15.12.1934
Efri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2786 í B-deild Alþingistíðinda. (3923)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi flutt skriflega brtt. við fyrri brtt. hv. þm. Eyf. á þskj. 811, viðvíkjandi undanþágu þeirri, sem ég býst við, að nauðsynlegt sé að hafa í þessu frv. að því er snertir fólksflutninga í sveitum. Þegar þetta frv. var í smíðum í skipulagsnefnd, þá var aldrei til þess ætlazt, að ákvæði þess yrðu látin ná til lítilla bifreiða. Sú viðbót hefir komizt inn í frv. í Nd., og orkar það nokkuð tvímælis, hvort ávinningur sé að því að koma þessum litlu bifreiðum undir fast skipulag, bifreiðum, sem hafa þetta 4 farþegasæti og mest eru notaðar til innanbæjaraksturs og í stuttar ferðir. Ég hefi þess vegna hugsað mér að greiða atkv. með till. hv. 1. þm. Reykv., því að ég hygg, að með því að samþ. hana verði miðlað nokkuð málum í þessum efnum, og þá mundi frestunartill. þeirra hv. þm. Eyf. falla niður af sjálfu sér, því að ég ímynda mér, að þeir hafi borið hana fram í því skyni, að komin væri reynsla á þetta skipulag áður en þetta ákvæði 7. gr. kæmi til framkvæmda.

Það, sem vakti fyrir okkur í skipulagsn. með þessu frv., var í raun og veru eingöngu það, að skipuleggja þá tegund fólksflutninga, sem fara fram á hinum svokölluðu stóru bifreiðum, eða m. ö. o. þeim bílum sem taka þetta allt að því 14 til 18 farþega. Þessar umbætur, að farið var að nota þessi farartæki, hafa komið svo skyndilega og haft svo gagngerð áhrif, að alvinsælustu bifreiðategundirnar, sem hér voru notaðar áður, sem voru sterkar amerískar bifreiðar með 6 farþegasætum, eru alveg að hverfa úr sögunni, af því að þær standast ekki samkeppnina við hinar stóru og vel yfirbyggðu bifreiðar.

Fólksflutningar með bifreiðum fara fram hér á landi aðallega eftir þrem leiðum. Fyrst og fremst eru þessar stóru bifreiðar notaðar, sem þetta frv. nær til, og svo þær litlu bifreiðar, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir borið fram till. um, að ekki skuli falla undir ákvæði þessara l., ef frv. nær fram að ganga. Í þriðja lagi eru fólksflutningar í sveitum mjög algengir á bifreiðum, sem eru að nokkru leyti yfirbyggðar og hafa þetta 6 til 7 sæti fyrir farþega og þar að auki allmikið rúm fyrir flutning. Þetta munu vera þær þrjár tegundir bifreiða, sem bezt hæfa flutningaþörf manna hér á landi nú sem stendur. Og af þeim hygg ég, að ekki sé ástæða til þess að reyna að skipuleggja aðrar en hinar stóru fólksflutningabifreiðar, eins og líka tilgangur frv. upphaflega var.

Ég ætla ekki að lengja umr. mikið um þetta efni, en get þó sagt frá því, að eftir upplýsingum frá manni, sem hafði mjög góða aðstöðu til þess að þekkja rekstrarkostnað þessara stóru bifreiða, og sem við í skipulagsn. byggðum að nokkru leyti starf okkar á, þá virðist þær benda til þess, að með því að nota slíkar bifreiðar mætti halda uppi fólksflutningum á milli Reykjavíkur og Akureyrar með þeim árangri, að sætið kostaði ekki nema 20 kr., í staðinn fyrir að það kostar nú 30 kr. Ég get líka sagt frá því svona til samanburðar, að á síðasta sumri kostuðu sæti í bifreiðum 20 kr. austur til Víkur, en þangað er miklu styttri leið og betri vegur en norður til Akureyrar. Ef þessi útreikningur er réttur, sem full ástæða er til að ætla, þá eru hér fyrir hendi afarmiklir sparnaðarmöguleikar fyrir almenning. Fólkið getur þá með því að nota þessar stóru bifreiðar, sem eru að verða nokkurskonar járnbrautir fyrir okkur, komizt hjá óþarfa eyðslu, sem af því leiðir, að dýr fargjöld eru greidd. Ég get náttúrlega ekki frekar en aðrir, sem eiga að sjá fram í tímann, fullyrt það, að þó að þetta skipulag takist, þá verði árangurinn svo glæsilegur, að hægt verði að lækka fargjöldin um þriðjung. En við treystum því, að það muni ganga í þá átt, og að í öllu falli muni mikið sparast almenningi í fargjöldum, ef þetta verður vel skipulagt.

Ég skal játa það, að það atriði er ekki nógu ljóst í frv., hvernig haga skuli fólksflutningum í dreifbýlinu, þar sem það borgar sig ekki að hafa fólksflutningabifreiðar með föstum áætlunarferðum, en verður aftur á móti að sameina fólksflutninga og vöruflutninga. Brtt. mín gengur út á það, að ráðh. geti látið sérstök ákvæði gilda um mannflutninga á bifreiðum, sem hafa fastan flutning á framleiðsluvörum bænda, eins og f. d. í sambandi við sláturhúsin, mjólkurbúin, kaupfélög o. fl. Það er bezt að gera sér það ljóst, að fólkið í dreifbýlinu ferðast að talsverðu leyti með þeim bifreiðum, sem flytja þar vörur á milli, hvort sem það er löglegt eða ekki, og bifreiðal. eru þess vegna stöðugt brotin á þeim stöðum, þar sem ekki er hægt að koma á hinni æskilegu verkaskiptingu í þessum efnum.

Ég hefi þess vegna hugsað mér að miðla málum milli þessara dálítið andstæðu skoðana og reyna að hjálpa til þess, að þær bifreiðar, sem hv. 1. þm. Reykv. vill koma undan ákvæðum þessara l., ef frv. nær fram að ganga, verði ekki að svo stöddu settar undir skipulagninguna. Í öðru lagi vil ég styðja það, að ríkisstj., ef henni er það unnt, láti þessa eðlilegu flutningaþörf strjálbýlisins fara fram áfram eins og hún fer fram nú, en aftur á móti verði því aðalefni frv. komið í framkvæmd, að allur mannflutningur með þessum stóru bifreiðum verði öruggari og hagkvæmari, og sérstaklega að fargjöldin lækki og kostnaðurinn við þessa flutninga þar með minnki.

Ég mun svo biðja hæstv. forseta að lesa brtt. mína upp fyrir hv. þdm.