18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (3938)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Bernharð Stefánsson [óyfirl.]:

Þegar ég lauk ræðu minni við fyrri hl. þessarar umr., var ég svo óheppinn, að ég var kallaður burt, svo að ég heyrði ekki til þeirra ræðumanna, sem á eftir mér töluðu. Þessu hefi ég þó nokkuð bætt úr, þar sem ég hefi nú lesið kafla úr ræðu hæstv. atvmrh., og eftir þeirri yfirlýsingu, sem þar kom fram, getum við flm. till. á þskj. 792 tekið aftur aðra brtt., ef fengin er fullnægjandi yfirlýsing frá hans hendi, að fyllsta réttlætis verði gætt við úthlutun sérleyfanna. En fyrri brtt. á þskj. 792 var hinsvegar áður tekin aftur af þeirri orsök, að við fluttum aðra till. síðar um sama efni.

Þá er að minnast á fyrri brtt. okkar þm. Eyf. á þskj. 811, sem hefir orðið talsverður þyrnir í augum ýmissa, þó að undarlegt sé, því að sumir af þeim mönnum, sem hafa haft á móti þeirri till., segja jafnframt, að þeir, sem við viljum undanþiggja ákvæðum l., heyri ekki undir l. Þá er bágt að sjá, hvaða skaða till. gæti gert, ef svo er, en náttúrlega má þá um leið segja, að hún sé gagnslaus.

Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. S.-Þ. við okkar till. er það að segja, að hún er nokkuð óákveðin. Ég skal að vísu játa, að ef full trygging væri fengin fyrir þessum lagaákvæðum á þann hátt, eins og hann gaf yfirlýsingu um, að hann meinti það, væri hægt að ganga að henni, en sú trygging liggur ekki fyrir. En það kynni nú að vera, að menn kynnu að hafa það mest á móti þessari till. okkar á þskj. 811, og það hefir enda komið fram, að það er beint tekið fram, að ákveðnir flutningar skuli vera undanþegnir ákvæðum þessara l. Það er náttúrlega útlátalaust að ákveða þetta öðruvísi, og við munum því leyfa okkur að leggja fram skrifl. brtt. við 2. málsgr. 1. gr., að á eftir orðunum „sem skráðar eru til vöruflutninga“ komi: né bifreiðar, sem flytja að staðaldri framleiðsluvörur bænda. Með því að þetta verði þannig orðað, þá er fullnægt okkar vilja í þessu efni, en ef til vill þykir orðalagið aðgengilegra, og ég hygg líka, að þá sé þessu fullnægt um allar bifreiðar, sem flytja fyrir bændur, þó að ekki sé um mjólkurbú eða neitt þessháttar að ræða, því að venjulega er það svo, að þær bifreiðar, sem flytja vörur að staðaldri heim til bænda, flytja einnig að staðaldri framleiðsluvörur bænda, þó að það sé kannske ekki mjólk á hverjum degi. Ég þori samt ekki að taka till. á þskj. 811 aftur þegar í stað, en verði afbrigði leyfð fyrir hinni skrifl. brtt. okkar, þá er hún tekin aftur, og þá kemur þannig ekki til greina till. á þskj. 834, af því að hún er brtt. við brtt. á þskj. 811.

Út af orðum, sem hv. frsm. n. lét falla við fyrri hluta þessarar umr. um það, að hann hefði meint ummæli sín til mín á þá leið, að ég hefði átt að bera brtt. undir n., þá getur það vel verið, að sú hafi verið meiningin. En það var síðari hluta dagsins daginn áður en átti að taka frv. fyrir, sem hann orðaði það við mig, að ég skyldi koma með brtt., en eftir að við sömdum brtt., sáum við hann alls ekki, svo að þótt hann kynni að hafa meint þetta svo, þá var a. m. k. ekkert tækifæri til þess að fullnægja því. — Ég mun svo afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.