15.12.1934
Efri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Eyf. óskaði eftir, að ég skýrði nánar frá, hvernig ég mundi framkvæma 10. gr. eins og hún er í frv., og get ég orðið við þeim tilmælum hans.

Ég get gefið þá yfirlýsingu, að það leikur ekki á tveim tungum, hvernig ég álít, að 10. gr. þessara laga verði framkvæmd, eftir því sem hún fellur undir minn úrskurð. Þetta verður þannig framkvæmt, að úthlutað verður sérleyfum, eftir því sem við verður komið, eftir sömu reglum og notaðar hafa verið við úthlutun innflutnings- og útflutningsleyfa. Krafizt verður upplýsinga um ferðir, sem óskað er eftir sérleyfum fyrir, og veiting sérleyfanna verður miðuð við það, hvort menn hafa undanfarið annazt fólksflutninga á þeirri leið, sem um er að ræða í það og það skiptið. Þó getur þessi regla ekki orðið algild, ef of margir sækja t. d. um einhverja leið. Í slíkum tilfellum verður reynt að bæta úr þessum vandkvæðum með því að gefa mönnum kost á sérleyfum á öðrum leiðum, eftir því sem unnt er.

Það liggur í augum uppi, að það er tilgangur laganna, að 10. gr. verði framkvæmd. Mér skildist á hv. þm., að hann vildi fá yfirlýsingu frá mér um framkvæmd skrifl. brtt. hv. þm. S.-Þ. Ég vil taka það fram, að ég treysti mér ekki til þess að gefa yfirlýsingu í þessu efni, sem að haldi komi, svo að ég segi eins og er. Yfirlýsing þessi kynni að vera á annan veg heldur en ég síðar óskaði ef til vili eftir að væri. Með leyfi hæstv. forseta mun ég lesa upp skriflegu brtt. Hún hljóðar svo:

„Ráðherra getur einnig látið sérstök ákvæði gilda um mannflutninga samkv. þessum lögum, á bifreiðum, sem hafa fasta flutninga á framleiðsluvörum bænda að aðalstarfi“.

Mér finnst þessi till. vera skýr og ákveðin, þ. e. a. s., að það er rétt að fara fram á, að settar verði sérstakar reglur um flutning með þessum bifreiðum einum og aðrar en um flutning þeirra bifreiða, sem úthlutað hefir verið sérleyfum til langferðaflutninga yfirleitt. Ég get ekki að svo stöddu gefið yfirlýsingu um tilhögun þessara sérstöku ákvæða. Hinsvegar get ég lýst yfir því, að ég mun, eftir því sem auðið er án þess að ganga á rétt einstakra manna, taka fyllsta tillit til eigenda og notenda þeirra bifreiða, sem hér um ræðir.

Í sambandi við þetta mái að öðru leyti skal ég taka það fram, að í flestum tilfellum, a. m. k. í því héraði, sem hv. þm. ber mest fyrir brjósti, Eyjafirði, eru bifreiðar þannig gerðar, að þær koma ekki undir ákvæði þessara laga. Flestar eru þessar bifreiðar þannig útbúnar, að þær hafa aðeins einn bekk fyrir utan bílstjórabekkinn, svo að þær hafa ekki rúm fyrir fleiri en 6 farþega í senn. En ákvæði þessara laga ná, sem kunnugt er, einungis til bifreiða, sem sæti hafa fyrir fleiri en 6 farþega.

Um það, að flytja fólk á pöllum eða mjólkurbrúsa, skal ég fátt eitt segja. Það kemur þessari löggjöf ekkert við, ef bifreiðar hafa ekki 6 sæti fyrir farþega, en eftir bifreiðalögunum er þetta óheimilt, ef ég man rétt. Það snertir ekkert þessi lög. Hinsvegar, ef sú smuga er opnuð, sem gert er ráð fyrir í brtt. hv. 1. þm. Eyf., að allar bifreiðar, sem starfa við flutninga fyrir bændur, verði undanþegnar ákvæðum þessara laga, þá er þeim opnuð smuga, sem ómögulegt er að segja. hversu mikið verði notuð. Bifreiðar, sem hafa kassa til fólksflutninga, geta með hægu móti gert samning við bændur, aðeins til málamynda, og haldið áfram sömu flutningum fyrir þá eftir sem áður. Þessi möguleiki getur dregið úr gagnsemi slíkra laga sem hér um ræðir.