06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Páll Hermannsson:

Það var víst hv. 1. þm. Reykv., sem fyrstur óskaði eftir fyllri skýringum á því, hvað það þýddi, sem stendur í 1. gr. frv.: „að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum“. Ég held, að hv. þm. skilji þetta sjálfur mætavel, enda finnst mér það vel skiljanlegt. Ég lít svo á, að „að hafa með höndum“ o. s. frv. þýði að reka sem atvinnu fólksflutninga með bifreiðum. Mér skilst, að það sé ekki talið að hafa með höndum fólksflutninga, þó að menn fái t. d. far með vöruflutningabifreiðum. (PM: Þetta er þveröfugt við skýringar frsm.). Ég hefi þá ekki veitt því eftirtekt. En ég skil þetta ákvæði svo, að um sé að ræða þá atvinnu, að flytja fólk um lengri veg.

Sami hv. þm. var að spyrja að því, hvernig ætti að fara að á þeim stöðum eða vegum, þar sem ekki væri sótt um sérleyfi til fólksflutninga. Mér sýnist það ógnarlega einfalt mál. Þar, sem ekki verður sótt um sérleyfi, er sennilega ekki um mikla fólksflutninga að ræða, enda verða þar nógir möguleikar til þess að flytja fólkið. Á það má benda, að í manna bifreiðar heyra ekki beinlínis undir þetta frv., en þær eru einmitt mjög almennt notaðar til fólksflutninga þar, sem ekki er um lengri leiðir að ræða. (MJ: Ákvæði 7. gr. frv. ná til þeirra). Það er bara heimild, ef um fastar áætlunarferðir er að ræða. Auk þess er það vitað, að fólksflutningar fara víða fram með vörubifreiðum, sem aðallega eru notaðar til vöruflutninga, og flytja fólk ásamt vörum eina og eina ferð. Þetta er fullkomlega leyfilegt eftir frv. — Mér skilst, að það verði því engin vandræði með fólksflutninga á þeim vegum, þar sem ekki verða veitt sérleyfi. Þar situr við það sama og nú er. Enda engin þörf fyrir sérstök flutningatæki á þeim leiðum.

Hv. 2. þm. Rang. áleit, að það væri ekki enn komið í ljós, hver væri hinn upprunalegi tilgangur með þessu frv., eða tilefni þess, að það er fram komið. Mér skilst, að tilefni frv. sé blátt áfram það, að fólk ferðast nú orðið mikið með bifreiðum hér á landi, og að það fer stöðugt vaxandi með hverju ári. Nú er því orðið um svo mikla fólksflutningaþörf að ræða, að löggjafarvaldið telur rétt að hafa þar hönd í bagga, og fulla ástæðu til þess, á þann hátt, að tryggt verði, að fólksflutningarnir geti farið sem bezt úr hendi, fyrst og fremst vegna ferðafólksins, og líka með tilliti til bifreiðastöðvanna, sem reka þessa atvinnu.

Hv. 2. þm. Rang. benti á, alveg réttilega, hversu ágætir íslenzkir bifreiðastjórar væru og hvað bifreiðarnar væru vandaðar og vel útbúnar. Mér þykir ekki líklegt, að þetta þurfi neitt að versna, þó að frv. verði að lögum og að hið opinbera hafi íhlutun um fólksflutningana. Hv. 2. þm. Rang. veit það líka fullvel, að það eru ekki allar bifreiðar jafntraustlega eða vel útbúnar. Og vera má, að þær verði það ekki heldur, þó að ríkisvaldið hafi þar hönd í bagga, en ég held, að það spilli engu í því efni a. m. k. En ég hygg, að það sé sízt af öllu verið að koma í veg fyrir opinbert eftirlit með frágangi bifreiða, þó að þessu skipulagi verði komið á um fólksflutninga.

Mér virtist það ekki vera alveg rétt, sem hv. 2. þm. Rang. gat um í sambandi við 6. gr. frv., að þegar þetta skipulag væri komið á fólksflutninga og fleiri en ein bifreiðastöð fengju sérleyfi til flutninga á sömu leiðum, þá mætti þeim standa alveg á sama, hvort þær sendu tóman bíl eða fullhlaðinn farþegum, af því fargjöldin ættu að skiptast hlutfallslega jafnt á milli sérleyfishafa. Það er að vísu rétt, að í frv. er áskilið, að fargjöldum sé skipt á milli leyfishafa eftir sætafjölda í bifreiðum og vegalengd.

Náttúrlega hlýtur það að vera hverjum skynbærum manni ljóst, að það dregur hverja bifreið mikið niður, sem keyrð er tóm um langan veg, samanborið við þá, sem er fullskipuð fólki, þó að hún fái eitthvað til uppbótar fyrir ómakið. En það má líka nokkuð til sanns vegar færa, ef farþegar fara einungis með öðrumhvorum sérleyfishafa á sömu flutningaleið, þó að tekjum sé þannig jafnað á milli bifreiða. (MG: Þetta er miðað við sætafjölda, en ekki farþega). Já, það er mér fyllilega ljóst.

Hv. 2. þm. Rang. var að tala um einhverjar ástæður, sem lægju á bak við flutning þessa frv. og ekki hefði mátt hreyfa opinberlega á Alþingi. Mér skilst, að hann sé hér að fara með rakalausar dylgjur, sem er ólíkt honum og ekki venjulegt. Ef hv. þm. veit eitthvað til þess, þá ætti hann að skýra frá því hér í þd.; það er engin ástæða til að þegja yfir því. Mér er ekki kunnugt um neina aðra ástæðu fyrir flutningi þessa frv. en þá, að fólksflutningar með bifreiðum aukast óðum hér á landi, og þess vegna skiptir miklu máli, að þeir fari vel úr hendi og séu sem ódýrastir fyrir almenning.