15.12.1934
Efri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (3927)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi látið þess getið áður, að ég er ekki sérlega hrifinn af þessu frv. Þó skal ég játa, að ég leit nokkuð öðrum augum á það eftir að fram voru komnar brtt. frá hv. þm. Eyf., en nú sýnist mér vera farið að krukka allfreklega í þær. Aðalatriðið fyrir mér er fyrri till. á þskj. 811. En nú leggur hv. þm. S.-Þ. til, að ráðh. geti látið sérstök ákvæði gilda um fólksflutninga með bifreiðum, sem hafa vöruflutninga að aðalstarfi. Þetta sýnist mér svo takmarkað, að ég held, að það nái ekki þeim tilgangi, sem hv. 1. þm. Eyf. lýsti hér við 2. umr. Ég get tekið fram, að í mínu kjördæmi stendur líkt á og í Eyjaf. Bílar ganga þar daglega um sveitir, og flutningar á hestum í þessu hestauðga héraði eru nú mjög minnkaðir. Skagfirðingum er því mjög nauðsynlegt, ekki síður en Eyfirðingum, að fá að vera frjálsir með þessa flutninga sína, og verður sú þörf ennþá ríkari eftir að komið er mjólkur- og rjómabú á Sauðárkróki, sem nú er verið að setja á stofn. Ég er óánægður með till. hv. þm. S.-Þ. og þykir hún of óákveðin. Þar er gert ráð fyrir, að ráðh. geti látið gilda sérstök ákvæði um þetta, en það er ekki tekið fram, í hvaða átt þau eigi að ganga. Hann gæti eins hannað þessa flutninga eða látið vera að nota heimildina. Þessi sérstöku ákvæði, sem enginn veit, hvernig eiga að vera, eiga svo að gilda um þær bifreiðar, sem hafa að aðalstarfi að flytja vörur fyrir bændur. Það er nú svo um það fólk, sem notar þessa flutninga, að ferðalag þess með bílunum er ýmsum tilviljunum háð; það notar oft tækifærið, ef það nær í bil á veginum, og það er engin leið að fara að rannsaka það í hvert skipti, hvort viðkomandi bíll hefir vöruflutninga að aðalstarfi. En ef það er meining hv. þm. S.-Þ. að ná sama marki og hv. 1. þm. Eyf. vill, hvað er þá unnið með því að gera mönnum að skyldu að sækja um þessa undanþágu? Og svo ætti ráðh. hér að lofa slíkum undanþágum til þess að till. verði samþ. Ég sé ekki, að annað hefðist upp úr þessu en skriffinnskan við að sækja um þessar undanþágur og þá er þetta aðeins skollaleikur, sem eykur á fyrirhöfn þeirra, sem vilja nota bifreiðar á þennan hátt. En svo er annað í þessu máli. Það er venjulega svo, að þeir, sem eiga bifreiðarnar, kæra sig ekkert um þessa flutninga. Það er oftast fyrir greiðasemi, að þeir lofa fólkinu að vera með. En ef þeir þyrftu að fá undanþágu frá lagaákvæði til þess að mega flytja fólkið gætu þeir sagt: Við höfum enga undanþágu! Það væri engin ástæða fyrir þá að tryggja sér slíka undanþágu fyrirfram, því að þessir flutningar eru ekki í þeirra þágu. Ég mælist því til, að hv. þm. vildi taka þessa till. aftur, því að hún gerir aðeins óleik þeim héruðum, sem líkt stendur á um eins og Eyjafjörð og Skagafjörð. (JJ: Misskilningur!). Það er enginn misskilningur. Um síðari brtt. á þskj. 811 þarf ég ekki að ræða, því að hún kemur víst ekki til atkv., ef ætlunin er að samþ. till. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 698. — Um brtt. á þskj. 792 þarf ég ekki mikið að segja; sú fyrri verður víst tekin aftur, og kannske sú síðari líka. Þessar brtt. snerta ekki mitt kjördæmi sérstaklega. En það snertir alla, sem um er rætt í þessu frv. yfirleitt, að vera að skipuleggja þessar ferðir. Því var lofað, að flutningsgjöldin skyldu lækka um helming. Mér heyrðist hv. þm. S.-Þ. draga það í efa, en hann mun vera aðalfaðir þessa máls — (JJ: Það er nú oflof!). Jæja, það mætti kannske reyna að taka blóðprufu. Það má vera, að fleiri hafi lagt í púkkið, og skal ég ekki fara í kappræður út af því, ef hv. þm. vill ekki kannast við faðernið. En kunnugt er honum a. m. k. um faðernið. Hv. þm. vildi ekki lofa því, að flutningsgjöldin lækkuðu um þriðjung, en að áreiðanlega mundu þau lækka. (JJ: Þýðir ekki að lofa, reynslan sker úr). Hann lofaði nú samt, að þau skyldu lækka, og hann nefndi 1/3. Það verður gaman að sjá, hvernig þetta verður í framkvæmd. (JJ: Til þess þarf að samþ. frv.!). Já, það verður nú víst nógur meiri hl. til þess; ég býst ekki við, að farið verði að draga frv. til baka héðan af. En ég er ekki sannfærður um, að þessi lækkun verði eins mikil og hv. þm. hefir lofað. Hinsvegar gæti ég trúað, að farþegum yrði ekki sýnd eins mikil lipurð og verið hefir hingað til. Það er venjulega svo, að þegar menn hafa fengið slík einkaleyfi, finnst þeim fólkið meira upp á sig komið en ella og sýna því ekki eins mikla lipurð. (JJ: Tóbakseinkasalan gengur ágætlega!). Hún kemur ekki þessu máli við, en eitthvað rámar mig í það, að kvartað hafi verið á Austurlandi yfir henni, og ég man, að eitt sinn var góður kunningi minn og þessa hv. þm. með tóbaksvörur, sem vafasamt þótti að væru frá verzl., en það tóku víst allir fyrir góða og gilda afsökun, að hann hefði ekki getað fengið þessar vörur hjá verzluninni heima hjá sér. Viðvíkjandi brtt. á þskj. 792 vil ég segja það, að það er rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að úr því að ráðh. lýsir yfir því, að sömu menn skuli fá þessa flutninga, sem hafa haft þá, virðist lítil ástæða til að segja í frv., að þeir skuli að öðru jöfnu látnir sitja fyrir. Ég get vel skilið, að hv. þm. S.-Þ. sé ekkert sérlega montinn af þessu afkvæmi Rauðku, því að fá frv. hafa sætt hér jafnmiklum breytingum og þetta. Það hefir m. a. alveg gleymzt að taka tillit til flutninga um sveitir landsins. Þessu frv. var breytt stórkostlega í Nd., og hér er fjöldi brtt. á ferðinni. Ef svo á að lappa upp á það með hinum og öðrum yfirlýsingum frá ráðh. um, að hann ætli að framkvæma þetta eða hitt svo eða svo, yfirlýsingum, sem hæpið er, að geti samrýmzt ákvæðum frv. sjálfs, þá má segja, að þó að frv. verði á endanum samþ., þá er það ekki með neinum glans.