06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (3905)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég fékk ekki svar hjá hv. þm. við þessu, sem er þó stórt atriði í málinu, hvað það er, að hafa fólksflutninga um hönd. Ef það er ekki skilgreint, þá er hægt að fara í kringum þetta.

Hann segir, að okkur sé ekki bannað að fara í ferð með konur okkar og taka okkur bíl. Er þá ekki hægt að fara í kringum þetta? Við skulum segja, að við ætlum að fara alla leið til Reyðarfjarðar og höfum ráð á stórri bifreið. Til þess að létta undir kostnaðinn, viljum við taka nokkra farþega. Þá verðum við að semja við þessa menn um það, að við förum saman að gamni okkar og tökum bifreiðina á leigu í sameiningu, því að ekki megum við selja þeim farið. Þannig skilst mér, að megi alltaf fara í kringum þetta, svo að það verði ekki nema svipur hjá sjón. Við verðum því að hafa nákvæma skilgreiningu á því, hvað það er að hafa með höndum fólksflutninga.

Þá verður líka að gera sér grein fyrir, hvað á að gera við þær leiðir, sem enginn sækir um, en það verður hv. frsm. að játa, að getur vel komið fyrir. Má þá enginn flytja fólk þar? (SÁÓ:

Yfirstjórnin sér fyrir því). Hún hefir ekki vald til þess. Þetta getur verið fáförul leið, en það er vont, að enginn haldi uppi ferðum á þeirri leið fyrir því, en það getur komið fyrir, þegar á að rígbinda á þennan hátt allar samgöngur í landinu.

Hann segir, að ekkert sé við það að athuga, þó að ég sé á móti þessu. Þá er ekki heldur neitt við það að athuga, þó að hann sé með því. Hann er með þessari skipulagningu, af því að það er í sambandi við hans stefnu. En ég er ekki á móti þessu af teoretiskum ástæðum, heldur af því, að ég held, að þetta verði til óþæginda og tjóns. Ég er ekki á móti því sérstaklega vegna minna kjósenda, ég býst við, að þetta komi tiltölulega létt niður á þeim. En ég álít, að það sé skaðlegt almennt séð að hefta samgöngurnar í landinu. Það er þess vegna, að ég er á móti þessu. Einu sinni átti að skipuleggja bifreiðaferðir í Rvík. Þá voru hér ekki hreyfðir bílar fyrir minna en 3 kr. Mönnum þótti þetta dýrt og sögðu, að gera þyrfti mun á því, hvert farið væri. Stjórnarráðið tók sig til og skipti bænum niður í belti; það var ógurlega flókið, það kostaði svona og svona mikið innan fyrsta beltis, en ef farið væri úr fyrir það og út í annað belti, þá hækkaði það um þetta og þetta. Það skildi enginn neitt í þessu, og bílarnir voru dýrir eftir sem áður, svo að allt þetta kerfi brotnaði niður. En rétt á eftir tók ein bifreiðastöðin upp á því að aka mönnum út um allan bæ fyrir eina krónu. Þá urðu hinar stöðvarnar vegna samkeppninnar að lækka líka hjá sér. Næst kom svo það, að þeir, sem ætluðu að nota gamlar og slæmar bifreiðar, fengu enga farþega. Ég hygg, að ef skipulagning hefði gert það þarna að verkum, að gjöldin hefðu lækkað úr 3 kr., þó að ekki hefði verið nema niður í 2, þá hefði það þótt vel að verið, þó að menn hefðu eftir sem áður orðið að nota gömlu og lélegu bifreiðarnar.

Ég verð að viðurkenna það, að hv. frsm. bar þó fram eina ástæðu, sem hefði reyndar ekki átt að koma fram frá honum. Hann sagði, að þótt þessi skipulagning kæmist á, yrði samt sem áður frjáls samkeppni að talsverðu leyti. Mér fannst þetta helzta ljósglætan í þessu, því að þegar farið er að bjóða þetta út, þá munn menn keppa um það. En það skyldi lukka til, að bifreiðastöðvarnar hefðu ekki samtök um að bjóða ekki niður hver fyrir öðrum. Og svo þegar búið er að velta sérleyfið, þá kemst engin samkeppni að í 3 ár. Og það er það minnsta, sem samtök geta verið um, að bjóða ekki allt of mikið niður hver fyrir öðrum. Nei, það er einmitt þessi hugarskíma hjá þessum hv. þm., sem bregzt alveg, því að þessi samkeppni er útilokuð, nema að því leyti, sem farið verður í kringum l., sem verður kannske til að bæta úr mestu göllunum.

Hann sagði, að þetta yrði til þess að gefa mönnum atvinnu við að aka þessar leiðir. Hann heldur þá, að ef allt er frjálst, þá yrði samkeppnin svo mikil, að engin atvinna yrði af að aka bíl. Það er þá af umhyggju fyrir bifreiðaeigendum, en ekki fyrir þeim, sem þurfa að kaupa sér far með bifreiðum, að þetta er borið fram, og ég efast ekki um, að það verður góð atvinna að aka með sérleyfi.

Ég skal ekki mikið fara út í það, sem hann var að tala um, að ekki gætu allir notað beztu bifreiðarnar, en það er vel séð fyrir því með þessu frv., að menn aki ekki í of fínum bifreiðum. Það eru góðir menn eins og aðrir, sem aka bifreiðum, en þeir eru mannlegir og vilja fá að nota sínar bifreiðar sem lengst, og til þess fá þeir aðstöðu, ef enginn er til að keppa við þá.

Hv. þm. sagði, að það væri til bifreiðastöð, sem væri á móti þessu. Ég hugsa, að það væri þá helzt, ef einhver stöð hefði nú meiri flutninga en aðrir vegna góðra bifreiða og bifreiðarstjóra. Ég gæti hugsað, að slíkar stöðvar mundu ekki kæra sig um þetta. M. ö. o., tilgangurinn er að rifa niður þá, sem gera bezt í þessu efni.

Hann er ekki viss um, að fargjöldin lækki, en fullyrðir bara, að þau hækki ekki. Til hvers er þetta þá? Er það bara til þess að fargjöld hækki ekki? Ég hélt nú, að þeir mundu halda því fram, að gjöldin lækkuðu, en það er þá svo, að jafnvel helztu forsvarsmenn frv. geta ekki búizt við, að þau lækki.

Ég skal svo ekki ræða um þetta meira. Reynslan mun leiða það í ljós, hvílíkt glapræði var framið með samþ. þessa frv.

Ég skal ekki tala mikið um það, hvers vegna skipulagið mistókst á alþingishátíðinni, en mér er ekki kunnugt um, að nein bifreiðastöð hafi þá haft sérstaka samninga. Það var settur taxti, sem var hærri en hann þurfti að vera, og af því brotnaði þetta allt.

Ég vil svo að endingu óska þess, að hv. þm. svari þessari spurningu, hvað það er, að hafa með höndum fólksflutninga, og hvernig eigi að fara að, ef enginn sækir um sérleyfi á einhverri leið, hvort allar samgöngur eiga þá að falla þar niður.