20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. sagði, að ég gerði mér mikið far um að koma mönnum í skilning um það, að í þessum undirskriftum fælist engin heimild til fjárveitingar fyrir stj. Nú veit hann, að það þarf fjárlagaákvæði til þess að stj. hafi heimild til að greiða fé úr ríkissjóði, og það viðurkenndi hann, að ákvæði l. frá 1933 væri ekki næg heimild fyrir stj., fyrr en búið væri að gera upp við Flóabúið. Ég þarf ekki að ræða þetta frekar. Ef til vill er hann að reyna að læða inn þeirri hugsun, að stj. þurfi ekki að hugsa um að fá samþykki Alþingis til fjárgreiðslu úr ríkissjóði og þurfi ekki annað en yfirlýsingu flokksmanna sinna um það, hvað eigi að greiða, en með því er hann að ganga á snið við þann rétt, sem Alþingi er fenginn í hendur, yfirráð yfir fjármálum landsins.

Þá vill hann halda því fram, að ég sé með þessari brtt. að reyna að breiða yfir það, að fyrrv. ráðh. hafi ekki gegnt skyldu sinni um þessa greiðslu, eftir að hann hafi fengið undirskriftir frá þm. Ég vil segja, að ef hann ætlar að kasta steini að fyrrv. stj. fyrir vanrækslu í þessu efni, þá ræðst hann þar með á sjálfan sig líka, því að það munu vera áhöld um það, hvað hann er búinn að vera lengi í stj. og hvað fyrrv. stj. sat lengi eftir að hún hafði fengið þessa yfirlýsingu í hendur, því að það er fyrst eftir að það er vitað, að málið var borið fram á þingi og þm. úr hans flokki knýja á um að fá svar, að hann gefur að lokum það svar, að hann ætli að greiða þessa upphæð og byggja á þeirri heimild, sem þetta áskriftarskjal hafi gefið honum.

Nú er það svo, eða a. m. k. líta hv. þm. svo á, að slík áskorun gildi ekki sem heimild fyrir stj., því að á þessu þingi er verið að koma með slíka till., þar sem þm. standa á bak við, og ég veit ekki einu sinni, hvort þessir þm. ætla að standa við þessa undirskrift sína, og ef þeir telja sig ekki skylda til að standa við þessar undirskriftir, hvað verður þá um þessa áskorun og greiðsluskyldur samkv. henni?

Mér þykir vænt um, ef þessi till. hefir orðið til þess, að stj. ætlar að láta þessar greiðslur fara fram, og það þó að hún vilji gera það án heimildar. Það er atriði, sem ég ætla ekki að láta mig miklu máli skipta, en ég tel réttara, að stj. hafi heimild, en ef hún vill heldur gera það heimildarlaust, þá hún um það.

Þá sagði hann, að þetta undirskriftarskjal hefði verið afhent fyrrv. ráðh., en sannleikurinn er sá, að það var aldrei afhent fyrrv. stj., og þegar hv. 1. þm. Árn. talaði um þetta við stj., þá vissi hann það, að stj. taldi sig ekki hafa fullnægjandi heimild. Þetta er því annaðhvort á móti betri vitund, eða — (Forsrh.: Er þetta ekki móti betri vitund?). Nei, þetta er heilagur sannleikur. Hæstv. fyrrv. ráðh. taldi sig ekki hafa nægilega heimild til að greiða þetta fé, og það er því annaðhvort fyrir hæstv. núv. ráðh. að taka við þessari heimild, eða greiða féð án heimildar. Hann kemst ekki hjá að greiða þetta fé, og þá er mínum tilgangi náð, svo að ég get verið ánægður.