21.12.1934
Neðri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. er það eflaust kunnugt, að það hafa borizt kröfur um það frá mjög mörgum síldarútvegsmönnum og síldareigendum, að frv. það um síldarútvegsn. o. fl., sem hér liggur fyrir, verði ekki samþ. af þinginu. Ég ætla, að það hafi verið nokkuð hátt á sjöunda tug útvegsmanna, sem sendu Alþ. kröfu um þetta frá Siglufirði. Því hefir nú raunar verið haldið fram, að þetta séu aðallega saltendur síldar, miklu meira en útgerðarmenn, en mér virðist, að þeim komi líka þetta mál allmikið við. Því að vitað er það, að þeir, sem kunna að hafa selt þeim síld, hafa gert það, af því að þeir hafa séð sér hag í að gera þá að milliliðum. Þeir eru þá orðnir eigendur síldar, og það kemur þeim þá sannarlega mest við, hvort gripið er fram í fyrir þeim. En ef nú ekki er heimilt að selja slíkum mönnum síld, þá er sennilegt, að það yrðu útgerðarmennirnir sjálfir, sem stæðu í þeirra sporum, svo að einu gildir í raun og veru, hvort þeir eru allir útgerðarmenn eða ekki. Nýlega hafa borizt mótmæli frá mönnum við Eyjafjörð, sem hafa ráð yfir að mig minnir 120 þús. tunnum af síld. Þeir mótmæla því harðlega, að þetta frv. verði að l.

Það væri nú nokkuð einkennilegt, ef þeir menn, sem sitja á þessari háu samkomu, hafa yfirleitt meira vit á því heldur en síldarútgerðarmenn og síldareigendur sjálfir, hvert væri heppilegast fyrirkomulag á sölu síldarinnar, og það væri mjög einkennilegt, ef hér væri svo mönnum skipað, að þeir þættust upp úr því vaxnir, að taka nokkurt tillit til umsagnar og raka þeirra manna, sem langmesta aðstöðu og bezta hafa til þess að hafa þekkingu á þessum málum, og þar að auki hafa fyrir sína hönd og fjölda manna, sem hjá þeim vinna, fyrir miklum hagsmunum að sjá, hagsmunum, sem oftast, ef ekki ætíð, munn fara saman við hagsmuni þjóðfélagsins.

Að þessu alveg slepptu, sem ég tel þó vera stórkostlega þýðingarmikið atriði í þessu máli, þá ættu menn ekki að vera svo gleymnir, að þeir væru algerlega búnir að missa sjónir á því ástandi, sem skapaðist hér undir einkasölufyrirkomulaginu gamla. Nú þykist ég vita það, að því verði svarað af einhverjum, að hér sé ekki farið fram á eingöngu einkasölu, heldur sé hún ætluð sem þrautalending. En það þýðir nú ekki mikið að vera að reyna að blekkja sjálfan sig, og ekki heldur aðra. Það er nokkurn veginn ljóst, að með þessu frv. er stefnt að einkasölu aftur. Það mál er nú svo leiðinlegt og margrætt, afdrif gömlu einkasölunnar, að ég ætla ekki að fara út í það á ný. Ég gerði það nokkuð við 2. umr. málsins hér í d., og það gerðu raunar fleiri, en annars eru þessi mál sjálfsagt öllum í fersku minni. En hitt er annað mál, að hér á Alþ. kunna að vera menn, sem láta sér það vel líka, að í sama horfið sæki. En ég lít svo á, að þær raddir, sem komið hafa frá fjölmennustu síldarverum á Norðurlandi, séu einmitt sprottnar af því, að þar er fólkinu í fersku minni, hvaða óhamingja gamla síldareinkasalan leiddi yfir almenning, ekki aðeins síldareigendur, heldur líka þá menn flesta, sem unnu að síldinni á sjónum. Og það er skylt að taka tillit til þess.

Það hefir verið vitnað hér í það, að félagsskapur hafi verið um léttsaltaða síld í sumar, matjessíld, og að hún hafi verið í höndum fárra manna og þeirra sala á henni hefir verið lögvernduð. Þetta er náttúrlega rétt, að það fékk fél. manna lögvernd fyrir því, að vera einkaútflytjandi að þessari síld. Og það er einnig rétt, að þessum útflutningi hefir farnazt vel, a. m. k. samanborið við gömlu síldareinkasöluna. En þó voru þessi samtök ekki gallalaus. Verðið var nokkuð hátt á þessari síld, en það er ekki rétt að láta blekkjast af því verði, því að í fyrrasumar var ekki saltað af þessari síld nema eitthvað um 67 þús. tunnur, en árið áður voru saltaðar 120 þús. tunnur. Nú getur hver maður sagt sér það sjálfur, að það eru a. m. k. sáralitlar líkur fyrir því, að þessi síld hefði selzt við jafngóðu verði, ef saltað hefði verið allt að því tvöfalt á við það, sem kom á markaðinn frá Íslandi. Og af því að hér er nú kominn í d. aftur hv. flm. þessa máls, og sá maður, sem líka var í stj. þessa síldarsamlags, sem ég hefi verið að minnast á, þá vil ég nú þegar taka það fram, að mér er tjáð, að salan á þessari síld hafi gengið mjög misjafnt yfir síldareigendur, og m. a. s., að stærstu síldareigendurnir hafi klemmt það í gegn, að þeir yrðu í stj. síldarsamlagsins, með hótunum um að kljúfa félagsskapinn að öðrum kosti, en að þeir hafi síðan ekki verið mjög hörundsárir um að ýta fram sínum hagsmunum og nota til þess þá aðstöðu, sem þeir höfðu hlotið með því að lenda í stj. þessa félagsskapar. Það er ekki langt síðan það voru óseldar af þessari síld að ég ætla 12 til 15 þús. tunnur. Nú upplýsti hv. þm. Ísaf. það í dag, að óseldar mundu vera ennþá um 5 þús. tunnur. En það mun hafa verið svo, að smærri síldareigendur sátu lengst með sína síld óselda og sitja sjálfsagt með eitthvað af henni ennþá óselt, en þeir stærstu fengu alla sína síld afsetta með því allra fyrsta, eða allra fyrst.

Ég hygg nú samt, að almennt mundu menn kjósa, að um þessa síld væri svipaður félagsskapur framvegis, en að einhverjar skorður yrðu settar við því, að salan gengi ójafnt yfir, því að þó að þetta hafi orðið til nokkurs baga fyrir smærri eigendur þessarar síldar nú í ár, þá segir það sig sjálft, að að því hefði orðið miklu meiri bagi, ef svo mikið hefði verið aflað og svo mikið verkað á þennan hátt, að erfitt hefði orðið um sölu á e. t. v. allmiklum hluta af síldinni. Því að þó að í þetta síldarfél. sé vitnað, þá álít ég ekki, að meðferð á málefnum þessa félagsskapar og sú síldarsala, sem það hafði með höndum, hafi verið svo ákjósanleg, að það sé í raun og veru hægt að kalla þennan félagsskap til vitnis um ágæti síldarfélagsskapar um alla síld, með svipuðu fyrirkomulagi, og því siður er hægt að kalla hann til vitnis um ágæti algerðrar ríkiseinokunar á henni.

Það er ekki nema eðlilegt, að síldareigendur og útgerðarmenn séu hræddir við að stefna að svipuðu eða sama ástandi og var hér á árunum 1929—1931. Það er ekkert undarlegt, þegar menn athuga það, að jafnvel í ekki miklu síldarári brunnu síldareigendur inni með megnið af aflanum, og hann varð verðlítill eða verðlaus. Það er því ekki undarlegt, þó að mönnum hrjósi hugur við að leggja út í það sama. En auk þess virðast skilyrðin vera ennþá verri nú en þau þá voru. Það er vitað, að viðskiptamönnum okkar, sem hafa verið stærstir í Svíþjóð, er ákaflega illa við einkasölu. Og það bætir ekki úr skák, að fram til þessa dags hefir gamla síldareinkasalan verið í málaferlum við sænska síldarkaupmenn, og af því hefir skapazt alveg sérstök ótrú frá þeirra hálfu á slíku fyrirkomulagi, ef þá ekki beinlínis óvild. En það er ekkert álitlegt að hefja slíkt fyrirkomulag, vitandi það, að stærstu viðskiptamenn okkar líta það jafnóhýru auga eins og stærstu viðskiptamenn okkar hvað þessa framleiðslu snertir, a. m. k. sumir, hljóta að líta nýja síldareinkasölu, ekki aðeins vegna mistaka um verkun síldarinnar og efndir á samningum, heldur líka vegna þeirra málaferla, sem yfir hafa staðið og yfir standa ennþá, milli síldareinkasölunnar og kaupenda síldarinnar.

Ég skal þá víkja að því, hvað bíður þeirra manna, sem síldar afla eða kaupa, ef ný þvingunarl. verða sett um þennan atvinnurekstur. Það er öllum vitanlegt, að lánsstofnanir hafa yfirleitt ekki talið síld veðhæfa, og að erfitt hefir verið að fá lán út á síld, og það þó hún sé verkuð. Þeir, sem fengið hafa lán til öflunar og verkunar síldar, hafa yfirleitt verið menn, sem komið hafa sér í mjúkinn hjá bönkunum á annan hátt. Það hefir því verið fangaráð félítilla manna, sem fengizt hafa við þennan rekstur, að fá lán hjá einstaklingum, oft erlendis, til kaupa á efninu til útgerðarinnar, tunnum, salti, o. s. frv. Með þessu móti hafa þeir getað haldið rekstri sínum áfram. Sýnilegt er, að þetta mundi hverfa úr sögunni við lögfestingu þessa fyrirhugaða skipulags, mönnunum yrði meinað að afla sér lána erlendis og ekki heldur gefinn kostur á innlendum lánum. Og þar með eru þeir úr sögunni. Það gæti verið heppilegt fyrir þá, sem geta vaðið í bankana, þeir gætu þá ginið yfir öllum atvinnurekstrinum, og svo yrði einkasalan kaupandi að megninu af síldinni, að öðrum kosti yrði útgerðin að leggjast niður. Það var svo með gömlu síldareinkasöluna, að hún lagði útgerðarmönnum til tunnur og salt, en ég sé ekki, að til þess sé ætlazt með fyrirhugaða einkasölu. Þá færi eins og ég hefi sagt, að einkasalan neyðist til þess að vera bara kaupandi að síldinni. Ég minntist á það við 2. umr., að mér þætti undarlegur áhugi manna á því, að koma sama fyrirkomulagi á síldarmálin og var hér á árunum 1928—1931. Enginn mælir á móti því, að þeirri stofnun, sem þá réð í þessum málum, hafi farnazt ákaflega illa. Mér finnst því nokkuð frekt að fitja nú upp á því sama, meðan ekki er fyllilega búið að hylja hræið af gömlu einkasölunni. Þó gæti mönnum sýnzt út í þetta leggjandi, ef ásigkomulag atvinnurekstrarins væri svo bágborið, að það gæti ekki verra orðið, og menn álitu einkasölu það skárra af tvennu illu. En nú er fjarri því, að svo sé. Ekki er hægt að mæla á móti því, að síðan síldareinkasalan lagðist niður, hefir útveginum farnazt mun betur, og öllum þeim, sem að honum vinna, hvort sem er á sjó eða landi, hefir vegnað betur, allir hafa þeir borið úr býtum þó nokkurn arð fyrir vinnu sína. Allir munu vera ánægðari með afkomu útvegsins síðastl. ár en á þeim árum, sem einkasalan var við lýði. Og ég vildi gjarnan heyra einhver rök fyrir því, að það væru hagsbætur einhverjum aðilanum, að breytt væri aftur um fyrirkomulag. Ég óska eftir þessum rökum m. a. til þess, að ég þurfi ekki að halda, að hv. flm. gangi illt eitt til með þessari uppástungu.

Það var ekki ætlun mín að rifja neitt upp af óhöppum gömlu síldareinkasölunnar nú, en ég vil þó minnast á atriði, sem gæti skýrt fyrir mönnum, hvílíkt óhagræði útgerðarmönnum og öðrum, sem við þenna útveg fást, er að einkasölu. Eitt af hlutverkum gömlu síldareinkasölunnar var að úthluta veiði- og verkunarleyfum, og það yrði enn lagt í hendur einkasölu, yrði hún stofnuð á ný. Þetta fór svo, að smærri skipin fengu ekki verkunarleyfi nema fyrir um helming þess, sem þau gátu aflað. Og einmitt þessi smærri skip hafa enga aðstæðu til að selja síldina öðruvísi en til verkunar, nema þá eitthvað lítilsháttar í beitu. Með því að gefa þeim ekki leyfi til að verka nema helming þess, sem þau gætu aflað, er loku skotið fyrir það, að útgerð þeirra beri sig. Öðru máli er að gegna um stærri skipin. Þau geta tekið í sig stóra farma og selt þá í bræðslu. Ekki sízt út af þessu atriði liggur kvíði í flestum, sem við síldarútveg fást, fyrir því að lenda aftur í þessu sama stríði um verkunarleyfin. Og það eru ekki bara útgerðarmennirnir, sem bera áhyggjurnar, heldur líka allur sá fjöldi fólks, sem vinnur við síldina á sjó og landi og yrði atvinnulaus, ef útgerðarmenn sjá sér ekki fært að gera út. Ég veit, að það er ekki létt verk að úthluta þessum leyfum, og ég segi ekki, að gamla síldareinkasalan hafi leikið vissa menn illa af ásettu ráði, en útkoman verður herfileg. Ég hefi ekki heyrt því haldið fram hér í umr., að aðstaða síldarsaltenda og útgerðarmanna hafi verið betri, síðan einkasalan var lögð niður. Menn kynnu að halda, að útkoman þessi síðari ár væri betri, af því að aðstaðan hefði batnað. En það er síður en svo. Árið eftir að einkasalan lagðist niður, var miklu meira aflaár en síðustu ár einkasölunnar. En þrátt fyrir erfiðari aðstæður til sölu á síld, þá tókst að koma henni allri út, en einkasalan brann inni með megnið af sinni síld. Einkasalan hafði síður en svo bætt fyrir þeim, sem á eftir komu, heldur velti hún mörgum steini í götu útgerðarmanna. Hún hafði komið inn ótrú og óvild kaupenda á vörunni og viðskiptum við Íslendinga. En nú hefir tekizt að vinna traust kaupendanna aftur undir frjálsu skipulagi á meðferð og sölu síldarinnar. Það hefir áunnizt á ekki lengri tíma.

Annars er ég á þeirri skoðun, að þýðingarlaust sé að ræða þetta mál mikið, og að rök hafi lítið að segja, en þó hefi ég talið mér skylt að segja þessi aðvörunarorð. Og ég vil leggja þunga áherzlu á það, hvílíkur ábyrgðarhluti það er fyrir löggjafarvaldið að grípa svona inn í þennan atvinnurekstur, þar sem að baki er tvennskonar ástand, einkasalan, með öllum þeim vandræðum, sem af henni leiddu, og tímabil frjálsu sölunnar síðan, þegar atvinnureksturinn hefir gengið miklu betur. Nú virðist það sjálfsagt, að menn fái að búa áfram við það fyrirkomulag, sem betur hefir gefizt, en verði ekki neyddir að hverfa til þess, sem þeir hafa enga aðra reynslu af en illa. Verði þetta gert, hlýtur eitthvað annað að liggja á bak við en umhyggja fyrir þessum mönnum og afkoma atvinnuvegarins. Formælendur frv. hafa ekki látið þann tilgang í ljós, en mér leikur sterkur grunur á því, að þar sé um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi ofstæki þeirra, sem knýr þá til þess að koma hér á ríkisrekstri, kommúnistafyrirkomulagi á sem flestum sviðum, og í öðru lagi eiginhagsmunavon, svo sterk, að hún láti sig það engu skipta, þó að sníða verði utan af almenningshagsmunum til að fullnægja henni. Hvorugt þetta er frambærileg ástæða til þess að knýja nú mál þetta í gegn. Ég krefst annarra, frambærilegra raka, og komi þau ekki fram, þá mótmæli ég í nafni allra þeirra, sem sent hafa Alþ. andmæli gegn frv., að það verði gert að l. Og það eru menn, sem eiga fyllstu kröfu til þess, að álit þeirra sé tekið hér til greina.