06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Þorsteinn Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. n. virtist vera á því máli, að brtt. sú, sem ég hefi borið fram og er á þskj. 643, gæti frekar verið til bóta, en samt var að heyra á honum, að hann vildi ekki taka hana til athugunar eða færa inn í frv., vegna þess að hann vildi engar breyt. gera á frv., heldur samþ. það eins og það liggur fyrir. Ég vil taka undir með hv. þm. N.-Ísf., að það er til lítils að láta frv. ganga hér um deildina og setja þau í nefndir, ef ekki má taka til greina þær brtt., sem fram koma og miða til bóta. Ég hélt, að tilgangurinn með athugun frv. og sendingu milli deilda væri að gera þau svo úr garði, að frágangur yrði sæmilegur.

Þessi brtt. mín fer í þá átt, að hlutaðeigandi héruð, sem þessar fólksflutningsbifreiðir ganga til, eða héraðsstjórnir hafi tillögurétt um, hverjir eigi að fá sérleyfi á þeirri leið. Ég verð að segja, að það er ekki lítils virði fyrir héruðin, hver bílstjórinn er. Það er geysilegur munur, hver það er, sem hefir þessa flutninga á hendi. Sumir eru klaufar við stjórn, gleymnir og óáreiðanlegir, aðrir eru hið gagnstæða, liprir stjórnendur, samvizkusamir og ábyggilegir. Héruðin ættu að þekkja vel þá menn, sem áður hafa stjórnað ferðum þangað, og mér finnst mjög gagnlegt, að þau fái tillögurétt um þetta, þó þau hafi ekkert úrskurðarvald. En það hefir verið svo nú um tíma, að freklega hefir verið gengið á rétt héraðanna, og er von, að það sé í þessu máli sem öðrum; það eru ýmsir menn, sem miða allt við stjórn hér syðra og að hér skuli vera úrskurður í hverju máli og ráðið úrslitum hér.

Ég tel illa farið, ef héruðin eiga ekki að fá að segja sitt álit. Það hefir verið sagt, að erfitt mundi að koma þessu við. Ég tel þetta mjög hægt. Þó í einstaka tilfellum verði að spyrja 2—3 héruð um sama bílstjórann, er hægt að gera það bréflega eða með símskeyti, og geri ég ráð fyrir, að nægi að snúa sér til oddvita sýslunefnda. — Ég skal ekki fara lengra út í þetta, en ég get ekki orða bundizt, því að ég óttast mjög, að svo fari, ef frv. verður samþ., að það verði héruðunum til stórtjóns. Ég geri ráð fyrir, að með einkaleyfum eða sérleyfum sé loku skotið fyrir heilbrigða samkeppni. Og ég ætla þá að segja hv. deild það, að nú er fargjaldið frá Búðardal og hingað komið niður í 10 kr. sætið. Það hefir verið talað um sparnað og ódýr fargjöld af meðhaldsmönnum þessa frv., en ég er viss um, að fargjöldin verða færð upp og að allt verður þvert á móti því, sem boðað er af þeim, er flytja frv. þetta inn á þingið.