19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (3858)

161. mál, síldarútvegsnefnd

3858Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi ekki getað skrifað undir þessar till. frá hv. meiri hl. sjútvn., vegna þess, að í aðalatriðum er ég andstæður þessu frv. og tel, að allt aðra skipun þurfi á þessum málum en þar er farið fram á. Það er nokkuð öðru máli að gegna með síldarútveginn en sölu á fiski, því að markaðsmöguleikar fyrir síld eru margir. Hún er borðuð víðast hvar í Mið-Evrópu og talsvert í Ameríku, einkum af Skandinövum, Pólverjum og Þjóðverjum. Markaðsmöguleikar eru því miklu rýmri fyrir síld heldur en saltfisk. Af því leiðir, að ég tel ekki rétt að binda mjög sölu á síld, sízt með l. eins og hér er stefnt að, því að það mundi draga úr hvöt manna til að leita nýrra markaða, svo sem nauðsynlegt er til eflingar síldarútveginum. Menn vita, að eftir að síldareinkasalan var lögð niður hafa einstakir menn farið að vinna að því að, verka matjessíld, og það hefir borið þann árangur, að helmingur síldarútflutningsins síðasta ár var fluttur á matjessíldarmarkað í Póllandi og Þýzkalandi. Einnig er á það að líta, að útgerðarmenn og síldarútflytjendur, sem staðið hafa að freklega helmingi þeirrar síldar, sem útflutt var á þessu ári, hafa sent Alþ. mótmæli gegn þessu frv., en hinsvegar telja þeir rétt að setja 1. um matjessíldarsamlag á svipuðum grundvelli og síðasta ár og með tilstyrk þeirra bráðabirgðal., sem þá voru gefin út. En þeir eru alveg andstæðir því, að önnur síld en matjessíld sé tekin undir þessi l. Mér hefir verið tjáð, að ef að því væri horfið að setja alla síld undir þetta skipulag og hefta aðra sölu, gæti verið hætta á því, að við það stöðvaðist atvinna ýmissa smærri útgerðarmanna, einkum þar sem svo stendur á, að bankarnir eru ófúsir á að lána útgerðarmönnum fé til að kaupa tunnur og salt, en hinir smærri útgerðarmenn hafa ekki fjármagn til þeirra kaupa og verða því að fá lán annarsstaðar frá til þess að geta gert út. Það er ýmislegt annað í framþróun þessa atvinnuvegar, sem þeir telja, að frv. mundi hefta, ef það yrði að 1., og því leggja þeir eindregið til, að þetta frv. verði ekki samþ. Það verður líka nokkur vandhæfni á því að þurfa að ákveða í byrjun vertíðar, hvernig síldin skuli verkuð.

Það getur vel farið svo, að á þennan hátt verði of mikið verkað fyrir einn markað, en of lítið fyrir annan. Á þessu ári var t. d. verkað of mikið af matjessíld, þannig að nokkur hluti af þeirri síld, sem þannig er verkuð, er annaðhvort óseljanlegur, eða þá að samningum um þessa síld hefir verið riftað. Hinsvegar hefir verið. eftir því sem mér hefir verið skýrt frá, hægt að selja meira af saltsíld, sérstaklega til Svíþjóðar.

Brtt. hv. meiri hl. sjútvn. snerta ekki grundvöll frv. Það snertir ekki þann grundvöll, að skip. n. með kosningu í Sþ. að nokkru leyti, og fækka mönnum í n. Hinsvegar álít ég miklu skynsamlegra að hafa 5 manna stj.; e. t. v. væri hægt að komast af með 3 menn í þessu tilfelli, en ég tel tæplega til bóta, að þingið eigi að kjósa þessa menn eftir pólitískum flokkum, í stað þess, sem frv. gerir ráð fyrir, að síldarútflytjendur ráði nefndarskipuninni.

Jafnvel þótt svo sé, að oftar verði skaði að fyrirframsölu á síld, er útgerðin samt þannig stödd, og hefir alltaf verið, að án þess er ekki hægt fyrir marga fátæka útvegsmenn að gera sín skip út. Ég hygg einnig, að það fyrirkomulag haldist áfram, að bankarnir vilji ekki lána fé til kaupa á tunnum og salti til útgerðarinnar, en án þess að fá það fyrirfram í byrjun vertíðar, er ómögulegt fyrir þessa menn að gera út. Ég verð því að leggja til, að þetta frv. verði fellt. Hinsvegar hefði ég viljað taka upp allt aðra skipun þessara mála, en það er engin von um, að brtt. í þá átt næði samþykki hér í hv. d., því að það var svo áliðið þingtímans, þegar frv. þetta kom frá hv. Nd. Því er engin von um, að slík till. næði fram að ganga, jafnvel þótt meiri hl. fengist fyrir samþ. hennar hér í d., en þar að auki er það svo, að þessi mál eru þannig selt fram, að svo virðist sem stjórnarflokkarnir vilji í engu raska grundvelli frv. Af þessum ástæðum einnig er ólíklegt, að það bæri nokkurn árangur að bera fram brtt. í þessu efni.