20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

1. mál, fjárlög 1935

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér fannst hv. 2. þm. Árn. tala um brtt. mína um 6000 kr. fjárveitingu til að æfa íþróttamenn undir Ólympíuleikana eins og einhverja vitleysu. Ég vil því gjarnan gera nánari grein fyrir því, hvers vegna ég er flm. þessarar tillögu.

Hann viðurkenndi með mér, að undirbúningur væri nauðsynlegur, en taldi hinsvegar, að tími til undirbúnings væri orðinn allt of stuttur, — fyrir þá, sem skammt væru komnir, bætti hann við. Ég held þó, að hann hafi ekki viljað segja með þessu, að allir íslenzkir íþróttamenn væru skammt á veg komnir og því væri fjarstæða að veita styrkinn. Hann sagði síðar, að vafasamt væri, í hvaða íþróttum íþróttamenn vorir ættu helzt að taka þátt. Mér hafði nú helzt skilizt á honum rétt áður, að hann teldi þá ófæra til að taka þátt í nokkurri íþrótt, en nú virtist hann þó telja þá hlutgenga í leikfimi. Mér finnst, að þó ekki væri nema um eina grein að ræða, væri það næg ástæða til að veita þeim þann styrk, sem hér er farið fram á.

Ég skal að vísu játa það, að mig sjálfan brestur kunnugleika til að ræða þetta mál við hv. 2. þm. Árn., sem sjálfur er þekktur íþróttamaður. En ég hefi auðvitað ekki tekið það upp hjá sjálfum mér að flytja þessa brtt. Hún er flutt að tilmælum Í. S. Í. samkv. greinargerð forseta þess um það, að Íþróttasambandinu væri nauðsynlegt að fá sér æfingakennara, og vegna þessa bakhjarls þykist ég geta haldið í fullu tré við hv. þm. í þessu máli. Og því finnst mér, að hann geti ekki með fullum rétti talið brtt. mína tóma vitleysu.

Ég vil minna á það, að þótt þátttaka Íslendinga í Ólympíuleikunum nú þyki kannske lítt hugsanleg, þá man ég ekki betur en við tækjum þátt í fyrsta mótinu, er háð var í Stokkhólmi, og kæmumst þó nokkuð langt, þótt ekki yrðum við sigurvegarar, t. d. í grísk-rómverskri glímu. Þar man ég ekki betur en Sigurjón Pétursson skipaði veglegt sæti. (BB: Alveg rétt). Hitt er víst alveg rétt, að kröfurnar hafa vaxið síðan, en framfarir íþróttamanna vorra ekki orðið að sama skapi. En ég held, að sóma þjóðarinnar sé svo bezt borgið, að stuðlað sé að því að vinna upp afturför seinni ára, og það verður bezt gert með því að styrkja íþróttamenn vora til að búa sig undir slíka keppni að nýju.

Stjórn Í. S. Í. óskar eftir þessum styrk og telur hann koma sér að haldi til undirbúnings undir næstu Ólympíuleika, og ég álít, að þingið verði að telja hana dómbæra um þessi efni, jafnvel þótt íþróttamenn innan þingsins telji tormerki á. Þess verður því að vænta, að þeir, sem unna íslenzkri íþróttastarfsemi, ljái þessu máli lið, og mér eru það mikil vonbrigði, ef hv. 2. þm. Árn. skerst úr leik.