem allra mestu af saltsíld, tefla á tæpasta vaðið með það, hvernig varan reynist, í von um, að þeim takist að selja hana alla, og slíkir menn eru talsvert áhrifamiklir innan stéttarinnar og teljast til stærstu útgerðarmannanna. Í þessa menn er ávallt vitnað, þegar krafizt er nýrrar skipulagningar á þessum atvinnurekstri og sölu afurða hans. En menn verða að gera sér ljóst, hvert þetta stefnir. Það stefnir að því að vernda þá, sem reka veiðar og söltun svo, að þeir hirða ekkert um, hvernig varan reynist, á kostnað hinna, sem komið hafa auga á það, sem er þýðingarmest við þessa framleiðslu sem aðra: kröfuna um vöruvöndun. En það hygg ég, að sé sameiginleg skoðun allra, sem á annað borð vilja líta á þetta í réttu ljósi, að slíkt skipulag — nefnilega einkasala — verki á þann hátt, að vinna á móti vöruvöndun. Einstaklingarnir missa hvöt til þess að vanda sérstaklega sína framleiðslu með það fyrir augum, að fá fyrir hana gott verð — betra en aðrir. Það er verið að ala hér upp í mönnum þá skoðun, að það skipti ekki verulegu máli fyrir þá að vanda vöruna, því allt fari í sameiginlegan sjóð. Það er jafnvel sett í l. fyrir samsölu, að vara, sem reynist skemmd, skuli bætt af samlaginu, en ekki af hlutaðeiganda, eins og t. d. hjá matjessíldarsamlaginu, þó það væri með þeim fyrirvara, að skemmdirnar væru á þann hátt, að saltendunum væri ekki um að kenna. En það vita allir, að það er í mörgum tilfellum erfitt og jafnvel ókleift að skera úr um það, hverjum skemmdirnar eru að kenna. Er því verið að gefa þeim mönnum undir fótinn, sem tilhneigingu hafa til þess, að vanda ekki vöruna, og jafnframt að draga úr hvöt annara, sem láta vöru sína í samsölu, að vanda þá heldur sinn hluta. Ef þeir þyrftu að borga allar skemmdir úr sínum vasa, mundi þetta horfa öðruvísi við. Þetta er alvarlega hættulegt fyrir allar einkasölur, og þó einkum síldarsölu, því síldin útheimtir meiri vandvirkni í allri meðferð og meiri samvizkusemi en sambærilegt sé við aðrar vörur. Það er hinsvegar svo, eins og ég benti á við 2. umr., að ástandið um sölu síldarinnar hefir breytzt svo á fáum árum, að ekki er sambærilegt við aðra framleiðslustarfsemi landsmanna; þar sem markaður fyrir aðrar vörur hefir stöðugt farið minnkandi, er því ómótmælt, sem ég sagði við 2. umr., að sölumöguleikar fyrir síld og síldarafurðir fara sívaxandi, bæði fyrir síld til vinnslu í verksmiðjum og saltsíld til matar. Báðir þessir möguleikar fara vaxandi, verksmiðjum fjölgar og fleiri og fleiri lönd opnast fyrir ísl. síld, og sölumöguleikarnir fyrir saltsíldina aukast. Þessu geri ég ekki ráð fyrir, að nokkur þm. reyni að mótmæla.

Í ræðu minni við 2. umr. þessa máls, benti ég á, að sú breyt., sem er að verða á verkun og sölumöguleikum fyrir ísl. síld, hefir aðallega orðið síðan gamla síldareinkasalan lagðist niður. Þetta hélt ég, að væri viðurkennt af öllum, enda hefir því ekki beinlínis verið mótmælt. Hinsvegar reyndi hv. frsm. meiri hl. að eigna gömlu síldareinkasölunni þetta, því sá maður, sem opnaði matjessíldarmarkaðinn, hefði verið á hennar vegum. (FJ: Hann var starfsmaður hennar í 2 ár). Það er rétt, að þessi maður, Magnús Andrésson, var hjá síldareinkasölunni. Kom hann sér einmitt í samband við hana af því hann hafði ekki önnur ráð en vera á vegum einkasölunnar, þegar hún hafði alla síldarverzlunina í sínum höndum. En hann starfaði alveg sjálfstætt að því að kenna verkun síldarinnar og koma henni á markaðinn. Það er því sannast að segja hálflítilmótlegt fyrir þá menn, sem halda með síldareinkasölunni, að seilast svo langt, að eigna þessu fyrirkomulagi verk þessa manns, sem allur landslýður veit, að vann það verk að öllu leyti að eigin frumkvæði. Það verk er því honum að þakka, en ekki síldareinkasölunni. Þess vegna stendur það óhrakið, sem ég sagði við 1. umr., að stærsti megingalli þessa fyrirkomulags væri minna frumkvæði að nýbreytni í verkunaraðferðum og vinnuframtaki um nýja markaði, þegar einstaklingurinn dregur sig til baka, en allar framkvæmdir og fyrirhöfn eru hinsvegar komin undir opinber yfirráð.

Á þeim árum, sem síldareinkasalan starfaði, veit ég ekki til þess, að nokkuð væri gert til þess að hefja verkun á síld með nýjum hætti, eða afla markaða, sem hald væri í. Nú þrengist árlega um þann markað, sem var þegar gamla síldareinkasalan byrjaði. Til Svíþjóðar fer salan sífellt minnkandi ár frá ári, og í Eystrasaltslöndunum hefir alveg tekið fyrir hana og salan lagzt niður.

Já, ég vildi ekki láta þessa umr. líða svo hjá, að ég vekti ekki athygli hv. þdm. á því, hvaða áhrif það hefði, alveg sérstaklega á vöruvöndunina, ef það á að leggja verkunina á síldinni undir einkasölu. Ég vænti, að hv. þm. taki þessar upplýsingar til greina við atkvgr. um málið.