21.12.1934
Neðri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Guðbrandur Ísberg:

Í sambandi við það frv., sem fyrir liggur, vil ég leyfa mér að benda á örfá atriði, og þá fyrst það, að um sölu síldar gegnir í verulegum atriðum allt öðru máli en um sölu saltfiskjar. Síldarútvegurinn byggist á tveim höfuðþáttum, veiði og sölu. Stundum fer þetta saman, en oft eru þessir þættir aðgreindir með öllu. Og hagsmunir þeirra manna, sem reka þessar tvær greinar síldarútvegsins, rekast oft á allóþyrmilega. Af þessu stafar það, að síldarútvegsmenn eiga erfiðara með að koma sér saman um hagsmunamál sin en flestir aðrir atvinnurekendur. Síldarútvegsmenn, veiðendur og saltendur, viðurkenna þetta fúslega sjálfir. En þrátt fyrir þessa erfiðleika á almennu samkomulagi, eða öllu heldur vegna þessa ósamkomulags, mun þó mega fullyrða, að yfirgnæfandi meiri hl. þessara manna sé þó fylgjandi nokkrum afskiptum löggjafans af málum þeirra, a. m. k. svipuðum afskiptum og þeim, sem fólust í bráðabirgðal. um þetta efni frá síðasta sumri. Og það verður ekki komizt hjá að játa, að allmargir síldarútvegsmenn, veiðendur a. m. k., eru því fylgjandi, að löggjafarákvæðin nái ekki aðeins til matjessíldar, heldur og til allrar saltsíldar.

En það er þó eitt, sem nálega allir, eða allir síldarútvegsmenn eru sammála um, og það er, að einkasala á síld sé ekki aðeins óæskileg, heldur muni hún beinlínis verða stórkostlega skaðleg fyrir síldarútveginn. Samkv. þessu hefði verið eðlilegt, að ég hefði a. m. k. borið fram brtt. þess efnis, að einkasöluákvæðið yrði fellt niður. Að ég geri það ekki, stafar af því, að mér, eins og öllum hv. þm., er kunnugt um, að frv. á fram að ganga óbreytt, og brtt. mundu því aðeins verða til þess að tefja málið, án þess að hindra framgang þess. Vegna einkasöluákvæðisins get ég með engu móti greitt atkv. með frv. En í trausti þess, að einkasúluákvæðinu verði ekki beitt, og í trausti þess, að tækifæri gefist á næsta þingi til þess að laga þá galla, sem á frv. eru, mun ég heldur ekki greiða atkv. gegn því, og mun því sitja hjá við atkvgr.