06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (3899)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál hefir legið fyrir samgmn. þessarar d., og er n. í öllum aðalatriðum sammála um að leggja til, að frv. nái fram að ganga. Einn nm. hefir þó skrifað undir með fyrirvara, og er sá fyrirvari fram kominn á þskj. 659. Þær till., sem fluttar eru á nefndu þskj., get ég ekki fallizt á; þó að þær séu ekki veigamiklar að efni til, breyta þær frv. nokkuð. En frv. hefir fengið rækilega meðferð í Nd. og tekið þar stórum breyt., bæði í samgmn. Nd. og frá einstökum þm. Meiri hl. n. lítur því svo á, að þannig sé frá frv. gengið, að brtt. hv. þm. N.-Ísf. séu ekki til bóta. Sé ég ekki ástæðu til að tala um efni þeirra. — Brtt. frá hv. þm. Dal. er í sjálfu sér ekki skaðleg að efni til, að mínu áliti, en ég hefi ekki borið mig saman við meðnm. mína. En ég tel, að mjög orki tvímælis, hvort frv. næði þá fram að ganga í Nd., ef hv. deild samþ. breyt. á því. Þar var ágreiningur um málið eins og það var borið fram, en varð að lokum samkomulag um það eins og það er nú. Ég álít því breyt. varhugaverðar, þó smávægilegar séu. Gætu þær valdið því, að málið dagaði uppi, þar sem skammt mun til þinglausna. Meiri hl. mælir með frv. óbreyttu og leggur til, að það verði samþ.