15.12.1934
Efri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (3922)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég skal víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem hér liggja fyrir við þetta frv. Efni frv. sjálfs mun ég ekki fara út í. Það hefir verið rætt nokkuð í báðum d. þingsins, og hefi ég þar engu við að bæta, nema mér virðist, að með þeim ákvæðum, sem sett eru í 1. gr. frv., að l. nái aðeins til bifreiða, sem rúma fleiri en 6 farþega, þá sé skýrt ákveðið um það, hvaða bifreiða þetta taki til fyrst og fremst, þ. e. a. s. þau ná til hinna stærri bifreiða, og þó aðallega til þeirra, sem bezt borgar sig að nota í langar ferðir, auk þess sem þau náttúrlega taka til strætisvagnanna hér í Rvík, og eins til slíkra bifreiða, ef þær ganga milli Rvíkur og Hafnarfjarðar.

Við 1. gr. frv. eru brtt. á þskj. 811, frá hv. þm. Eyf. Fyrri brtt. gengur í þá átt, að bifreiðar, sem skráðar eru til vöruflutninga og annast að staðaldri flutning á vörum til bænda, skuli verða undanþegnar ákvæðum þessara l. Ég hygg nú, að flestar af þessum bifreiðum, sem vakir fyrir hv. flm. þessara till. að skuli undanþegnar þessum l., muni ekki falla undir ákvæði þeirra, þar sem í þessum bifreiðum er aðeins um eitt eða tvö sæti að ræða, fyrir utan sæti bifreiðarstjórans, og þó að í þeim sé ef til vill 1 bekkur til viðbótar, þá kemst sætatalan ekki svo hátt, að þær falli undir ákvæði l., nema um sé að ræða yfirbyggða vörubíla með bekkjum á pöllum, þá fulla þeir að sjálfsögðu undir ákvæði l.

Ég held því, að það sé ekki ástæða til þess að samþ. þessa till., a. m. k. eins og hún er úr garði gerð, og sérstaklega vegna þess, að ég óttast, að ef hún verði samþ., þá yrði opnuð smuga, sem gæti haft þau áhrif að draga mjög úr gildi l., þannig, að þá yrði farið að semja um vöruflutninga á bifreiðum, sem að miklu leyti yrðu svo notaðar til þess að annast fólksflutninga. Ég álít sem sagt, að það yrði ákaflega erfitt að annast framkvæmd l., ef slík smuga væri í þeim. Ég skil það svo, að ef þessi brtt. á þskj. 811 verður samþ., þá verði fyrri brtt. á þskj. 792 tekin aftur.

Þá leggur hv. 1. þm. Reykv. það til, með brtt. á þskj. 698, að ákvæði 7. gr. falli niður með öllu, en hv. þm. Eyf. leggja það til, með 2. brtt. á þskj. 811, að ráðh. öðlist ekki þá heimild, sem í þeirri gr. segir, fyrr en eftir 1. jan. 1937, þ. e. a. s. að til þess tíma sé ekki heimild fyrir ráðh. að láta ákvæði l. ná til bifreiða, sem hafa 6 sæti eða minna. Ég skal nú játa það, að í mínum augum er þetta ekkert höfuðatriði, þó að þessi heimild komi ekki í gildi fyrr en 1937, en hinu get ég ekki neitað, að mér finnst það hálfhlægilegt, ef heimildin er sett inn í l. á annað borð, að jafnframt sé ákveðið, að hún skuli ekki ganga í gildi fyrr en eftir 2 ár. Hinsvegar gæti ég fellt mig við það, að heimildin yrði ekki notuð fyrr en 1. jan. 1936, því að eftir árið 1935 yrði það farið að sýna sig, hvort smærri bifreiðar yrðu notaðar til þess að draga úr gagnsemi rútubíla. Hinsvegar vildi ég til samkomulags ganga inn á, að þessu yrði frestað t. d. til 1. jan. 1936.

Þá er 1 brtt. enn á þskj. 792, frá þeim hv. þm. Eyf., þar sem þeir leggja það til, að 10. gr. frv. verði orðuð eins og þar segir. En í 10. gr. frv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Félög og einstaklingar, sem haldið hafa uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum áður en l. gengu í gildi, ganga fyrir að öðru jöfnu við veitingu sérleyfis á sömu leiðum“. Þetta finnst mér í alla staði sjálfsagt og eðlilegt, en eftir brtt. á þskj. 792 á að skylda þá, sem sérleyfin veita, til þess að láta þá menn, sem hafa haldið uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum, fá sérleyfi til þess að halda þeim áfram, ef þeir fullnægja að öðru leyti þeim kröfum og skilyrðum, sem l. þessi setja. Mér finnst þetta allt of langt gengið. Mér finnst, að ef þessi brtt. yrði samþ., þá væri það sama sem að gefa þessum mönnum, sem nú af einhverri tilviljun hafa haldið uppi ferðum einhverjar sérstakar leiðir, fullkominn einkarétt til þess að annast þessar ferðir, a. m. k. um það 3 ára bil, sem þetta nær til. (JÁJ: Þá má eftir gr. veita fleirum en þessum mönnum sérleyfi). Ég kem að því síðar. Þar má bæta því við, að á sumum leiðum er án efa svo ástatt, að fleiri félög annast ferðirnar en heppilegt er, og þá er náttúrlega ekki skynsamlegt eða æskilegt að veita öllum þeim félögum eða einstaklingum sérleyfi til þess að annast flutninga á þeim leiðum, sem svo hagar til um.

Í sambandi við þetta vil ég segja frá því, hvernig mér finnst, að eðlilegast sé, að úthlutun sérleyfa verði höfð með höndum. Ég tel sjálfsagt, að þegar verið er að úthluta þessum sérleyfum, þá verði fyrst og fremst, eins og líka tekið er fram í 10. gr. frv., tekið tillit til þeirra manna, sem hafa haldið uppi ferðum á ákveðnum leiðum undanfarið, þannig, að þegar einstakur maður eða félag hefir byrjað fastar áætlunarferðir á einhverri leið, og haldið þeim áfram með svo og svo mörgum bílum með svo og svo mörgum sætum og um svo og svo langan tíma, þá verði það allt tekið til greina, þegar sérleyfin eru veitt, og ef það er unnt, þá verði farið sem næst því, sem nú er gert við úthlutun út- og innflutningsleyfa, og að miðað verði við þau hlutföll, sem maðurinn hefir haft í þessum flutningi undanfarin ár. Þá verður tekið tillit til þess, ef einhver maður hefir byrjað ferðir um eitthvert ákveðið svæði og lagt í það fé að koma þeim ferðum á stað, og verður hann þá látinn ganga fyrir öðrum. Ég skal þó ekki segja, að hægt verði að framkvæma þetta svona undir öllum kringumstæðum, vegna þess, að sumstaðar getur þessu hagað svo til, að það séu óheppilega margir menn um sömu „rútuna“, og það verði því hagkvæmara að ákveða, að þeim skuli fækka. En þá yrði náttúrlega að bæta þeim manni það upp, sem yrði að hætta þannig ferðum sínum um einhverja ákveðna leið, með því að gefa honum sérleyfi til þess að annast ferðir á öðrum leiðum. En eins og 10. gr. frv. ber með sér, þá er ætlazt til þess, að þeir, sem halda uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum, þegar þessi l. ganga í gildi, gangi að öðru jöfnu fyrir öðrum mönnum við veitingu sérleyfis á þeim leiðum. Þetta hefi ég hugsað mér, að yrði framkvæmt eins og ég nú hefi gert grein fyrir.

Ég veit, að það er örðugt að setja um þetta fyrirfram nokkrar fastar reglur. Menn verða að þreifa sig áfram með það, hvernig þessu verði heppilegast fyrir komið, en eftir þeim tilgangi, sem mér virðist vera með því að setja l. sem þessi, þá fæ ég ekki betur séð en að hægt sé að úthluta betri sérleyfum til þeirra manna sem hafa haldið uppi ferðum á hverjum stað.

Það er svo ekki fleira, sem ég finn ástæðu til þess að taka fram í sambandi við þær brtt., sem fyrir liggja.