20.11.1934
Efri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (3896)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál að svo stöddu, en vil aðeins skjóta því til n., sem fær frv. til meðferðar, að hún athugi rækilega þá hlið málsins, sem veit að notendum bifreiða, og einnig hvort ekki sé með þessu frv. stofnað til verulega mikillar hækkunar á fargjöldum. Það er augljóst, að samkv. frv. er gengið út frá, að veitt verði einkaleyfi til fólksflutninga á öllum föstum ferðum á langleiðum í stórum bifreiðum. Og nú er búið að bæta inn í frv. heimild fyrir ráðh. til þess að láta slíka samninga einnig ná til bifreiða, sem rúma 6 farþega. Þessi heimild minnir mig að sé í 7. gr. frv. En þar að auki stefnir nú óðum í þá átt, að á langleiðum eru nú orðið yfirleitt notaðar stærri bifreiðar til fólksflutninga en 6 farþega. Mér hefir verið sagt á bifreiðastöðvunum, að það sé fullt eins vel hægt að komast leiðar sinnar í stóru bifreiðunum hér á vegunum eins og hinum; svo að ég hygg, að það verði nálega eingöngu notaðar hér stærri bifreiðar til fólksflutninga, a. m. k. á lengri leiðum. Og ef ekki hefði verið skotið þessari heimild inn í 7. gr. frv., þá liggur það ljóst fyrir, að þetta frv. setur þróun þá, sem orðið hefir hér síðustu missirin á fólksflutningum með bifreiðum, alllangt aftur á bak, því að til þess að komast framhjá sérleyfishöfum, eru menn knúðir til þess að nota hinar smærri bifreiðar. En á þessu er nú minni hætta, af því að bætt hefir verið í frv. heimild til þess að taka smærri bifreiðar einnig undir einkaleyfin.

Það hefir nú farið svo á síðari árum, að farþegagjöld með bifreiðum hafa farið sílækkandi, og verður því að athuga það vel, hvort þetta frv. leiðir ekki til þess, að í skjóli einokunarinnar, eða hinna fyrirhuguðu einkaleyfa, verði stöðvuð lækkunin á fargjöldunum, eða að þau komi jafnvel til með að hækka aftur. Sú hætta er alltaf fyrir hendi, að þegar einokun er tekin á einhverju, þá hækkar verðið.

Ég skal fúslega játa, að hinni frjálsu samkeppni fylgja þeir ókostir, að þar gengur alltaf nokkuð í súginn. En því má ekki gleyma, að meginkostir hennar eru þeir, að þá er venjulega hægt fyrir neytendur að fá hlutina með sæmilegu verði, og oftast mjög ódýrt.

Það hefir verið talið, að megn óregla væri ríkjandi um fólksflutninga á landi og að bifreiðastöðvarnar eyði miklu fé í að togast á um flutningana. Ég held, að þetta sé mjög orðum aukið. Bifreiðastöðvarnar eru nú einmitt byrjaðar að skipta á milli sín ferðum og farleiðum eftir samkomulagi. Þær finna, að hin frjálsa samkeppni er þeim allóþægileg, og það er áreiðanlega bezta lausnin á þessu máli, að bifreiðastöðvarnar tempri hana sjálfar og skipuleggi fólksflutningana. — Ég hreyfi ekki þessum aths. vegna bifreiðastöðvanna, heldur vegna landslýðsins, sem þarf að nota bifreiðarnar. Þetta bið ég hv. n. að athuga gaumgæfilega, áður en hún mælir með þessu frv. til samþykktar.