13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Aðeins vegna þess, að hv. frsm. meiri hl. samgmn. er ekki viðstaddur, skal ég hér fara nokkrum orðum um málið af hálfu meiri hl. — Eins og sjá má af brtt. meiri og minni hl., hefir n. lagt nokkra vinnu í málið, og hefir verið útveguð umsögn ýmsra aðilja um frv., svo sem vegamálastjóra og bifreiðastjórafélagsins hér í bænum. Aftur hafa bifreiðarstöðvarnar engan félagsskap með sér, og hefir því ekki verið leitað til þeirra. Hinsvegar hefir n. fengið umsögn Strætisvagnafélags Reykjavíkur um frv.

Ég skal taka það fram, út af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að ég fæ ekki séð, að ástæða hafi verið til að leita umsagnar bæjarstj. Rvíkur um málið. Hún er enginn sérstakur aðili í þessu máli fremur en t. d. sýslumenn víðsvegar um landið, eða bæjarstjórnir í öðrum kaupstöðum. Með tilliti til þeirra umsagna, sem n. fékk og ég hefi skýrt frá, byggði meiri hl. sínar brtt., eftir skoðunum nefndarmanna meiri hl. Frá einum þeim aðila, sem skilaði mjög ýtarlegu áliti, komu meira að segja brtt. við frv., og mig undrar það, að hv. minni hl. taldi sér fært að taka upp allar þessar brtt., og það gersamlega óbreyttar og án þess að bæta nokkru við. Og svo mikil nákvæmni var í þessu hjá hv. minni hl., að hann tók með eitt atriði í till. vegamálastjóra, sem hv. frsm. minni hl. hefir lýst yfir, að hann gæti vel sætt sig við, þó haft yrði á annan veg það atriði, en svo fastheldinn er hann samt sem áður á till. vegamálastjóra, að hann sleppir ekki þessu atriði, en tekur það líka með. Og þetta atriði er einmitt það, að vegamálastjóra skuli vera falin yfirstjórn þessara mála. Annars skal ég taka það fram, að álit vegamálastjóra er sérstaklega ýtarlegt, og þær upplýsingar, sem hv. minni hl. n. hefir borið hér fram í hv. d. um fyrirkomulag mannflutninga í Noregi og Danmörku, eru allar úr því áliti, frumheimildir hefir n. ekki haft í höndum. (GSv: Ég hefi lögin í höndum). Ég segi, að þau hafi ekki komið n. fyrir sjónir. Annars get ég tekið undir flest það, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir sagt um málið, enda er hann einn af þeim, sem upphaflega höfðu undirbúning þess með höndum. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að svara sérstaklega ýmsu, sem hann hefir áður svarað, í ræðu hv. frsm. minni hl. Út af því, að hv. þm. V.-Sk. þótti það óeðlilegt, að bæjarstj. Rvíkur veitti ekki sérleyfi til flutninga innan bæjarins, þá er það í samræmi við þá stefnu, sem meiri hl. n. hefir tekið gagnvart sýslunum. Við höfum ekki viljað, að sýslurnar veittu leyfi innan sinna takmarka, og þá auðvitað ekki heldur bæjarstjórnirnar. Það virðist óheppilegt, að sýslurnar veittu slík sérleyfi, því vel gæti þá verið, að ríkisstj. væri búin að veita leyfi í mörgum sýslum samstæðum án þess að sýslunefndir vissu af, og gæti þá orðið árekstur af því. Annars undrar mig það, að hv. frsm. minni hl. skuli furða sig á því, að framsóknarmenn skuli fylgja þessu frv., og að hv. þm. skuli finna þjóðnýtingarbragð að frv., því í frv. er engin þjóðnýting, eins og allir sjá, heldur er þar að ræða um einkarekstur. Eina þjóðnýtingin, sem þar er hugsanleg, er sú, ef bæjarstj. Rvíkur skyldi detta í hug einn góðan veðurdag að þjóðnýta þessa flutninga, þá viljum við ekki vera meinsmenn hennar í því efni. Að síðustu vil ég vekja athygli á því, að brtt. beggja nefndarhlutanna eru að sumu leyti sama efnis, og er því sama hvorar þeirra, sem shlj. eru, verða samþ., en ég vil vekja athygli á því, að þær eru hvorar um sig í samræmi innbyrðis, og verður því réttara að hafna öðrumhvorum alveg. Þess vegna er það svo að minni hyggju, að annaðhvort verður að fella allar brtt. minni hl. eða ekkert af þeim. Það yrði aðeins til að valda ruglingi, ef samþ. væru sumar till. minni hl. og sumar till. meiri hl. Þess vegna bið ég menn að athuga það, að við leggjum til, að allar till. minni hl. verði felldar, einnig þær, sem við höfum út af fyrir sig ekkert á móti, og það er af því þær eru út úr samræmi við frv. að öðru leyti og þær brtt., sem við vonumst eftir, að verði samþ. frá meiri hl.