13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2754 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég skal ekki vera langorður og tel ég megi við það hlíta, að ég tali seinastur, þar sem hv. meiri hl. mun telja sig fullbirgan til að koma sínu fram. En ég ætla að svara þessari aðstoð, sem hann fékk; hitt er annað mál, hvort ég þarf að svara staðgöngumanninum, hv. þm. N.-Þ., því að hann virtist standa upp til þess eins að „tala“, þar sem frsm. var ekki viðstaddur, eins og hann sagði, enda hafði hann ekkert til brunns að bera, því það, sem hann sagði, var búið að taka fram áður, sumpart af mér og sumpart af öðrum. Hann virtist hneykslast á því, að ég tók það fram sérstaklega, að vitandi vits hélt minni hl. sínum till. að formi til rökréttum og í innbyrðis samræmi, þótt hann leggi mismunandi áherzlu á þær. T. d. er það eitt aðalatriðið, að bæjarstjórnirnar fái sinn rétt hvað sérleyfi snertir óskoraðan, en afleiðing af því að formi til er það, að sýslunefndir geti átt kost á hinu sama. Ég gat þess, að hvað sýslunefndirnar snerti mundi þetta ekki hafa mikla praktíska þýðingu; þá má nefna dæmi þess, þar sem langleiðir ná ekki til og vegakerfi eins héraðs er innilokað, að ekki hefði þýðingu, að aðrir kæmu til málanna heldur en viðkomandi sýslunefnd. En þetta er á engan hátt sambærilegt við hitt, sem er algerlega af praktískum uppruna.

Nú gengur þessum hv. þm. illa, og það bætti ekkert úr skák, þótt hv. 9. landsk. stæði upp líka; þeim gengur báðum illa að koma mönnum í skilning um og halda sjálfum sér í skilningi um, að það sé óhæfa, að bæirnir fái þennan rétt. Ef svo væri, hefðu þeir eigi þurft að berja þetta svona fast fram, þar sem aðeins einn maður andmælir; þeir eru víst tryggir með sína menn. — Ég hefi nú sýnt fram á, að það er langt frá því, að það sé óhæfa, að bæirnir hafi þennan rétt; bæði líta aðrar þjóðir svo á og þetta hefir blessazt vel hér. Því þó ákvæði hafi vantað í lög um það, að bæjarstjórnir gætu veitt fullkomin sérleyfi, þá hafa strætisvagnarnir verið reknir hér í Rvík eins og þeir hefðu fengið slíkt leyfi. Þeir eru einir um flutningana með slíkum farartækjum á þeirra ákveðnu leiðum innan bæjar og þar í nánd. Það er því ekki undarlegt, þótt minni hl. vilji láta þetta haldast. En þeir þrír hv. þm., sem talað hafa hér, hafa lagt mikla áherzlu á, að þeir stæðu saman, og skorað hverjir á aðra að drepa nú allar till. minni hl., svo að þeim ætti ekki að verða skotaskuld úr því. Það er ekki hætt við, að í þeirra liði verði skeikað frá þeirri reglu að fella allt, sem kemur frá andstæðingunum, en samþ. hinsvegar allt frá sínum fylgismönnum, hvað fáránlegt sem það er.

Hv. þm. í samgmn. hafa orðið að viðurkenna það, að skýrsla vegamálastjóra sé gagngerð og merkileg, en þá ættu þeir ekki heldur að undrast það, þótt talsvert tillit sé tekið til hans till. vegamálastjóri hefir, eins og bent hefir verið á, haft mest með þessi mál að gera og verið aðalráðunautur stjórnanna í þeim, en samt vilja hv. þm. nú koma honum sem mest út úr þessu máli.

Hv. 9. landsk. fann hvöt hjá sér til þess að standa upp í þessu máli, eins og mörgum öðrum nú upp á síðkastið, þótt það væri ekki til annars en sýna, að hann hafði ekkert til brunns að bera í því, virtist jafnvel ekki skilja eða hafa lesið það, sem fyrir liggur um málið. Hann vill láta líta svo út, að minni hl. sé með till. sínum að þóknast einhverjum aðilum hér í Rvík. Ég hygg nú, að hv. þm. sé það læs, að hann geti séð það sjálfur með því að líta yfir till. okkar, að þetta hefir ekki við neitt að styðjast. En hann vill, eins og fleiri af hans núv. flokksbræðrum, keyra alla hluti inn í einhverja ganga, hafa andstæðingana og þeirra mál í öðrum ganginum, en sína menn með sín mál í hinum, og slá því svo föstu, að hans menn vinni alltaf með alþjóðarheill fyrir augum, en hinir fyrir einhverja sérhagsmuni. En við vitum það um þessa hv. þm., að þeir hafa sýnt sig í því að hugsa mest um sjálfa sig, svo að þeim ferst ekki að segja um okkur, sem tökum málin á víðtækum grundvelli, að það séum við, sem bindum okkur við persónur. Það kemur ljóst fram í umr. um yfirstjórn þeirra mála, sem hér eru nú til umr., að þeir tala eingöngu út frá persónum og persónulegum sjónarmiðum. Hv. þm. talaði um að vegamálastjóri mundi ekkert kæra sig um að taka þetta að sér. Hvað veit hann um það? Hann mun ekkert hafa talað við vegamálastjóra um þetta. Eða hefir hann talað um það við póstmálastjórnina, hvort hún vill taka þetta að sér? Ef fara á að leggja þann mælikvarða á mál hér á Alþ., hvort þessi og þessi maður, sem nú gegnir einhverju starfi fyrir þjóðfélagið, vill taka þetta og þetta að sér eða ekki, þá eru málin orðin of persónuleg frá okkar sjónarmiði, en sennilega mátuleg fyrir hv. 9. landsk., því að það er algerlega fyrir utan efni málanna, hvað þessi maður vill og hinn vill ekki. Hafi hv. þm. ekki annað til málanna að leggja, stendur hann sig vel við að sitja kyrr og hlýða á og læra af mér og öðrum.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í þessi atriði. Það er búið að ræða málið svo mikið, að mönnum ætti að vera vorkunnarlaust að ganga til atkvgr. Það er augljóst, að ef atkvgr. á að miðast við það, sem síðast hefir komið fram, hvað þessi vill og hvað hinn vill, en ekki við það, hvað bezt er í sjálfu sér, þá er ekki mikið á henni að byggja til frambúðar, og get ég óskað hv. andstæðingum til hamingju með þá lausn, sem þannig fæst á málinu.