18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Þetta frv. á þskj. 79 er flutt af meiri hl. samgmn., en undirbúið og samið af skipulagsnefnd atvinnumála. Frv. var sent til samgmn. af atvmrh., og ákvað meiri hl. að verða við því að flytja það. Einn nm. vildi þó ekki taka þátt í flutningi þess, og annar var fjarverandi, er meiri hl. samgmn. ákvað að flytja málið.

Þótt meiri hl. samgmn. hafi tekið að sér að flytja frv., geri ég ráð fyrir, að einstakir nm. muni telja sig hafa óbundnar hendur um að flytja brtt. við frv. undir meðferð málsins. En í höfuðatriðum teljum við hér stefnt í rétta átt: að koma skipulagi á fólksflutninga á landi, sem fram fara með bifreiðum. Þessir flutningar aukast stöðugt, eftir því sem vegakerfin færast út. Í sumar sem leið opnaðist þannig bílvegasamband milli tveggja landshluta, norður- og austurlands.

Ég ætla, að öllum sé það ljóst, að þörf sé á að skipuleggja þessa flutninga, þar sem þeir eru farnir að aukast svo mjög, og haga þeim þannig, að almenningi sé fyrir beztu. Hættan er nefnilega sú, að bifreiðarnar verði of margar og þar af leiðandi ekki nærri nóg fyrir þær að gera. — Við flm. teljum því, að hér sé stefnt í rétta átt með þessu frv.

Eins og menn sjá, þá fer frv. ekki fram á, að tekin sé upp opinber rekstur á þessari atvinnugrein, heldur að skipulagður sé einkarekstur sá, sem hér um ræðir, undir yfirstjórn póstmálastjórnarinnar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vil leyfa mér að vænta þess, að þar sem n. ekki sem slík hefir fjallað um þetta mál, þá verði því vísað til samgmn. og 2. umr.