06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Pétur Magnússon:

Það er eitt atriði í sambandi við þessa löggjöf, sem ég býst við, að hv. þm. sé óljóst og hv. frsm. gerði litla tilraun til að hjálpa okkur til réttari skilnings á, og það er það, hvert er tilefnið til þessa frv. Ég hefi ekki heyrt hér gerða neina tilraun til að skýra það fyrir mönnum, hvers vegna þetta frv. er fram komið.

Það munu nú vera um 20 ár síðan bifreiðaferðir hófust hér á landi. Þær byrjuðu í smáum stíl, með litlum og lélegum bifreiðum. Vegir voru mjög vondir og það var ekki nema um mjög takmarkað svæði á landinu, sem bifreiðar gátu farið. En þessu hefir fleygt svo ört fram á síðari árum, að undrum sætir í okkar fátæka þjóðfélagi. Bifreiðar fara nú orðið um langmestan hluta landsins, og bifreiðarnar eru yfirleitt vandaðar, og það hefir mjög mikið að segja, eins og vegir eru hér viða hættulegir, að það séu góðar bifreiðar, sem eru notaðar. Hv. frsm. talaði um það, að við hefðum ekki ráð á að nota góðar bifreiðar, en ég segi, að við höfum ekki ráð á að nota lélegar bifreiðar, því að slys af því yrðu alvarlegri en svo, að við það yrði unað til lengdar.

Bifreiðastöðvar og bifreiðastjórar hafa líka átt mjög mikinn þátt í því, hve víða hefir verið hægt að komast um landið á bifreiðum. Flutningsgjöldin hafa verið lág, svo að það er ómögulegt að segja annað en að á síðari árum hafi það verið mjög lítið tilfinnanlegt að ferðast með bifreiðum. Það hefir kostað margfalt minna en áður en bifreiðarnar komu til sögunnar, enda þótt dýrtíð hafi vaxið, og án þess að tekið sé tillit til þess tímasparnaðar, sem bifreiðaferðir hafa í för með sér. Það var upplýst, að það hafi kostað síðasta sumar 10 kr. að fara í góðri bifreið frá Reykjavík til Búðardals. Áður fyrr kostaði það a. m. k. þrefalt meira, án þess að tekið sé tillit til þess, að þá tók það þriggja daga ferðalag, í staðinn fyrir, að nú tekur það ekki nema 8—9 stundir. (JBald: Það er nú líka búið að leggja þarna mikla vegi). Já, að vísu, þó allmikill hluti af veginum sé aðeins ruddar götur.

Þá hafa íslenzkir bifreiðastjórar fengið mjög mikið orð á sig fyrir það, hversu sýnt þeim sé að fara með bifreiðar og komast klakklaust yfir þær vegleysur, sem þeir víða verða að fara með bifreiðar yfir. Menn, sem ekið hafa í bifreiðum erlendis, láta í ljós stórkostlega undrun yfir því, hversu snilldarlega íslenzkir bifreiðastjórar leysa þetta starf af hendi, enda er það orðið svo, sem betur fer, að bifreiðaslys eru tiltölulega fá, borið saman við það, hvað slysahættan er mikil.

Við höfum ströng lög um bifreiðar og eftirlit með þeim, þar sem settar eru fastar reglur um notkun þeirra, og hörð ákvæði, sem lögð eru við vitaverðu framferði bifreiðarstjóra. En þrátt fyrir það, og þó að notaðar séu vandaðar bifreiðar yfirleitt og fargjöldin séu lág, þá virðast bifreiðastöðvarnar þrífast vel, t. d. hér í bænum. Sumar hafa grætt mikið fé og hinar þrífast sæmilega, en fáar hafa tapað. Og svo er verið að tala um, að nú sé sérstaklega nauðsynlegt að skipuleggja þennan atvinnurekstur, sem ég nú hefi lýst. Sannleikurinn er sá, að bifreiðaferðir hafa verið skipulagðar hér í mörg ár, og það sem meira er um vert, að sú skipulagning hefir reynzt ágætlega. Eins og öllum er kunnugt, þá hafa bifreiðastöðvarnar ákveðnar áætlunarferðir til vissra staða samkv. fyrirfram settum áætlunum, einkum þar, sem umferðin er mest, og aukaferðir eftir þörfum, eða þegar krafizt er. Ég hefi ekki skilyrði til að dæma um, hvort í einstökum tilfellum kunni að vera óþarflega margar bifreiðar á einhverjum vegum. En ég ætla, að reynslan muni sýna, að ef bifreiðar eru einhversstaðar of margar, þá liggi það í hlutarins eðli, að stöðvarnar fækki þeim þar sjálfkrafa. En hitt liggur í augum uppi, hvað sem menn annars segja um þessa blessaða skipulagningu, þetta orð, sem er svo óskaplega misnotað, þá er gersamlega óþarft að nýskipuleggja atvinnurekstur, sem gengið hefir mjög vel með núv. skipulagi. Það hafa líka verið færð sterk rök fyrir því, að sú skipulagning, sem ráðgerð er í þessu frv., muni reynast lakari en sú, sem fyrir er. Og sérstaklega virðist það liggja í augum uppi, að þegar farið verður að einoka þessa atvinnugrein og veita einstökum mönnum eða fámennum félögum sérréttindi til fólksflutninga með bilum, þá er mjög mikil hætta á því, að tilkostnaðurinn aukist. Og einnig er mikil hætta á því, að ekki verði hugsað um að hafa bilana í nægilega góðu lagi, eftir að slíkt skipulag væri komið á.

Ég hefi yfirleitt ekki orðið þess var, að nokkur óánægja hafi verið meðal almennings undanfarið um það, hvernig fólksflutningum með bifreiðum væri hagað hér á landi. Ég held þvert á móti, að á síðari árum hafi ríkt mjög almenn ánægja meðal manna í því efni. Þetta bendir auðvitað til þess, að á bak við þetta frv. sé einhver önnur ástæða fólgin, sem ekki þyki rétt að hreyfa og hv. frsm. þykir ekki henta að minnast á. En sé svo, þá er bezt fyrir hv. þm. að koma hreinskilnislega fram með það, því að réttast er að hafa hreint mjöl í pokanum. Ég veit, að sú skoðun er almennt ríkjandi hér í bænum, og veit líka, að hv. frsm. hefir heyrt það, að hér liggi aðrar ástæður á bak við en gefnar hafa verið upp. Og þær ástæður eru þannig, að það er mjög hæpið að láta löggjöfina í þessu efni velta á þeim.

Ég tek undir það með hv. 1. þm. Reykv., að það er allt of ónákvæmt orðalag í 1. gr. frv. Þar er talað um, að engum sé heimilt að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum, sem stærri séu en svo, að þær rúmi 6 farþega, nema hafa fengið til þess sérstakt leyfi frá ríkisstjórninni. Mér virðist óhjákvæmilegt að skýra þetta nánar. Hvað segir hv. frsm. um það, þegar bifreiðastöð auglýsir, að hún hafi með höndum bifreiðar til leigu án þess að um fastar ferðir sé að ræða? Er þetta að hafa með höndum fólksflutninga? Hv. frsm. segir, að það sé bundið við ákveðinn sætafjölda í bifreiðum. En ef um 6 manna bifreiðar er að ræða og bifreiðastöð gerir sér þetta að atvinnu, — er það þá heimilt? Mér er þetta ekki vel ljóst. Ef þetta frv. skyldi nú fara í gegnum þingið og verða að lögum, þá væri mjög gott, ef hinn ágæti frsm. vildi láta það í ljós, hvernig hann skilur þetta. Það gæti komið sér vel, þegar þarf að fara að skýra lögin á eftir.

Þá er annað ákvæði í 6. gr., sem sýnist vera talsvert varhugavert, og vil ég beina því til n. að athuga það til 3. umr. Þar er gert ráð fyrir, að svo framarlega sem fleiri en eitt félag eða einstaklingur hafi fengið sérleyfi til fólksflutninga á einhverri leið, þá hafi póstmálastjórn heimild til að ákveða, að fargjöldum skuli skipt milli sérleyfishafa eftir tölu sætakílómetra bifreiða þeirra, sem þar eru í förum. Ég skal játa, að ég skil ekki þetta orð: .,sætakílómetra“. En mér skilst, að hugsunin sé sú, að fargjöldin skiptist á milli bifreiða eftir sætafjölda og vegalengd, sem bifreiðarnar fara. Það er augljóst, að ef þetta yrði gert, þá er hætt við, að það skipti sérleyfishafa ekki miklu máli, hvort það er hann eða keppinauturinn, sem fer þessa eða hina ferðina og hlýtur viðskiptin. Sérleyfishöfum verður vitanlega alveg sama, hvort þeir fara með hálffulla bifreið af fólki eða næstum því tóma, ef þeir fá borgun fyrir auðu sætin frá annari stöð. Ég er hræddur um, að þetta verði ekki sérstaklega uppörvandi fyrir sérleyfishafa til þess að þeir leggi sig fram um að hafa bifreiðarnar sem bezt útbúnar fyrir þá, sem eiga að nota þær. Ætli það væri ekki betra, að sérleyfishafar væru á einhvern hátt knúðir til þess að kosta nokkru til, svo að farþegar kysu heldur að fara með bifreiðum þeirra? Þessu vildi ég beina til hv. n., til fyllri athugunar.

Annars verð ég að segja það, að mér finnst þau rök, sem flutt hafa verið til meðmæla þessu máli, svo léttvæg — en rökin, sem á móti því mæla, svo þungvæg, — að ég trúi því naumast, að þetta frv. eigi að ganga fram, þó maður hafi nú orðið að reyna margt misjafnt á þessu þingi.