06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég ætla mér ekki að svara orði til orðs andmælendum þessa frv. — Hv. 2. þm. Rang. var með ýmsar aths. og fjarstæður út af einstökum atriðum frv. En því hefir nú verið svarað af hv. 1. þm. N.-M., og ég ætla ekki að endurtaka það.

Hv. 2. þm. Rang. var eitthvað að hártoga ummæli mín og leggja þau út á þann veg, að ég vildi hafa mannflutningabifreiðar sem einfaldastar og ódýrastar. — Ég verð nú að ætla, að það skipti ekki mestu máli að hafa bifreiðarnar sem flottastar. Ég hygg, að menn gefist yfirleitt upp á því að hafa fólksbifreiðar eins fínar og verið hefir, vegna þess hvað það kostar mikið. En bifreiðar geta verið góðar, þó þær séu ekki með öllum nýmóðins luksuseinkennum, og þær geta verið fullkomlega eins öruggar og forsvaranlegar að ferðast með þeim fyrir því.

Hv. þm. minntist einnig á, að við ættum ekki öðru að venjast en góðum bílstjórum, og er það yfirleitt rétt. Og mér er einnig kunnugt um, að bifreiðarstjórar hér á landi keyra venjulegar bifreiðar af alveg eins mikilli leikni og kunnáttu og hinar skrautlegu 1. flokks bifreiðar.

Þá vildi hv. 2. þm. Rang. halda því fram, að bifreiðastöðvar hér á landi bæru sig ákaflega vel fjárhagslega. En ég veit ekki betur en að bifreiðastöðvar hér í bænum hafi beinlínis siglt sig í strand í samkeppni um fólksflutninga á löngum leiðum. Hv. þm. vill meina, að núv. skipulag á fólksflutningum með bifreiðum sé svo gott, að ekki þurfi um það að bæta. En um það deilum við. (PM: Hvað er að því?). Ég skal koma að því síðar, í sambandi við það, sem hv. þm. var að spyrjast fyrir um tilefni þess, að þetta frv. er fram komið. Hv. þm. taldi alveg óþarft að breyta til um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum. Það væri nú svo gott, að ekki yrði um það bætt, enda allir ánægðir með það. Ég efast ekki um, að honum þykir þetta gott, en það er vandalaust að sanna hið gagnstæða og sýna fram á, að ánægjan með skipulagið er ekki eins almenn og hann vill vera láta.

Hv. þm. beindi til mín fyrirspurn um það, hvert væri hið raunverulega tilefni þess, að þetta frv. væri fram komið. Ég álít, að það komi skýrast fram í grg. frv., og skal því leyfa mér að lesa upp kafla úr henni, með leyfi hæstv. forseta:

„Fólksflutningar með bifreiðum hafa, eins og kunnugt er, aukizt svo stórfelldlega á síðari árum, að segja má, að bifreiðar séu nú, auk skipa, aðalfarartæki landsmanna. En þessi atvinnurekstur er nú með þeim hætti, að þörf virðist á því, að haft sé eftirlit með honum og hann kerfisbundinn að allverulegu leyti. Er nú svo komið, að eins mikil þörf er á því fyrir landsmenn að skipuleggja þessa tegund flutninga eins og járnbrautarrekstur er skipulagður í öðrum löndum álfunnar. Eins og bifreiðaflutningarnir eru reknir nú, fer mjög mikið fé forgörðum, sökum óþarflegrar samkeppni, án þess að almenningur hljóti þann hag af, sem að nokkru leyti samsvari eyðslunni. Margir aðilar keppa nú um flutningana á þeim leiðum, sem mestan arðinn gefa af sér, en fyrir bragðið eru sjálf farartækin oft miklu fleiri en þörf væri á, ef ferðunum væri komið í fast kerfi. Farartæki þessi og orkugjafa þeirra verður að kaupa frá útlöndum, og skiptir miklu, að sem sparlegast sé haldið á þessum efnum.“

Ég sé ekki betur en að í grg. frv. sé sagt það, sem í raun og veru er kjarni þessa máls, og það, sem segja þarf. (PM: Hvaða þingskjal er þetta?). Þetta þskj. er nr. 79. Ég taldi ekki þörf á því að rifja þetta upp í minni framsöguræðu, af því að ég hélt, að hv. þm. hefði lesið frv.

Þá var því einnig beint til n., hvernig ætti að skilja 1. gr. frv. Það er alls ekki rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að ég hafi annan skilning á henni en hv. 1. þm. N.-M. gerði grein fyrir í ræðu sinni. Þetta skipulag á fyrst og fremst að ná til allra þeirra manna eða félaga, sem reka fólksflutninga með stærri bifreiðum en 6 manna, bifreiðarstjóri undanskilinn. Með takmörkun þeirri, sem felst í 7. gr. frv., er 6 manna bifreiðum heimilað að fara sinna ferða utan skipulagsins. Þó er að vísu í 7. gr. talað um, að ráðh. megi láta þetta ná til bifreiða, sem rúma 6 farþega og færri, en það er sérstaklega stílað upp á fastar ferðir á löngum leiðum. (MJ: En ef búið væri nú að binda alla fólksbíla yfirleitt undir þetta skipulag?). Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við. Annars geri ég tæplega ráð fyrir því. En þó að til þess kæmi, þá eru allir vöruflutningabílar eftir, sem jafnframt eru afarmikið notaðir til fólksflutninga í sveitum á styttri leiðum.

Hv. 2. þm. Rang. beindi einu atriði, síðast í ræðu sinni, sérstaklega til mín. Hann bar það á mig, að ég mundi vita um einhverja sérstaka ástæðu til þess, að þetta frv. væri fram komið, sem ég vildi ekki koma neitt inn á eða láta uppi. (PM: Hefir þm. ekkert heyrt um það í bænum?). Nei, ég hefi ekkert um það heyrt. Ég vænti, að hv. 2. þm. Rang. sé svo hreinskilinn að koma með þessa ástæðu fram í dagsljósið og sleppi öllum ósæmilegum dylgjum.

Ég vil aðeins taka undir það, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, að mér er ekki kunnugt um neina dulda ástæðu á bak við þetta frv. Tilefni frv. er það skipulagsleysi, sem ríkt hefir um fólksflutninga á landi, og nauðsynin til þess, að ráða þar bót á og koma þeim í fastara horf.